Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig er afstæðiskenning Alberts Einstein?

Sævar Helgi Bragason

Afstæðiskenningin er vísindakenning sem Albert Einstein setti fram í tvennu lagi, annars vegar sem takmörkuðu afstæðiskenninguna árið 1905 og hins vegar sem almennu afstæðiskenninguna árið 1916.

Takmarkaða afstæðiskenningin segir meðal annars að massi hluta fari eftir hraða þeirra. Þetta er einmitt það sem felst í þekktustu jöfnu Einsteins, E = mc2. Þessi jafna segir hversu mikil orka (E) myndist þegar tiltekið efnismagn (m) eyðist. Ljóshraðinn er mjög stór tala og enn stærri sé hann hafinn upp í annað veldi (c2) svo lítill massi samsvarar gríðarlegri orku. Með þessa jöfnu að vopni getum við til dæmis skilið hvers vegna sólin skín.

Almenna afstæðiskenningin er kenning Einsteins um þyngdarkraftinn, þann kraft sem ekki var vikið að í takmörkuðu afstæðiskenningunni. Þar er hreyfingu hluta lýst með öðrum og nákvæmari hætti en tíðkast með sígildri eðlisfræði Ísaks Newton. Um þetta segir Lárus Thorlacius í svari sínu við spurningunni Er um að ræða eitthvert miðsóknarafl í afstæðiskenningunni vegna þyngdaraflsins?:
Í kenningunni er ekki litið svo á að þyngdarkraftar verki milli hluta heldur er þyngdaráhrifum lýst út frá rúmfræðilegum eiginleikum tíma og rúms. Í sígildri eðlisfræði er hreyfing hluta í þrívíðu evklíðsku rúmi mæld í algildum tíma, sem tifar áfram óháð öllu sem fram fer. Í afstæðiskenningunni er rúmi og tíma fléttað saman í eina heild, svonefnt tímarúm sem hefur fjögur hnit: þrjú rúmhnit og eitt tímahnit. Jöfnur Einsteins lýsa því hvernig efnið, eða réttara sagt sú orka sem fólgin er í efninu, hefur áhrif á tímarúmið.
Einstein innleiddi svonefnt almennt afstæðislögmál til grundvallar þessari kenningu. Samkvæmt þessu lögmáli eru allir athugendur jafnréttháir, þótt þeir hreyfist ekki með jöfnum hraða innbyrðis og hefur það ýmsar skrýtnar afleiðingar í för með sér.

Afstæðiskenningin bylti vísindunum og er í dag ómissandi hjálpartæki öllum þeim sem vinna að rannsóknum á alheiminum. Hún getur snert skilning okkar á ýmsum flötum daglegs lífs sem eru kannski ekki ofarlega í hugum okkar á hverjum degi. Þannig væri GPS-staðsetningarkerfið óhugsandi án afstæðiskenningarinnar svo dæmi sé tekið.

Þú getur lesið nánar um afstæðiskenninguna í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvernig „verkar“ afstæðiskenning Einsteins? Hvernig getur hún útskýrt betur hvað er að gerast í alheiminum? Einnig bendum við á góða umfjöllun NOVA um Einstein og hugmyndir hans.

Höfundur

Sævar Helgi Bragason

stjörnufræðikennari

Útgáfudagur

4.5.2005

Spyrjandi

Nemendur í Laugalækjarskóla

Tilvísun

Sævar Helgi Bragason. „Hvernig er afstæðiskenning Alberts Einstein?“ Vísindavefurinn, 4. maí 2005, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4984.

Sævar Helgi Bragason. (2005, 4. maí). Hvernig er afstæðiskenning Alberts Einstein? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4984

Sævar Helgi Bragason. „Hvernig er afstæðiskenning Alberts Einstein?“ Vísindavefurinn. 4. maí. 2005. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4984>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig er afstæðiskenning Alberts Einstein?
Afstæðiskenningin er vísindakenning sem Albert Einstein setti fram í tvennu lagi, annars vegar sem takmörkuðu afstæðiskenninguna árið 1905 og hins vegar sem almennu afstæðiskenninguna árið 1916.

Takmarkaða afstæðiskenningin segir meðal annars að massi hluta fari eftir hraða þeirra. Þetta er einmitt það sem felst í þekktustu jöfnu Einsteins, E = mc2. Þessi jafna segir hversu mikil orka (E) myndist þegar tiltekið efnismagn (m) eyðist. Ljóshraðinn er mjög stór tala og enn stærri sé hann hafinn upp í annað veldi (c2) svo lítill massi samsvarar gríðarlegri orku. Með þessa jöfnu að vopni getum við til dæmis skilið hvers vegna sólin skín.

Almenna afstæðiskenningin er kenning Einsteins um þyngdarkraftinn, þann kraft sem ekki var vikið að í takmörkuðu afstæðiskenningunni. Þar er hreyfingu hluta lýst með öðrum og nákvæmari hætti en tíðkast með sígildri eðlisfræði Ísaks Newton. Um þetta segir Lárus Thorlacius í svari sínu við spurningunni Er um að ræða eitthvert miðsóknarafl í afstæðiskenningunni vegna þyngdaraflsins?:
Í kenningunni er ekki litið svo á að þyngdarkraftar verki milli hluta heldur er þyngdaráhrifum lýst út frá rúmfræðilegum eiginleikum tíma og rúms. Í sígildri eðlisfræði er hreyfing hluta í þrívíðu evklíðsku rúmi mæld í algildum tíma, sem tifar áfram óháð öllu sem fram fer. Í afstæðiskenningunni er rúmi og tíma fléttað saman í eina heild, svonefnt tímarúm sem hefur fjögur hnit: þrjú rúmhnit og eitt tímahnit. Jöfnur Einsteins lýsa því hvernig efnið, eða réttara sagt sú orka sem fólgin er í efninu, hefur áhrif á tímarúmið.
Einstein innleiddi svonefnt almennt afstæðislögmál til grundvallar þessari kenningu. Samkvæmt þessu lögmáli eru allir athugendur jafnréttháir, þótt þeir hreyfist ekki með jöfnum hraða innbyrðis og hefur það ýmsar skrýtnar afleiðingar í för með sér.

Afstæðiskenningin bylti vísindunum og er í dag ómissandi hjálpartæki öllum þeim sem vinna að rannsóknum á alheiminum. Hún getur snert skilning okkar á ýmsum flötum daglegs lífs sem eru kannski ekki ofarlega í hugum okkar á hverjum degi. Þannig væri GPS-staðsetningarkerfið óhugsandi án afstæðiskenningarinnar svo dæmi sé tekið.

Þú getur lesið nánar um afstæðiskenninguna í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvernig „verkar“ afstæðiskenning Einsteins? Hvernig getur hún útskýrt betur hvað er að gerast í alheiminum? Einnig bendum við á góða umfjöllun NOVA um Einstein og hugmyndir hans.

...