Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Hvað er það flóknasta í heiminum fyrir utan heiminn sjálfan?

Valur Brynjar Antonsson

Það eru ýmsar leiðir til að skilja þessa spurningu. Gerum þó ráð fyrir að við séum að tala um alheiminn og ekkert sé til fyrir utan heiminn. Þá hljómar spurningin svona: Hvað er það flóknasta í heiminum ef heimurinn sjálfur er ekki talinn með?

Það eru margir hlutir í heiminum sem eru taldir flóknir. Heili og miðtaugakerfi mannsins eru með þeim alflóknustu fyrirbærum sem til eru. Þeir sem vilja fræðast meira um heilann er bent á svarið hér á Vísindavefnum við spurningunni Hvernig verkar heilinn? Einnig eru veðrakerfi í lofthjúpi jarðar mjög flókin og hreyfiöfl sólgosa á yfirborði stjarna. Þetta eru allt fyrirbæri sem ekki voru sköpuð af mönnum. Sömuleiðis eru þetta allt hlutir í heiminum og jafnframt hlutar af heiminum. Ef spurningin felst í því að velja þann hlut sem er flóknastur og ekki má velja heiminn sjálfan, þá verður að afmarka þann hlut vel.



Miðtaugakerfið er ef til vill eitt af flóknustu fyrirbærum sem til eru. En er það flóknara en maðurinn sjálfur?
Þá flækjast málin heldur betur. Það er erfitt að afmarka og skilgreina hlut sem tilheyrir heild án þess að heildin flækist fyrir. Veljum ákveðinn hlut eins og mannsheilann. Hann er býsna flókinn. En hann er einnig hluti af mannslíkanum. Er þá ekki mannslíkaminn flóknari en mannsheilinn? Fyrir hvern flókinn hlut sem við veljum getum við spurt hvort hann tilheyri enn flóknari fyrirbæri, og valið það í staðinn. Þetta gengur aðeins upp ef hluturinn er nauðsynlegur hluti fyrirbærisins. Annars væri hægt að greina sundur fyrirbærið og einfalda. Það er ekki hægt með mannsheila og manninn. Það er aldrei til starfandi mannsheili án manns og aldrei til maður án starfandi mannsheila (ef við skilgreinum manninn sem hina hugsandi veru).

Þá hljómar spurningin svona: Getum við fundið hlut sem tilheyrir ekki enn flóknara fyrirbæri? Svarið er já ef við megum telja alheiminn með. Við vorum hins vegar búin að útiloka það. Þannig hlýtur svarið að vera sá hluti heimsins sem inniheldur næstum því alla hluta heimsins. Það gæti til dæmis verið sá hluti heimsins sem inniheldur allt nema eina títuprjónsnál. Þetta segir okkur hins vegar frekar lítið um heiminn og okkur sjálf.

Þá er til önnur leið að svara spurningunni. Við getum sagt að heildir séu ekki til sem slíkar. Þá á ég við heildir eins og heiminn, mannslíkamann og samfélag, en einnig hluti eins og stól og borð, og efni eins og vatn og gull. Við getum sagt að þessir hlutir séu ekkert nema summan af hlutum sínum. Stóll er til dæmis settur saman úr alls kyns smærri hlutum eins og setu, stólbaki og fótum. En hvað kemur í veg fyrir að við getum brotið sundur þessa hluta stólsins í smærri einingar líka? Stólbakið er sett saman úr þjölum og spýtum; spýturnar eru úr viði, og viðurinn er samsettur af alls kyns kolvetnissameindum. Þær má svo greina sundur í enn þá smærri einingar, og svo framvegis út í hið óendanlega.



Jafnvel þótt vatnssameindin sé einföld er hún flóknari en frumeindirnar sem mynda hana. En er sameindin bara summa hluta sinna?
Eða hvað? Verðum við ekki að stoppa einhvers staðar? Svona hugsaði gríski heimspekingurinn Demókrítus (um 460-370 f.kr.). Hann komst að þeirri niðurstöðu að það hlyti að vera til einhver smæsta eining sem ekki væri hægt að deila í sundur. Hann kallaði þá eind ódeili eða á grísku atóm – og þaðan tóku nútímavísindamenn nafnið fyrir frumeindina (þótt strangt til tekið sé hún ekki ódeilanleg). Um atóm er meira hægt að lesa í svörum Árdísar Elíasdóttur og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunum Hvað eru atóm og Eru atóm alls staðar og í öllu? Hver er þá munurinn á uppbyggingu manns og steins?

Samkvæmt hugmyndum Demókrítosar er hægt að greina sundur öll fyrirbæri í grunneindir sínar. Þessi heimsmynd er kölluð eindahyggja. Þá er flóknasta fyrirbærið það sem samsett er úr flestum eindum. Svarið við spurningunni yrði þá: Samsetning allra einda heimsins nema einnar. Við sjáum þó um leið að við þessu vaknar önnur spurning sem er jafnvel enn erfiðari viðureignar og það er sú hvort heimurinn sé endanlegur.

Kannski er þó viturlegast og mest upplýsandi að skoða spyrilinn frekar en spurninguna sjálfa. Fyrir hvern er heimurinn flókinn? Varla er heimurinn flókinn fyrir heiminn sjálfan. Fyrirbæri eru flókin fyrir þann sem vill einfalda hlutina. Heimurinn er vandamál fyrir þann sem spyr og vill skilja og greina hlutina. Þetta gerir maðurinn.

En hvers vegna vill maðurinn einfalda hlutina í kringum sig? Svarið gæti verið sannleiksleit en einnig að það er gagnlegt fyrir takmarkaða veru eins og manninn að geta einfaldað hinn takmarkslausa heim. Til að mynda á ég erfitt með að rata í stórborg þó að ég hafi átt þar heima í mörg ár. Minni mitt hrekkur einfaldlega ekki til við að halda utan um allar göturnar í borginni. Þess vegna kemur að góðu gagni að gera landakort að borginni sem hjálpar mér að rata á milli helstu staðanna.

Það er tvennt sem maður þarf að hafa í huga við gerð landakorta; að það sé nákvæmt og að það sé einfalt. Vandinn er að oft togast þetta tvennt á. Argentínski rithöfundurinn Jorge Luis Borges (1899-1886) skrifaði einu sinni skemmtilega sögu um keisara sem skipaði fyrir um að gera landakort af ríki sínu sem væri hið nákvæmasta í heimi. Aldrei varð hann ánægður með útkomuna fyrr en kortagerðamennirnir gerðu svo nákvæmt landakort að það var jafn stórt og ríkið sjálft. Ekki er nú mikið gagn að slíku korti.



Í kortagerð, sem og öðru, þarf oft að velja á milli nákvæmni og einfaldleika.

Þetta er vandi sem fræði- og vísindamenn þurfa daglega að kljást við þegar þeir reyna að útskýra flókin fyrirbæri. Þeir vilja setja fram kenningar sem geta útskýrt og hjálpað okkur að spá fyrir um hvað muni gerast, eins og hvort það muni rigna á morgun eða hvort sólgos muni trufla útvarpssendingar. Þá er sú kenning afleit sem er jafn flókin og það fyrirbæri sem henni er ætlað að skýra. Hins vegar verður að gæta þess að veigamestu atriðin verði aldrei skilin útundan þegar kenningar eru einfaldaðar.

Þegar þetta gengur upp er talað um smættun; réttmæta einföldun á flóknu fyrirbæri. Það sem þá stendur eftir er kjarni hlutarins eða lögmál sem greinir frá aðalatriðum. Þetta tekst nánast aldrei fullkomlega og þess vegna þurfa vísindamenn að gera málamiðlanir. Stundum sætta þeir sig við flækjur til að hafa hlutina nákvæma; stundum hafa þeir hlutina einfalda og gagnlega en tapa þá um leið nákvæmni.

Við sjáum að þessar málamiðlanir eru alfarið sprottnar upp hjá manninum sjálfum og út af því hvers konar takmörkuð vera hann er. Þess vegna er ekki úr vegi að segja að það flóknasta í heiminum fyrir utan heiminn sjálfan sé mannshugurinn; eða sú vera sem spyr spurninga og reynir að ná utan um fyrirbæri með takmarkaðri getu hugans.

Frekara lesefni og myndir

Höfundur

Útgáfudagur

16.6.2005

Spyrjandi

Gísli Magnússon, f. 1988

Tilvísun

Valur Brynjar Antonsson. „Hvað er það flóknasta í heiminum fyrir utan heiminn sjálfan?“ Vísindavefurinn, 16. júní 2005. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5064.

Valur Brynjar Antonsson. (2005, 16. júní). Hvað er það flóknasta í heiminum fyrir utan heiminn sjálfan? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5064

Valur Brynjar Antonsson. „Hvað er það flóknasta í heiminum fyrir utan heiminn sjálfan?“ Vísindavefurinn. 16. jún. 2005. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5064>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er það flóknasta í heiminum fyrir utan heiminn sjálfan?
Það eru ýmsar leiðir til að skilja þessa spurningu. Gerum þó ráð fyrir að við séum að tala um alheiminn og ekkert sé til fyrir utan heiminn. Þá hljómar spurningin svona: Hvað er það flóknasta í heiminum ef heimurinn sjálfur er ekki talinn með?

Það eru margir hlutir í heiminum sem eru taldir flóknir. Heili og miðtaugakerfi mannsins eru með þeim alflóknustu fyrirbærum sem til eru. Þeir sem vilja fræðast meira um heilann er bent á svarið hér á Vísindavefnum við spurningunni Hvernig verkar heilinn? Einnig eru veðrakerfi í lofthjúpi jarðar mjög flókin og hreyfiöfl sólgosa á yfirborði stjarna. Þetta eru allt fyrirbæri sem ekki voru sköpuð af mönnum. Sömuleiðis eru þetta allt hlutir í heiminum og jafnframt hlutar af heiminum. Ef spurningin felst í því að velja þann hlut sem er flóknastur og ekki má velja heiminn sjálfan, þá verður að afmarka þann hlut vel.



Miðtaugakerfið er ef til vill eitt af flóknustu fyrirbærum sem til eru. En er það flóknara en maðurinn sjálfur?
Þá flækjast málin heldur betur. Það er erfitt að afmarka og skilgreina hlut sem tilheyrir heild án þess að heildin flækist fyrir. Veljum ákveðinn hlut eins og mannsheilann. Hann er býsna flókinn. En hann er einnig hluti af mannslíkanum. Er þá ekki mannslíkaminn flóknari en mannsheilinn? Fyrir hvern flókinn hlut sem við veljum getum við spurt hvort hann tilheyri enn flóknari fyrirbæri, og valið það í staðinn. Þetta gengur aðeins upp ef hluturinn er nauðsynlegur hluti fyrirbærisins. Annars væri hægt að greina sundur fyrirbærið og einfalda. Það er ekki hægt með mannsheila og manninn. Það er aldrei til starfandi mannsheili án manns og aldrei til maður án starfandi mannsheila (ef við skilgreinum manninn sem hina hugsandi veru).

Þá hljómar spurningin svona: Getum við fundið hlut sem tilheyrir ekki enn flóknara fyrirbæri? Svarið er já ef við megum telja alheiminn með. Við vorum hins vegar búin að útiloka það. Þannig hlýtur svarið að vera sá hluti heimsins sem inniheldur næstum því alla hluta heimsins. Það gæti til dæmis verið sá hluti heimsins sem inniheldur allt nema eina títuprjónsnál. Þetta segir okkur hins vegar frekar lítið um heiminn og okkur sjálf.

Þá er til önnur leið að svara spurningunni. Við getum sagt að heildir séu ekki til sem slíkar. Þá á ég við heildir eins og heiminn, mannslíkamann og samfélag, en einnig hluti eins og stól og borð, og efni eins og vatn og gull. Við getum sagt að þessir hlutir séu ekkert nema summan af hlutum sínum. Stóll er til dæmis settur saman úr alls kyns smærri hlutum eins og setu, stólbaki og fótum. En hvað kemur í veg fyrir að við getum brotið sundur þessa hluta stólsins í smærri einingar líka? Stólbakið er sett saman úr þjölum og spýtum; spýturnar eru úr viði, og viðurinn er samsettur af alls kyns kolvetnissameindum. Þær má svo greina sundur í enn þá smærri einingar, og svo framvegis út í hið óendanlega.



Jafnvel þótt vatnssameindin sé einföld er hún flóknari en frumeindirnar sem mynda hana. En er sameindin bara summa hluta sinna?
Eða hvað? Verðum við ekki að stoppa einhvers staðar? Svona hugsaði gríski heimspekingurinn Demókrítus (um 460-370 f.kr.). Hann komst að þeirri niðurstöðu að það hlyti að vera til einhver smæsta eining sem ekki væri hægt að deila í sundur. Hann kallaði þá eind ódeili eða á grísku atóm – og þaðan tóku nútímavísindamenn nafnið fyrir frumeindina (þótt strangt til tekið sé hún ekki ódeilanleg). Um atóm er meira hægt að lesa í svörum Árdísar Elíasdóttur og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunum Hvað eru atóm og Eru atóm alls staðar og í öllu? Hver er þá munurinn á uppbyggingu manns og steins?

Samkvæmt hugmyndum Demókrítosar er hægt að greina sundur öll fyrirbæri í grunneindir sínar. Þessi heimsmynd er kölluð eindahyggja. Þá er flóknasta fyrirbærið það sem samsett er úr flestum eindum. Svarið við spurningunni yrði þá: Samsetning allra einda heimsins nema einnar. Við sjáum þó um leið að við þessu vaknar önnur spurning sem er jafnvel enn erfiðari viðureignar og það er sú hvort heimurinn sé endanlegur.

Kannski er þó viturlegast og mest upplýsandi að skoða spyrilinn frekar en spurninguna sjálfa. Fyrir hvern er heimurinn flókinn? Varla er heimurinn flókinn fyrir heiminn sjálfan. Fyrirbæri eru flókin fyrir þann sem vill einfalda hlutina. Heimurinn er vandamál fyrir þann sem spyr og vill skilja og greina hlutina. Þetta gerir maðurinn.

En hvers vegna vill maðurinn einfalda hlutina í kringum sig? Svarið gæti verið sannleiksleit en einnig að það er gagnlegt fyrir takmarkaða veru eins og manninn að geta einfaldað hinn takmarkslausa heim. Til að mynda á ég erfitt með að rata í stórborg þó að ég hafi átt þar heima í mörg ár. Minni mitt hrekkur einfaldlega ekki til við að halda utan um allar göturnar í borginni. Þess vegna kemur að góðu gagni að gera landakort að borginni sem hjálpar mér að rata á milli helstu staðanna.

Það er tvennt sem maður þarf að hafa í huga við gerð landakorta; að það sé nákvæmt og að það sé einfalt. Vandinn er að oft togast þetta tvennt á. Argentínski rithöfundurinn Jorge Luis Borges (1899-1886) skrifaði einu sinni skemmtilega sögu um keisara sem skipaði fyrir um að gera landakort af ríki sínu sem væri hið nákvæmasta í heimi. Aldrei varð hann ánægður með útkomuna fyrr en kortagerðamennirnir gerðu svo nákvæmt landakort að það var jafn stórt og ríkið sjálft. Ekki er nú mikið gagn að slíku korti.



Í kortagerð, sem og öðru, þarf oft að velja á milli nákvæmni og einfaldleika.

Þetta er vandi sem fræði- og vísindamenn þurfa daglega að kljást við þegar þeir reyna að útskýra flókin fyrirbæri. Þeir vilja setja fram kenningar sem geta útskýrt og hjálpað okkur að spá fyrir um hvað muni gerast, eins og hvort það muni rigna á morgun eða hvort sólgos muni trufla útvarpssendingar. Þá er sú kenning afleit sem er jafn flókin og það fyrirbæri sem henni er ætlað að skýra. Hins vegar verður að gæta þess að veigamestu atriðin verði aldrei skilin útundan þegar kenningar eru einfaldaðar.

Þegar þetta gengur upp er talað um smættun; réttmæta einföldun á flóknu fyrirbæri. Það sem þá stendur eftir er kjarni hlutarins eða lögmál sem greinir frá aðalatriðum. Þetta tekst nánast aldrei fullkomlega og þess vegna þurfa vísindamenn að gera málamiðlanir. Stundum sætta þeir sig við flækjur til að hafa hlutina nákvæma; stundum hafa þeir hlutina einfalda og gagnlega en tapa þá um leið nákvæmni.

Við sjáum að þessar málamiðlanir eru alfarið sprottnar upp hjá manninum sjálfum og út af því hvers konar takmörkuð vera hann er. Þess vegna er ekki úr vegi að segja að það flóknasta í heiminum fyrir utan heiminn sjálfan sé mannshugurinn; eða sú vera sem spyr spurninga og reynir að ná utan um fyrirbæri með takmarkaðri getu hugans.

Frekara lesefni og myndir

...