Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er eitthvað að marka áhugasviðspróf?

Heiða María Sigurðardóttir

"Hvað langar þig að verða þegar þú verður stór?" Flestir, ef ekki allir, hafa einhvern tímann fengið þessa spurningu en oft vefst svarið fyrir fólki. Áhugasviðspróf eru gerð til þess að hjálpa fólki að svara þessari mjög svo mikilvægu spurningu. Þau eru notað víða, sérstaklega hjá námsráðgjöfum grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla.

Eins og nafnið bendir til mæla áhugasviðspróf áhuga fólks á tilteknum sviðum, einkum þó á tilteknum störfum eða atvinnugreinum. Ef áhugasviðspróf spá í raun fyrir um áhuga fólks á þeim starfsvettvangi sem það velur sér gæti notkun þeirra komið sér vel fyrir bæði atvinnurekendur og starfsmenn. Starfsmennirnir yrðu ánægðari í vinnunni og þar af leiðandi ef til vill afkastameiri.



Við hvað langar þig að starfa?

Þekktasta áhugasviðsprófið er Strong-prófið (Strong Interest Inventory, SII). Í því er fólk beðið um að svara spurningum eins og hver séu uppáhaldsfög þess í skóla, hvaða störf það telji spennandi og hvað það geri í frítíma sínum. Við hönnun Strong-prófsins bjuggu höfundar þess til mörg hundruð spurningar sem hugsanlega gátu skilið á milli fólks með mismunandi áhugasvið. Þessar spurningar voru svo lagðar fyrir stórt úrtak fólks, nokkur hundruð manns, í mismunandi starfsgreinum. Þeim spurningum sem greindu á milli þeirra sem voru ánægðir í tilteknu starfi og hinna sem ekki voru eins ánægðir var haldið eftir í prófinu en hinum spurningunum var hent út. Lokaútgáfa prófsins er svo lögð fyrir aðra sem kanna vilja áhugasvið sitt. Þeim er að lokum bent á að velja sér svipuð störf og það fólk í upphaflega úrtakinu sem svaraði prófinu á sem líkastan hátt og það sjálft.

Fleiri áhugasviðspróf eru til. Þar má nefna Ideas-prófið sem mikið er notað hér á landi og SDS-prófið (Self-Directed Search). Hið síðarnefnda hefur verið þýtt, staðfært og staðlað á Íslandi undir nafninu Í leit að starfi. Prófið á það sameiginlegt með Strong-prófinu að vera byggt á kenningu Hollands um persónugerðir og starfsumhverfi.

Samkvæmt kenningu Hollands er hægt að flokka menn í sex svið: Raunsæja (realistic), rannsakandi (investigative), listræna (artistic), félagsnæma (social), framsækna (enterprising) og hefðbundna (conventional). Hversu vel fólk fellur að þessum flokkum gefur, samkvæmt kenningunni, vísbendingu um hentugt starfsval. Sá sem fær til að mynda útkomuna eða sniðið (profile) ESCRIA (eftir upphafsstöfum ensku flokkaheitanna) fellur best að framsækna flokknum, næstbest að félagsnæma flokknum og svo framvegis.



Bæði Strong-prófið og prófið Í leit að starfi byggjast á kenningu Hollands um sex aðaláhugasvið fólks.

Samkvæmt kenningu Hollands beinist áhugi hjá raunsæju fólki að hlutum. Þeir sem falla í þennan flokk eru til að mynda smiðir, kokkar, rafvirkjar og vélvirkjar. Rannsakandi fólk hefur áhuga á hugmyndum. Lyfjafræðingar, tölvunarfræðingar og læknar eru meðal þeirra sem falla í þennan flokk. Listrænt fólk vill skapa eitthvað og tjá sig. Þar á meðal eru arkítektar, tónlistarmenn og ljósmyndarar. Áhugi félagsnæmra beinist að fólki. Í þessum flokki eru til að mynda grunnskólakennarar, hjúkrunarfræðingar og námsráðgjafar. Framsæknir vilja hafa áhrif á framvindu mála og hafa mannaforráð. Dæmi um starfsgreinar sem falla í þennan flokk eru tryggingasalar, starfsmannastjórar og stjórnmálamenn. Að lokum má nefna að hefðbundið fólk vill vinna í vel skipulögðu umhverfi og finnst óþægilegt ef eitthvað óvænt kemur upp á. Í þennan flokk falla til að mynda bókhaldarar, prófarkalesarar, tölfræðingar og gjaldkerar.

Hversu vel verka áhugasviðspróf - spá þau að jafnaði rétt fyrir um í hvaða störfum fólk verði ánægt og farsælt? Í einni af fáum rannsóknum þar sem þetta hefur verið skoðað voru áhugasviðspróf lögð fyrir menntaskólanemendur. Átta árum síðar var svo haft samband við þetta sama fólk og það spurt um starfsánægju sína. Einnig var haft samband við vinnuveitendur þess og þeir spurðir um frammistöðu fólksins. Í ljós kom að prófið spáði hvorki fyrir um starfsánægju né frammistöðu.

Þessi rannsókn gefur því tilefni til að vara fólk við því að byggja starfsval sitt einungis á áhugasviðsprófum. Þó ber að nefna að áhugasviðspróf eru mörg og mismunandi og flest eru í sífelldri þróun. Sum eru að sjálfsögðu gagnlegri en önnur og í framtíðinni má búast við að þau batni enn frekar. Ennfremur geta áhugasviðspróf gagnast fólki til að kynnast störfum sem það hefði annars ekki kynnt sér nánar.

Heimildir og mynd

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

10.6.2005

Spyrjandi

Karítas Gissurardóttir, f. 1987

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Er eitthvað að marka áhugasviðspróf?“ Vísindavefurinn, 10. júní 2005, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5049.

Heiða María Sigurðardóttir. (2005, 10. júní). Er eitthvað að marka áhugasviðspróf? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5049

Heiða María Sigurðardóttir. „Er eitthvað að marka áhugasviðspróf?“ Vísindavefurinn. 10. jún. 2005. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5049>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er eitthvað að marka áhugasviðspróf?
"Hvað langar þig að verða þegar þú verður stór?" Flestir, ef ekki allir, hafa einhvern tímann fengið þessa spurningu en oft vefst svarið fyrir fólki. Áhugasviðspróf eru gerð til þess að hjálpa fólki að svara þessari mjög svo mikilvægu spurningu. Þau eru notað víða, sérstaklega hjá námsráðgjöfum grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla.

Eins og nafnið bendir til mæla áhugasviðspróf áhuga fólks á tilteknum sviðum, einkum þó á tilteknum störfum eða atvinnugreinum. Ef áhugasviðspróf spá í raun fyrir um áhuga fólks á þeim starfsvettvangi sem það velur sér gæti notkun þeirra komið sér vel fyrir bæði atvinnurekendur og starfsmenn. Starfsmennirnir yrðu ánægðari í vinnunni og þar af leiðandi ef til vill afkastameiri.



Við hvað langar þig að starfa?

Þekktasta áhugasviðsprófið er Strong-prófið (Strong Interest Inventory, SII). Í því er fólk beðið um að svara spurningum eins og hver séu uppáhaldsfög þess í skóla, hvaða störf það telji spennandi og hvað það geri í frítíma sínum. Við hönnun Strong-prófsins bjuggu höfundar þess til mörg hundruð spurningar sem hugsanlega gátu skilið á milli fólks með mismunandi áhugasvið. Þessar spurningar voru svo lagðar fyrir stórt úrtak fólks, nokkur hundruð manns, í mismunandi starfsgreinum. Þeim spurningum sem greindu á milli þeirra sem voru ánægðir í tilteknu starfi og hinna sem ekki voru eins ánægðir var haldið eftir í prófinu en hinum spurningunum var hent út. Lokaútgáfa prófsins er svo lögð fyrir aðra sem kanna vilja áhugasvið sitt. Þeim er að lokum bent á að velja sér svipuð störf og það fólk í upphaflega úrtakinu sem svaraði prófinu á sem líkastan hátt og það sjálft.

Fleiri áhugasviðspróf eru til. Þar má nefna Ideas-prófið sem mikið er notað hér á landi og SDS-prófið (Self-Directed Search). Hið síðarnefnda hefur verið þýtt, staðfært og staðlað á Íslandi undir nafninu Í leit að starfi. Prófið á það sameiginlegt með Strong-prófinu að vera byggt á kenningu Hollands um persónugerðir og starfsumhverfi.

Samkvæmt kenningu Hollands er hægt að flokka menn í sex svið: Raunsæja (realistic), rannsakandi (investigative), listræna (artistic), félagsnæma (social), framsækna (enterprising) og hefðbundna (conventional). Hversu vel fólk fellur að þessum flokkum gefur, samkvæmt kenningunni, vísbendingu um hentugt starfsval. Sá sem fær til að mynda útkomuna eða sniðið (profile) ESCRIA (eftir upphafsstöfum ensku flokkaheitanna) fellur best að framsækna flokknum, næstbest að félagsnæma flokknum og svo framvegis.



Bæði Strong-prófið og prófið Í leit að starfi byggjast á kenningu Hollands um sex aðaláhugasvið fólks.

Samkvæmt kenningu Hollands beinist áhugi hjá raunsæju fólki að hlutum. Þeir sem falla í þennan flokk eru til að mynda smiðir, kokkar, rafvirkjar og vélvirkjar. Rannsakandi fólk hefur áhuga á hugmyndum. Lyfjafræðingar, tölvunarfræðingar og læknar eru meðal þeirra sem falla í þennan flokk. Listrænt fólk vill skapa eitthvað og tjá sig. Þar á meðal eru arkítektar, tónlistarmenn og ljósmyndarar. Áhugi félagsnæmra beinist að fólki. Í þessum flokki eru til að mynda grunnskólakennarar, hjúkrunarfræðingar og námsráðgjafar. Framsæknir vilja hafa áhrif á framvindu mála og hafa mannaforráð. Dæmi um starfsgreinar sem falla í þennan flokk eru tryggingasalar, starfsmannastjórar og stjórnmálamenn. Að lokum má nefna að hefðbundið fólk vill vinna í vel skipulögðu umhverfi og finnst óþægilegt ef eitthvað óvænt kemur upp á. Í þennan flokk falla til að mynda bókhaldarar, prófarkalesarar, tölfræðingar og gjaldkerar.

Hversu vel verka áhugasviðspróf - spá þau að jafnaði rétt fyrir um í hvaða störfum fólk verði ánægt og farsælt? Í einni af fáum rannsóknum þar sem þetta hefur verið skoðað voru áhugasviðspróf lögð fyrir menntaskólanemendur. Átta árum síðar var svo haft samband við þetta sama fólk og það spurt um starfsánægju sína. Einnig var haft samband við vinnuveitendur þess og þeir spurðir um frammistöðu fólksins. Í ljós kom að prófið spáði hvorki fyrir um starfsánægju né frammistöðu.

Þessi rannsókn gefur því tilefni til að vara fólk við því að byggja starfsval sitt einungis á áhugasviðsprófum. Þó ber að nefna að áhugasviðspróf eru mörg og mismunandi og flest eru í sífelldri þróun. Sum eru að sjálfsögðu gagnlegri en önnur og í framtíðinni má búast við að þau batni enn frekar. Ennfremur geta áhugasviðspróf gagnast fólki til að kynnast störfum sem það hefði annars ekki kynnt sér nánar.

Heimildir og mynd

...