Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hversu algengt er að nýjar eyjar verði til í eldgosum?

Sigurður Steinþórsson

Þessu er nú tæplega auðsvarað fyrir heiminn allan, en svo vel vill til að Sigurður heitinn Þórarinsson skrifaði grein um neðansjávargos við Ísland í Náttúrufræðinginn árið 1965. Þá var Surtseyjargosið 1963-67 í algleymingi og efnið ofarlega á baugi. Í inngangi að greininni segir Sigurður frá nokkrum þeirra erlendu eyja sem upp hefur skotið í eldgosum.

Sumarið 1831 myndaðist eyja miðja vegu milli Sikileyjar og Pantelleríu. Hún varð um 60 m há en hvarf fljótlega í hafið. Í Tonga-eyjaklasanum á Kyrrahafi skaut upp eyju árið 1885 sem varð 75 m há en sú eyja hvarf líka fljótt aftur.

Það neðansjávargos sem mesta athygli vakti á 20. öld — kannski fyrir utan Surtsey — varð í Kyrrahafi 420 km suður af Tókýó árið 1952. Eyjan sem myndaðist í því gosi varð um 30 m há en hvarf eftir viku. Gossprengingar héldu samt áfram, tvisvar til þrisvar á dag, en urðu smám saman strjálli uns þær dóu út ári eftir upphaf eldgossins. Það var ein slík sprenging, skrifar Sigurður, sem splundraði japanska rannsóknarskipinu Kaiyo-Maru V., sem kom á gosstaðinn 24. september 1952, viku eftir að gossins varð fyrst vart. Um borð í skipinu var 22 manna áhöfn auk 7 vísindamanna og hefur ekkert til þeirra spurst síðan. Síðari rannsókn leiddi í ljós að heljarmikil sprenging hafði orðið þarna þennan dag. Nokkrar fjalir úr skipinu fundust nálægt eldstöðvunum og í þeim molar af vikri, sams konar og myndaðist í þessu gosi. Hafði sprengingin lamið vikurinn inn í viðinn.

Á Aljútaeyjum, milli Alaska og Asíu, rís neðansjávareldfjallið Bogosloff af 2000 m dýpi. Fjallið er hrygglaga og stundum hlaðast upp á því gígkeilur, ein eða fleiri, sem risið hafa allt að 600 m yfir sjávarmál. Þess á milli brotna þessar eldeyjar niður og hverfa, stundum allar, og er talið að sprengingar og sjógangur valdi því.

Á Mið-Atlantshafshryggnum eru nokkrar eyjar auk Íslands, meðal annars eyjarnar Tristan da Cunha, Ascension, Azoreyjar og Jan Mayen. Við Ascension og Azoreyjar eru neðansjávargos alltíð. Við Azoreyjar, sumarið 1811, reis úr sjó eyja sem varð 90 m há en var horfin árið eftir.

Haustið 1957 hófst annað neðansjávargos við Azoreyjar og myndaðist eyja sem varð um 100 m há en hvarf fljótlega í hafið. Síðar um haustið tók gosið sig upp aftur og ný eyja myndaðist sem eftir hálfan mánuð var orðin landföst við eyna Fayal. Nokkurt hraun rann í þessu gosi og eldfjallið náði um 300 m hæð. Skaginn sem myndaðist þegar eyjan tengdist landi, Ponta dos Capelinhos, er enn til staðar þótt náttúruöflin hafi unnið nokkuð á honum.Ponta dos Capelinhos.

Nokkuð algengt er að eyjar myndist í vatnsfylltum öskjum eða gígum, líkt og hólminn sem hlóðst upp í Öskjuvatni árið 1926 eða Nea Kameni og Miera Kameni í öskju Santorini í Eyjahafi. Sömuleiðis myndaðist þannig í gíg Krakatá frá 1885 eyjan Anak Krakatá — og slík dæmi eru víst mýmörg.

Við Ísland hafa neðansjávargos verið alltíð, ekki síst á Reykjaneshryggnum, og getur Sigurður Þórarinsson allra þeirra sem hann hefur grafið úr fornum heimildum í áðurnefndri grein. Mun sjaldgæfara er þó að eyjar myndist í slíkum gosum. Í latínuriti frá 1230 er þess getið að „á vorum dögum“ hafi sjórinn ólgað og soðið og myndað stórt fjall upp úr sjónum. Telur Sigurður þetta kunna að eiga við gos það sem íslenskir annálar telja hafa orðið undan Reykjanesi árið 1211. Í einum annál segir um það gos: „Sörli fann Eldeyjar hinar nýju, en hinar hurfu er alla ævi höfðu staðið.“ Þá segir frá eldsumbrotum undan Reykjanesi 1422: „Skaut þar landi upp, sem sjá má síðan þeir, er þar fara um síðan.“ Þá eru sagnir um neðansjávargos við Reykjanesskaga árið 1583 sem myndað hafi Gígeyjar og sjá má á Íslandskorti Guðbrands biskups Þorlákssonar. Þar er Eldey sýnd og Geirfuglasker SV af henni, en Gígeyjar SSA af Eldey.

Myndun Nýeyjar vorið 1783 vakti gríðarlega athygli erlendis og vildu sumir vildu tengja hana jarðskjálftum á Suður-Ítalíu fyrr um veturinn. Henni lýsti fyrstur Mindelberg skipstjóri á húkkertunni „Boesand“ sem varð vitni að gosinu (1. maí 1783) og segir í dagbók frá brennandi eyju sem liggur 8 1/2 sjómílu réttvísandi suðvestur frá syðsta Geirfuglaskerinu við Ísland. Mindelberg sigldi upp að eylandinu „til að sjá lögun þess og þegar vér vorum í hálfrar mílu fjarlægð urðum vér frá að hverfa vegna ótta um að skipverjar myndu falla í ómegin sakir hins hræðilega brennisteinsreyks.“ Nýey hvarf brátt í hafið og er talið að hún hafi verið þar sem nú heitir Eldeyjarboði, um 62 km SV af Reykjanesi.

Þess má geta að á þessum tíma var Sæmundur Hólm í Kaupmannahöfn og skrifaði bók um Skaftárelda (sem hófust 8. júní 1783), að mestu byggða á sendibréfum frá Íslandi og fréttum í dönskum blöðum. Bókin kom út árið 1784 bæði á dönsku og þýsku og þar segir um Nýey:
Eyjan telst vera um hálfa mílu að ummáli, en allt að því jafnhá og hið mikla fjall Esjan í Kjósarsýslu sem er mjög há; téð fjall er af sömu stærð og Skaftárfjallið. Þá myndaðist önnur eyja ennþá lengra í NV og nokkru nær Íslandi en hin forna Eystribyggð á Grænlandi, sem fór í eyði u.þ.b. 1415 þegar siglingar hættu frá Noregi og Íslandi; sú hefur brunnið lengi nótt og dag, og eins og hin er hún afar há en ennþá meiri að ummáli, svo sem sagt er í 96. tölublaði Berlings.
Hér er að flestu leyti rangt með farið, og síðarnefnda eyjan byggð á lygum eða misskilningi skipstjóra nokkurs sem kom til Íslands með sviðin segl. En síðan hefur eldgos við SA-strönd Grænlands verið á kortum yfir neðansjávargos við Ísland!

Hugsanlegt, en ólíklegt, er að smáeyja hafi komið upp í eldgosi á Reykjaneshrygg árið 1884. Ekki eru sagnir um eldgos kringum það ár en hins vegar eru sögusagnir um eyju sem ekki fannst þegar til átti að taka.

Fyrir Norðurlandi hafa einnig orðið neðansjávargos og um árið 1372 segir í annál að sést hafi úr Fljótum og víðar fyrir Norðurlandi land nýkomið upp út af Grímsey til útnorðurs. Þá er á hollensku korti frá 1507 sýnd eyja milli Íslands og Grænlands sem við stendur: „Þessi eyja var í ljósum loga árið 1456.“ Allt er þetta óvíst, ekki síst staðsetningin sem ekki getur verið rétt, en hins vegar voru Hollendingar öðrum þjóðum kunnugri norrænum höfum í þennan tíma sökum hvalveiða.Surtsey.

Fyrir Suðurlandi er Surtsey (1963) eina eyjan sem með vissu hefur komið upp á sögulegum tíma og orðið varanleg. Þorvaldur Thoroddsen og Jónas Hallgrímsson töldu, byggt á fornum heimildum, að Helgafell á Heimaey hafi myndast á landnámsöld, og hraunið frá því gosi hafi tengt eldri móbergseyjar sem fyrir voru (Stórhöfða og Sæfell í suðri og Norðurkletta og fleiri í norðri) saman í eina eyju, Heimaey. Sigurður Þórarinsson og fleiri sýndu fram á að Helgafell er miklu eldra, 5-6000 ára.

Þá er á korti Þórðar biskups Þorlákssonar af Norður-Atlantshafi frá 1669 sýnd eyja alllangt suður af Íslandi og sagt að Spánverjar hafi séð hana árið 1613. Af þeirri ey eru engar aðrar sagnir, né af fleiri slíkum eyjum kringum Ísland sem sýndar eru á gömlum kortum. Einu fregnirnar um eldsumbrot í nánd við Vestmannaeyjar er að finna í sambandi við Suðurlandsskjálftann mikla haustið 1896 en þá töldu ýmsir sig sjá eyju sem skotið hefði upp kolli í námunda við Geirfuglasker eystri. Um þá eyju leikur þó vafi.

Samkvæmt þessu yfirliti hafa eyjar myndast í eldgosum við Ísland þessi ár (óvissar eyjar innan sviga): 1211 – 1372 – 1422 – (1456) - 1583 –– (1613) – 1783 – (1884)– (1896) – 1963. Á 800 árum (síðan 1200) hafa því með sæmilegri vissu myndast 6 eyjar í hafi við Ísland en þegar allt er talið 10 – það er að segja um það bil ein á öld.

Heimildir og myndir:
  • Sigurður Steinþórsson (1993). „Annus mirabilis. 1783 í erlendum heimildum.“ Skírnir, vor: 133-155 (varðandi Sæmund Hólm).
  • Sigurður Þórarinsson (1965). „Neðansjávargos við Ísland.“ Náttúrufræðingurinn 35: 49-74.
  • Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund.
  • David Krejcirik's Photo Gallery.

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

9.6.2005

Spyrjandi

Gísli Erlendur Marinósson, f. 1990

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hversu algengt er að nýjar eyjar verði til í eldgosum?“ Vísindavefurinn, 9. júní 2005, sótt 24. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5044.

Sigurður Steinþórsson. (2005, 9. júní). Hversu algengt er að nýjar eyjar verði til í eldgosum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5044

Sigurður Steinþórsson. „Hversu algengt er að nýjar eyjar verði til í eldgosum?“ Vísindavefurinn. 9. jún. 2005. Vefsíða. 24. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5044>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hversu algengt er að nýjar eyjar verði til í eldgosum?
Þessu er nú tæplega auðsvarað fyrir heiminn allan, en svo vel vill til að Sigurður heitinn Þórarinsson skrifaði grein um neðansjávargos við Ísland í Náttúrufræðinginn árið 1965. Þá var Surtseyjargosið 1963-67 í algleymingi og efnið ofarlega á baugi. Í inngangi að greininni segir Sigurður frá nokkrum þeirra erlendu eyja sem upp hefur skotið í eldgosum.

Sumarið 1831 myndaðist eyja miðja vegu milli Sikileyjar og Pantelleríu. Hún varð um 60 m há en hvarf fljótlega í hafið. Í Tonga-eyjaklasanum á Kyrrahafi skaut upp eyju árið 1885 sem varð 75 m há en sú eyja hvarf líka fljótt aftur.

Það neðansjávargos sem mesta athygli vakti á 20. öld — kannski fyrir utan Surtsey — varð í Kyrrahafi 420 km suður af Tókýó árið 1952. Eyjan sem myndaðist í því gosi varð um 30 m há en hvarf eftir viku. Gossprengingar héldu samt áfram, tvisvar til þrisvar á dag, en urðu smám saman strjálli uns þær dóu út ári eftir upphaf eldgossins. Það var ein slík sprenging, skrifar Sigurður, sem splundraði japanska rannsóknarskipinu Kaiyo-Maru V., sem kom á gosstaðinn 24. september 1952, viku eftir að gossins varð fyrst vart. Um borð í skipinu var 22 manna áhöfn auk 7 vísindamanna og hefur ekkert til þeirra spurst síðan. Síðari rannsókn leiddi í ljós að heljarmikil sprenging hafði orðið þarna þennan dag. Nokkrar fjalir úr skipinu fundust nálægt eldstöðvunum og í þeim molar af vikri, sams konar og myndaðist í þessu gosi. Hafði sprengingin lamið vikurinn inn í viðinn.

Á Aljútaeyjum, milli Alaska og Asíu, rís neðansjávareldfjallið Bogosloff af 2000 m dýpi. Fjallið er hrygglaga og stundum hlaðast upp á því gígkeilur, ein eða fleiri, sem risið hafa allt að 600 m yfir sjávarmál. Þess á milli brotna þessar eldeyjar niður og hverfa, stundum allar, og er talið að sprengingar og sjógangur valdi því.

Á Mið-Atlantshafshryggnum eru nokkrar eyjar auk Íslands, meðal annars eyjarnar Tristan da Cunha, Ascension, Azoreyjar og Jan Mayen. Við Ascension og Azoreyjar eru neðansjávargos alltíð. Við Azoreyjar, sumarið 1811, reis úr sjó eyja sem varð 90 m há en var horfin árið eftir.

Haustið 1957 hófst annað neðansjávargos við Azoreyjar og myndaðist eyja sem varð um 100 m há en hvarf fljótlega í hafið. Síðar um haustið tók gosið sig upp aftur og ný eyja myndaðist sem eftir hálfan mánuð var orðin landföst við eyna Fayal. Nokkurt hraun rann í þessu gosi og eldfjallið náði um 300 m hæð. Skaginn sem myndaðist þegar eyjan tengdist landi, Ponta dos Capelinhos, er enn til staðar þótt náttúruöflin hafi unnið nokkuð á honum.Ponta dos Capelinhos.

Nokkuð algengt er að eyjar myndist í vatnsfylltum öskjum eða gígum, líkt og hólminn sem hlóðst upp í Öskjuvatni árið 1926 eða Nea Kameni og Miera Kameni í öskju Santorini í Eyjahafi. Sömuleiðis myndaðist þannig í gíg Krakatá frá 1885 eyjan Anak Krakatá — og slík dæmi eru víst mýmörg.

Við Ísland hafa neðansjávargos verið alltíð, ekki síst á Reykjaneshryggnum, og getur Sigurður Þórarinsson allra þeirra sem hann hefur grafið úr fornum heimildum í áðurnefndri grein. Mun sjaldgæfara er þó að eyjar myndist í slíkum gosum. Í latínuriti frá 1230 er þess getið að „á vorum dögum“ hafi sjórinn ólgað og soðið og myndað stórt fjall upp úr sjónum. Telur Sigurður þetta kunna að eiga við gos það sem íslenskir annálar telja hafa orðið undan Reykjanesi árið 1211. Í einum annál segir um það gos: „Sörli fann Eldeyjar hinar nýju, en hinar hurfu er alla ævi höfðu staðið.“ Þá segir frá eldsumbrotum undan Reykjanesi 1422: „Skaut þar landi upp, sem sjá má síðan þeir, er þar fara um síðan.“ Þá eru sagnir um neðansjávargos við Reykjanesskaga árið 1583 sem myndað hafi Gígeyjar og sjá má á Íslandskorti Guðbrands biskups Þorlákssonar. Þar er Eldey sýnd og Geirfuglasker SV af henni, en Gígeyjar SSA af Eldey.

Myndun Nýeyjar vorið 1783 vakti gríðarlega athygli erlendis og vildu sumir vildu tengja hana jarðskjálftum á Suður-Ítalíu fyrr um veturinn. Henni lýsti fyrstur Mindelberg skipstjóri á húkkertunni „Boesand“ sem varð vitni að gosinu (1. maí 1783) og segir í dagbók frá brennandi eyju sem liggur 8 1/2 sjómílu réttvísandi suðvestur frá syðsta Geirfuglaskerinu við Ísland. Mindelberg sigldi upp að eylandinu „til að sjá lögun þess og þegar vér vorum í hálfrar mílu fjarlægð urðum vér frá að hverfa vegna ótta um að skipverjar myndu falla í ómegin sakir hins hræðilega brennisteinsreyks.“ Nýey hvarf brátt í hafið og er talið að hún hafi verið þar sem nú heitir Eldeyjarboði, um 62 km SV af Reykjanesi.

Þess má geta að á þessum tíma var Sæmundur Hólm í Kaupmannahöfn og skrifaði bók um Skaftárelda (sem hófust 8. júní 1783), að mestu byggða á sendibréfum frá Íslandi og fréttum í dönskum blöðum. Bókin kom út árið 1784 bæði á dönsku og þýsku og þar segir um Nýey:
Eyjan telst vera um hálfa mílu að ummáli, en allt að því jafnhá og hið mikla fjall Esjan í Kjósarsýslu sem er mjög há; téð fjall er af sömu stærð og Skaftárfjallið. Þá myndaðist önnur eyja ennþá lengra í NV og nokkru nær Íslandi en hin forna Eystribyggð á Grænlandi, sem fór í eyði u.þ.b. 1415 þegar siglingar hættu frá Noregi og Íslandi; sú hefur brunnið lengi nótt og dag, og eins og hin er hún afar há en ennþá meiri að ummáli, svo sem sagt er í 96. tölublaði Berlings.
Hér er að flestu leyti rangt með farið, og síðarnefnda eyjan byggð á lygum eða misskilningi skipstjóra nokkurs sem kom til Íslands með sviðin segl. En síðan hefur eldgos við SA-strönd Grænlands verið á kortum yfir neðansjávargos við Ísland!

Hugsanlegt, en ólíklegt, er að smáeyja hafi komið upp í eldgosi á Reykjaneshrygg árið 1884. Ekki eru sagnir um eldgos kringum það ár en hins vegar eru sögusagnir um eyju sem ekki fannst þegar til átti að taka.

Fyrir Norðurlandi hafa einnig orðið neðansjávargos og um árið 1372 segir í annál að sést hafi úr Fljótum og víðar fyrir Norðurlandi land nýkomið upp út af Grímsey til útnorðurs. Þá er á hollensku korti frá 1507 sýnd eyja milli Íslands og Grænlands sem við stendur: „Þessi eyja var í ljósum loga árið 1456.“ Allt er þetta óvíst, ekki síst staðsetningin sem ekki getur verið rétt, en hins vegar voru Hollendingar öðrum þjóðum kunnugri norrænum höfum í þennan tíma sökum hvalveiða.Surtsey.

Fyrir Suðurlandi er Surtsey (1963) eina eyjan sem með vissu hefur komið upp á sögulegum tíma og orðið varanleg. Þorvaldur Thoroddsen og Jónas Hallgrímsson töldu, byggt á fornum heimildum, að Helgafell á Heimaey hafi myndast á landnámsöld, og hraunið frá því gosi hafi tengt eldri móbergseyjar sem fyrir voru (Stórhöfða og Sæfell í suðri og Norðurkletta og fleiri í norðri) saman í eina eyju, Heimaey. Sigurður Þórarinsson og fleiri sýndu fram á að Helgafell er miklu eldra, 5-6000 ára.

Þá er á korti Þórðar biskups Þorlákssonar af Norður-Atlantshafi frá 1669 sýnd eyja alllangt suður af Íslandi og sagt að Spánverjar hafi séð hana árið 1613. Af þeirri ey eru engar aðrar sagnir, né af fleiri slíkum eyjum kringum Ísland sem sýndar eru á gömlum kortum. Einu fregnirnar um eldsumbrot í nánd við Vestmannaeyjar er að finna í sambandi við Suðurlandsskjálftann mikla haustið 1896 en þá töldu ýmsir sig sjá eyju sem skotið hefði upp kolli í námunda við Geirfuglasker eystri. Um þá eyju leikur þó vafi.

Samkvæmt þessu yfirliti hafa eyjar myndast í eldgosum við Ísland þessi ár (óvissar eyjar innan sviga): 1211 – 1372 – 1422 – (1456) - 1583 –– (1613) – 1783 – (1884)– (1896) – 1963. Á 800 árum (síðan 1200) hafa því með sæmilegri vissu myndast 6 eyjar í hafi við Ísland en þegar allt er talið 10 – það er að segja um það bil ein á öld.

Heimildir og myndir:
  • Sigurður Steinþórsson (1993). „Annus mirabilis. 1783 í erlendum heimildum.“ Skírnir, vor: 133-155 (varðandi Sæmund Hólm).
  • Sigurður Þórarinsson (1965). „Neðansjávargos við Ísland.“ Náttúrufræðingurinn 35: 49-74.
  • Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund.
  • David Krejcirik's Photo Gallery.
...