Sólin Sólin Rís 03:54 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:46 • Síðdegis: 17:17 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:55 • Síðdegis: 23:37 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:54 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:46 • Síðdegis: 17:17 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:55 • Síðdegis: 23:37 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvert er stærsta skordýr í heimi?

Gísli Már Gíslason

Lengsta núlifandi skordýr sem mælst hefur er af ætt förustafa, og er þá miðað við heildarlengd. Lengsti búkurinn er hins vegar á Herkúlesbjöllu af ættkvísl nashyrningsbjalla. Þyngsta bjallan er golíatsbjallan af sömu ættkvísl. Stærsta skordýr sem lifað hefur á jörðinni er tröllaslenja af ættbálki drekaflugna.

Þegar rætt er um stærð skordýra getur þurft að skilgreina nánar hvað átt er við með "stærð". Er það heildarlengd, þegar útlimir eru teygðir fram og aftur, eða er það búklengd eða er það þyngd?

Förustafir eru laufblaðaætur og svipar mjög til greina. Þeir geta orðið mjög langir og erfitt er að koma auga á þá á meðal trjágreinanna.

Lengsta skordýr sem mælst hefur er förustafur (Phasmida) og mældist það 555 mm þegar mælt var frá ysta ristarlið framganglima að ysta ristarlið afturliðar og ganglimirnir voru teygðir fram og aftur frá bolnum. Það nefnist Pharnacia serratipes og er frá Malasíu-skaganum. Förustafir eru laufblaðaætur og svipar mjög til greina. Þeir leynast með ganglimi strekkta fram og aftur með sér og mynda eina "grein" á tré eða runna.

Stærstu núlifandi skordýr, þegar er miðað við búkstærð, sérstaklega þyngd, eru bjöllur (Coleoptera) af ýflaætt (Scarabaeidae), sem einnig hefur verið nefnd tordýflaætt. Þær eru fyrst og fremst saurætur, éta saur spendýra. Stærstu bjöllurnar af þessari ætt eru af ættkvíslinni nashyrningsbjöllur (Dynastinae) og er herkúlesbjallan (Dynastes hercules) þeirra stærst, en karldýr hennar er 16 cm á lengd. Heimkynni hennar eru frumskógar Vestur-Indía og Mið-Ameríku.

Nashyrningsbjöllurnar lifa aðallega á rotnandi jurtaleifum og rotnandi rótum. Þyngsta bjallan er golíatsbjallan (Goliathus goliathus) (Coleoptera: Scarabaeidae), sem lifir í regnskógum Afríku. Hún er allt að 100 grömm að þyngd. Fílabjallan (Megasoma elephas) er oft talin stærst, en hún vegur ,,aðeins" 35 g. Karldýrið er ekki með eins löng horn og herkúlesbjallan, það er 13 cm langt en búkmeira. Fílabjallan lifir einnig í hitabelti Ameríku. Atlasbjallan (Chalcosoma atlas) er í frumskógum Suðaustur-Asíu og Indónesíu og er stærsta bjallan í þeim heimshluta, en karldýr hennar verða 12 cm löng.

Slenjudrottning er stærsta núlifandi drekaflugan.

Stærsta skordýr sem lifað hefur á jörðinni er tröllaslenja (Meganeuropsis americana) með 71 cm vænghaf. Þessi dýr eru af drekafluguættbálknum (Odonata) og voru uppi á Perm-tímabilinu (fyrir 270-220 milljónum ára) á miðlífsöld. Margar drekaflugur á kolatímabilinu (fyrir 350-270 milljón árum) höfðu vænghaf stærra en 45 cm.

Stærsta núlifandi drekafluga, slenjudrottning (Anax imperator) er með 11 cm vænghaf og lifir í hlýrri héruðum Mið-Evrópu, við Miðjarðarhaf og Norður-Afríku og austur um hlýrri héruð Asíu. Þessi skordýr eru rándýr og lifa á öðrum skordýrum.

Flest skordýr eru aftur á móti milli 1-10 mm löng, en minnstar eru dvergvespur (Mymeridae), aðeins 0,3 mm á lengd. Lirfur þeirra lifa á skordýraeggjum.

Myndir:

Höfundur

Gísli Már Gíslason

prófessor emeritus í líffræði við HÍ

Útgáfudagur

7.2.2000

Síðast uppfært

20.12.2018

Spyrjandi

Birgir Smári Ársælsson, 14 ára

Tilvísun

Gísli Már Gíslason. „Hvert er stærsta skordýr í heimi?“ Vísindavefurinn, 7. febrúar 2000, sótt 19. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=50.

Gísli Már Gíslason. (2000, 7. febrúar). Hvert er stærsta skordýr í heimi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=50

Gísli Már Gíslason. „Hvert er stærsta skordýr í heimi?“ Vísindavefurinn. 7. feb. 2000. Vefsíða. 19. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=50>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvert er stærsta skordýr í heimi?
Lengsta núlifandi skordýr sem mælst hefur er af ætt förustafa, og er þá miðað við heildarlengd. Lengsti búkurinn er hins vegar á Herkúlesbjöllu af ættkvísl nashyrningsbjalla. Þyngsta bjallan er golíatsbjallan af sömu ættkvísl. Stærsta skordýr sem lifað hefur á jörðinni er tröllaslenja af ættbálki drekaflugna.

Þegar rætt er um stærð skordýra getur þurft að skilgreina nánar hvað átt er við með "stærð". Er það heildarlengd, þegar útlimir eru teygðir fram og aftur, eða er það búklengd eða er það þyngd?

Förustafir eru laufblaðaætur og svipar mjög til greina. Þeir geta orðið mjög langir og erfitt er að koma auga á þá á meðal trjágreinanna.

Lengsta skordýr sem mælst hefur er förustafur (Phasmida) og mældist það 555 mm þegar mælt var frá ysta ristarlið framganglima að ysta ristarlið afturliðar og ganglimirnir voru teygðir fram og aftur frá bolnum. Það nefnist Pharnacia serratipes og er frá Malasíu-skaganum. Förustafir eru laufblaðaætur og svipar mjög til greina. Þeir leynast með ganglimi strekkta fram og aftur með sér og mynda eina "grein" á tré eða runna.

Stærstu núlifandi skordýr, þegar er miðað við búkstærð, sérstaklega þyngd, eru bjöllur (Coleoptera) af ýflaætt (Scarabaeidae), sem einnig hefur verið nefnd tordýflaætt. Þær eru fyrst og fremst saurætur, éta saur spendýra. Stærstu bjöllurnar af þessari ætt eru af ættkvíslinni nashyrningsbjöllur (Dynastinae) og er herkúlesbjallan (Dynastes hercules) þeirra stærst, en karldýr hennar er 16 cm á lengd. Heimkynni hennar eru frumskógar Vestur-Indía og Mið-Ameríku.

Nashyrningsbjöllurnar lifa aðallega á rotnandi jurtaleifum og rotnandi rótum. Þyngsta bjallan er golíatsbjallan (Goliathus goliathus) (Coleoptera: Scarabaeidae), sem lifir í regnskógum Afríku. Hún er allt að 100 grömm að þyngd. Fílabjallan (Megasoma elephas) er oft talin stærst, en hún vegur ,,aðeins" 35 g. Karldýrið er ekki með eins löng horn og herkúlesbjallan, það er 13 cm langt en búkmeira. Fílabjallan lifir einnig í hitabelti Ameríku. Atlasbjallan (Chalcosoma atlas) er í frumskógum Suðaustur-Asíu og Indónesíu og er stærsta bjallan í þeim heimshluta, en karldýr hennar verða 12 cm löng.

Slenjudrottning er stærsta núlifandi drekaflugan.

Stærsta skordýr sem lifað hefur á jörðinni er tröllaslenja (Meganeuropsis americana) með 71 cm vænghaf. Þessi dýr eru af drekafluguættbálknum (Odonata) og voru uppi á Perm-tímabilinu (fyrir 270-220 milljónum ára) á miðlífsöld. Margar drekaflugur á kolatímabilinu (fyrir 350-270 milljón árum) höfðu vænghaf stærra en 45 cm.

Stærsta núlifandi drekafluga, slenjudrottning (Anax imperator) er með 11 cm vænghaf og lifir í hlýrri héruðum Mið-Evrópu, við Miðjarðarhaf og Norður-Afríku og austur um hlýrri héruð Asíu. Þessi skordýr eru rándýr og lifa á öðrum skordýrum.

Flest skordýr eru aftur á móti milli 1-10 mm löng, en minnstar eru dvergvespur (Mymeridae), aðeins 0,3 mm á lengd. Lirfur þeirra lifa á skordýraeggjum.

Myndir:...