
Rannsóknir hafa sýnt að skordýr greina liti misvel og því er samband á milli litsins á krónublöðum blómplantna og hvort þau séu frævuð af skordýrum. Skordýr hafa ágæta litasjón en hún er nokkuð frábrugðin litasjón til dæmis prímata. Sjónskynjunin skordýranna er á þrengra bili, til dæmis sjá þau ekki rauðan lit en geta skynjað útfjólubláan lit. Blómplöntur í hitabeltinu sem eru rauðar laða því ekki til sín skordýr, heldur fugla eins og til dæmis kólibrífugla. Blómplöntur sem laða til sín skordýr hafa oftast hvít, gul, bláleit eða fjólublá krónublöð. Í íslenskri náttúru er lítið um rauð blóm þar sem ekki er mikið um að önnur dýr en skordýr sjái um frævun. Hér á landi er algengast að frævun blómplantna verði fyrir tilstuðlan vinds og slíkar blómplöntur þurfa ekki að vera litskrúðugar. Hins vegar er gulur litur nokkuð algengur, en fjölmörg skordýr leitast við að ná sér í blómsykur gulra plantna og fræva þá plöntuna um leið. Mynd:
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.