Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju nota sálfræðingar svartar klessumyndir og spyrja sjúklingana út í þær?

Þær klessumyndir sem spyrjandi vísar í eru hluti af Rorschach blekklessuprófinu (Rorschach Inkblot Test) sem oftast er bara kallað Rorschach-próf. Klessumyndirnar eru 10 talsins og í raun ekki allar svartar heldur eru sumar í lit.

Rorschach-prófið er stundum notað af klínískum sálfræðingum, geðlæknum eða öðrum klínískum sérfræðingum til að reyna að skyggnast inn í hugarheim skjólstæðinga sinna, kynnast tilfinningum þeirra og löngunum og kanna tengsl þeirra við aðra. Sérfræðingurinn gæti sagt eitthvað á þessa leið: „Fólk sér ýmiss konar hluti út úr þessum myndum. Segðu mér hvað þú sérð, hvaða hugsanir það vekur og hvað þær tákna fyrir þig.“ Sérfræðingurinn reynir svo að finna þemu í svörum fólks, til að mynda hvort þau snúist flest um ofbeldi, kvíða eða kynlíf. Einnig athugar hann hvort fólk veiti smáatriðum myndanna athygli eða horfi fremur á heildarmyndina, og hvort fólk hiki við að svara hvað því detti í hug þegar það sér vissar myndir.



Í Rorschach-prófi er fólk látið túlka klessumyndir eins og þessa.

Rorschach-próf er eitt svokallaðra frávarpsprófa (projective tests). Önnur þekkt frávarpspróf eru til dæmis manneskjuteikniprófið (Draw-a-Person Test), TAT-prófið (Thematic Apperception Test) og setningalokaprófið (Sentence Completion Test). Í manneskjuteikniprófinu er fólk látið teikna mynd bæði af sér og öðrum. Í TAT-prófinu þarf fólk að semja sögu um myndir sem því eru sýndar, og í setningalokaprófinu er fólk látið ljúka setningum eins og "Móðir mín er..." eða "Ég vildi óska þess að...". Öll eiga frávarpspróf sameiginlegt að gengið er út frá því að ef fólki eru sýnd tvíræð áreiti eins og blekklessur eða ókláraðar setningar muni það túlka þau í samræmi við hugðarefni sín og tilfinningar.

Þeir sem aðhyllast notkun frávarpsprófa í sálfræði eru aðallega þeir sem fylgja svokallaðri sálaraflsstefnu (psychodynamic perspective). Þeir telja að prófin séu lykill að undirmeðvitund fólks; leið til þess að kynnast fólki á þá vegu sem það þekkir sig jafnvel ekki sjálft. Óhætt er þó að segja að flestir aðrir sálfræðingar setja stórt spurningamerki við slík próf, og notkun þeirra er almennt ekki viðurkennd innan fræðilegrar sálfræði. Rannsóknir hafa líka sýnt að prófin eru hvorki áreiðanleg né réttmæt.

Reynt hefur verið að bæta áreiðanleika prófanna, það er stöðugleika mælinga, með því að búa til nákvæmari leiðbeiningar um hvernig skuli túlka svör skjólstæðinga. Það breytir því samt ekki að prófin mæla ekki það sem þau eiga að mæla. Sem dæmi má nefna að sérfræðingar sem nota manneskjuteikniprófið telja að þeir sem teikni fólk með áberandi augu séu fremur vænisjúkir (paranoid) en aðrir (eins og til dæmis á myndinni hér til hliðar). Samt sem áður hafa fjórar mismunandi rannsóknir staðfest að þetta er ekki svo.

Sömuleiðis taldi Wheeler nokkur að 20 atriði í svörum karlkyns skjólstæðinga í Rorschach-prófinu bentu til samkynhneigðar þeirra. Tvö þessara atriða spá í raun og veru fyrir um samkynhneigð, eða þegar fólk sér ógnandi mann eða dýr út úr einni blekklessunni, og manneskju eða dýr sem líkist manni út úr annarri. Hin 18 atriðin eru aftur á móti vitagagnslaus. Þetta eru atriði eins og að sjá kvenmannsföt, kynfæri eða fólk af óljósu kyni. Samt sem áður eru margir notendur Rorschach-prófsins vissir um að þessi atriði fari saman við samkynhneigð. Þeir nota aftur á móti yfirleitt ekki þau tvö atriði sem þó skipta máli til þess að grennslast fyrir um samkynhneigð.

Þetta skýrist mjög líklega af svokallaðri sýndarfylgni (illusory correlations) á milli gagnslausu atriðanna og samkynhneigðar. Vegna þess að samkynhneigðir karlmenn vekja hjá mörgum upp hugsanir um kvenmannsföt, svo dæmi sé tekið, tekur það sérstaklega eftir því þegar þetta tvennt fer saman, en mun síður þegar annað kemur án hins. Þess vegna finnst fólki þessi tvö atriði fylgjast að, jafnvel þótt þau geri það alls ekki.

Heimildir og myndir:
  • Chapman, L. J. og Chapman, J. P. (1967). Genesis of popular but erroneous psychodiagnostic observations. Journal of Abnormal Psychology, 72, 193-204.
  • Chapman, L. J. og Chapman, J. P. (1969). Illusory correlations as an obstacle to the use of valid psychodiagnostic signs. Journal of Abnormal Psychology, 74, 271-280.
  • Nolen-Hoeksema, S. (2004). Abnormal psychology (3. útgáfa). New York: McGraw-Hill.
  • Myndin af blekklessunni er fengin af ArtLex: Art Dictionary.
  • Myndin af manneskjunni er fengin hjá Stay Free! blaðinu.

Útgáfudagur

7.6.2005

Spyrjandi

Guðrún Magnea Magnúsdóttir, f. 1989

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

doktor í taugavísindum

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Af hverju nota sálfræðingar svartar klessumyndir og spyrja sjúklingana út í þær?“ Vísindavefurinn, 7. júní 2005. Sótt 21. september 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=5039.

Heiða María Sigurðardóttir. (2005, 7. júní). Af hverju nota sálfræðingar svartar klessumyndir og spyrja sjúklingana út í þær? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5039

Heiða María Sigurðardóttir. „Af hverju nota sálfræðingar svartar klessumyndir og spyrja sjúklingana út í þær?“ Vísindavefurinn. 7. jún. 2005. Vefsíða. 21. sep. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5039>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Elsa Eiríksdóttir

1975

Elsa Eiríksdóttir er dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar snúa að því hvernig fólk lærir verklega kunnáttu, hvernig yfirfærsla þekkingar og færni á sér stað og hvernig uppbygging náms og framsetning námsefnis getur haft þar áhrif.