Sólin Sólin Rís 02:56 • sest 24:01 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:01 • Sest 02:01 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:44 • Síðdegis: 13:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:39 í Reykjavík

Hvað er einhyggja og tvíhyggja? Hvers vegna eru þær svo fyrirferðarmiklar í sögunni?

Atli Harðarson

Hugtökin einhyggja og tvíhyggja hafa verið notuð til að flokka heimspekilegar kenningar. Þær sem gera ráð fyrir að veruleikinn sé tvískiptur með einhverjum afgerandi hætti, þannig að um hina tvo hluta hans gildi gerólík lögmál, eru kenndar við tvíhyggju og þær sem hafna slíkri tvískiptingu eru einhyggjukenningar.

Af fornum tvíhyggjukenningum má frægasta telja frummyndakenningu gríska heimspekingsins Platons. Samkvæmt henni eru til frummyndir sem eru fullkomnar, eilífar og óumbreytanlegar og í eðli sínu gerólíkar hverfulum efnishlutum. Platon taldi að hin æðstu vísindi, eins og til dæmis stærðfræði, fjölluðu um þessar frummyndir og þess vegna væri sanngildi stærðfræðilegra setninga óháð öllu því sem gerist í efnisheiminum. Pyþagórasarregla, sem segir að kvaðratið af langhlið rétthyrnds þríhyrnings sé jafnt summunni af kvaðrötum skammhliðanna, er til dæmis sönn þótt hvergi í efnisheiminum finnist neinn fullkomlega rétthyrndur þríhyrningur. Platon taldi svipuðu máli gegna um siðferðileg sannindi og þau stærðfræðilegu. Hann áleit til dæmis að kenning sín um réttlætið væri sönn þótt ekki væru til nein réttlát ríki á þessari jörð. Hún fjallaði um réttlætið sem slíkt, eða frummynd réttlætisins, einhvers konar eilífan og óbreytilegan veruleika sem réttlát ríki og réttlátir einstaklingar líktu eftir á sinn ófullkomna hátt rétt eins og strik sem dregin eru í rykið á götunni geta með ófullkomnum hætti líkt eftir rétthyrndum þríhyrningi.

Sú tvíhyggja sem mest hefur borið á undanfarnar 4 aldir er aðgreining líkama og sálar, þess andlega og þess efnislega. Tvíhyggja af þessu tagi er oft kennd við franska heimspekinginn Rene Descartes. Samkvæmt kenningu hans er hugurinn, eða meðvitundin, af allt öðru tagi en efnisheimurinn. Descartes var, ásamt Galileo Galilei, einn af forsprökkum vísindabyltingarinnar á 17. öld. Með kenningu sinni ætlaði hann meðal annars að afmarka viðfangsefni raunvísindanna. Á þessum tíma þótti flestum lærdómsmönnum fráleitt að stærðfræðileg vísindi af því tagi sem Galileo iðkaði gætu kennt okkur neitt um mannlífið. Og enn þann dag í dag hugsa margir sem svo að mennirnir séu skapaðir í guðs mynd, þeir séu frjálsir og með einhverjum hætti hafnir yfir náttúrulögmálin. Með tvíhyggju sinni kenndi Descartes að þetta gilti um mannshugann en líkami mannsins væri viðfangsefni raunvísindanna eins og önnur náttúrufyrirbæri.

Önnur tvíhygga sem sett hefur svip á hugsunarhátt manna síðustu aldirnar er stundum kennd við Skotann David Hume, þótt það sé álitamál hvort hann aðhylltist hana. Kenningin sem hér um ræðir kveður á um strangan greinarmun staðreynda og gilda. Samkvæmt henni er aldrei hægt að álykta hvernig eitthvað ætti að vera eða hvað maður ætti að gera af staðreyndum um hvernig veruleikinn er. Einn angi þessarar tvíhyggju er sú skoðun að vísindin (að minnsta kosti raunvísindi og félagsvísindi) séu hlutlaus með þeim hætti að þau taki enga afstöðu til þess hvort eitthvað er gott eða illt og af niðurstöðum þeirra verði engar ályktanir dregnar þar um nema með því að gefa sér forsendur sem ekki verða studdar með vísindalegum rökum. Vísindin geta til dæmis fært rök að því að reykingar valdi krabbameini en við getum ekki ályktað af því að það sé slæmt að reykja nema við gefum okkur þá óvísindalegu forsendu að krabbamein sé slæmt.

Hér hefur verið minnst á þrjár ólíkar tvíhyggjukenningar. Það væri hægt að nefna margar fleiri og ef til vill er tilhneigingin til að skipta heimspekikenningum í tvo flokka dæmi um einhvers konar tvíhyggjuhugsunarhátt. Þótt umræða um tvíhyggju sé áberandi í bókum um hugmyndasögu, þar sem reynt er að skipa viðfangsefninu niður í flokka, er ekki þar með sagt að til sé nein ein tvíhyggja sem er svo mjög fyrirferðamikil í sögunni. Svipað má segja um einhyggjukenningar. Þær eru margs konar. Hér skal aðeins getið hughyggju og efnishyggju.

Eftir að tvíhyggja Descartes varð kunn spurðu margir hvernig hugur, sem er óefniskenndur og utan við lögmál efnisheimsins, geti haft áhrif á taugakerfið eða aðra hluta líkamans. Enn þann dag í dag hefur enginn fundið sennilegt svar við þessari spurningu og af þeim sökum hefur mörgum þótt tvíhyggja Descartes algerlega ótæk. Einn þeirra var Írinn George Berkeley, sem uppi var á 18. öld. Hann taldi tilveru hugans hafna yfir allan vafa en spurði hvaða vitneskju við höfum um tilveru efnishluta og svaraði spurningunni á þá leið að einu heimildirnar um þá væru skynjanir og þær væru huglægar, eitthvað sem gerist í huganum. Niðurstaða hans var sú að veruleikinn sé einnar gerðar. Það séu bara til hugir og það sem okkur virðist vera efnishlutir sé í raun og veru bara skynjanir sem æðsti hugurinn, guð almáttugur, sendir út til allra hinna. Með þessari kenningu sinni taldi Berkeley sig hafa leyst flest vandamál heimspekinnar en af einhverjum ástæðum hafa afar fáir fengist til að trúa niðurstöðu hans, þótt það hafi vafist fyrir mönnum að færa gild rök gegn henni.

Kenning Berkeleys er ein af mörgum hughyggjukenningum sem settar voru fram á 17., 18. og 19. öld. Þótt þessar kenningar hafi verið töluvert ræddar í þröngum hópi heimspekinga hafa þær ekki haft nærri því eins mikil áhrif á hugsunarhátt vísindamanna og almennings eins og tvíhyggja Descartes.

Sú einhyggja sem mest gætir nú á tímum er efnishyggja. Sögu hennar má rekja aftur til gríska fornspekingsins Demokritosar sem kenndi að ekkert væri til nema frumeindir og tómið á milli þeirra. Hann taldi að mannshugurinn væri, eins og allt annað, gerður úr örsmáum efnisögnum. Hugmyndir manna um efnisheiminn hafa breyst mikið síðan á dögum Demokritosar og í stað öreindanna sem hann hugsaði sér setja efnishyggjumenn nútímans þann veruleika tímarúms, einda og efniskrafta sem eðlisfræðin lýsir.

Efnishyggja nútímans hefur að nokkru leyti mótast sem andóf gegn tvíhyggju í anda Descartes. Heimspekingar sem aðhyllast efnishyggju leggja yfirleitt áherslu á að lögmál náttúruvísindanna gildi um hugarstarf rétt eins og hvað annað. Þeir hafna yfirnáttúrulegum, trúarlegum og dulspekilegum skýringum á reynslu fólks og álíta að maðurinn tilheyri algerlega ríki náttúrunnar.

Höfundur

heimspekingur og kennari við Fjölbrautaskóla Vesturlands

Útgáfudagur

11.6.2000

Spyrjandi

Petra Vignisdóttir

Efnisorð

Tilvísun

Atli Harðarson. „Hvað er einhyggja og tvíhyggja? Hvers vegna eru þær svo fyrirferðarmiklar í sögunni?“ Vísindavefurinn, 11. júní 2000. Sótt 15. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=507.

Atli Harðarson. (2000, 11. júní). Hvað er einhyggja og tvíhyggja? Hvers vegna eru þær svo fyrirferðarmiklar í sögunni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=507

Atli Harðarson. „Hvað er einhyggja og tvíhyggja? Hvers vegna eru þær svo fyrirferðarmiklar í sögunni?“ Vísindavefurinn. 11. jún. 2000. Vefsíða. 15. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=507>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er einhyggja og tvíhyggja? Hvers vegna eru þær svo fyrirferðarmiklar í sögunni?
Hugtökin einhyggja og tvíhyggja hafa verið notuð til að flokka heimspekilegar kenningar. Þær sem gera ráð fyrir að veruleikinn sé tvískiptur með einhverjum afgerandi hætti, þannig að um hina tvo hluta hans gildi gerólík lögmál, eru kenndar við tvíhyggju og þær sem hafna slíkri tvískiptingu eru einhyggjukenningar.

Af fornum tvíhyggjukenningum má frægasta telja frummyndakenningu gríska heimspekingsins Platons. Samkvæmt henni eru til frummyndir sem eru fullkomnar, eilífar og óumbreytanlegar og í eðli sínu gerólíkar hverfulum efnishlutum. Platon taldi að hin æðstu vísindi, eins og til dæmis stærðfræði, fjölluðu um þessar frummyndir og þess vegna væri sanngildi stærðfræðilegra setninga óháð öllu því sem gerist í efnisheiminum. Pyþagórasarregla, sem segir að kvaðratið af langhlið rétthyrnds þríhyrnings sé jafnt summunni af kvaðrötum skammhliðanna, er til dæmis sönn þótt hvergi í efnisheiminum finnist neinn fullkomlega rétthyrndur þríhyrningur. Platon taldi svipuðu máli gegna um siðferðileg sannindi og þau stærðfræðilegu. Hann áleit til dæmis að kenning sín um réttlætið væri sönn þótt ekki væru til nein réttlát ríki á þessari jörð. Hún fjallaði um réttlætið sem slíkt, eða frummynd réttlætisins, einhvers konar eilífan og óbreytilegan veruleika sem réttlát ríki og réttlátir einstaklingar líktu eftir á sinn ófullkomna hátt rétt eins og strik sem dregin eru í rykið á götunni geta með ófullkomnum hætti líkt eftir rétthyrndum þríhyrningi.

Sú tvíhyggja sem mest hefur borið á undanfarnar 4 aldir er aðgreining líkama og sálar, þess andlega og þess efnislega. Tvíhyggja af þessu tagi er oft kennd við franska heimspekinginn Rene Descartes. Samkvæmt kenningu hans er hugurinn, eða meðvitundin, af allt öðru tagi en efnisheimurinn. Descartes var, ásamt Galileo Galilei, einn af forsprökkum vísindabyltingarinnar á 17. öld. Með kenningu sinni ætlaði hann meðal annars að afmarka viðfangsefni raunvísindanna. Á þessum tíma þótti flestum lærdómsmönnum fráleitt að stærðfræðileg vísindi af því tagi sem Galileo iðkaði gætu kennt okkur neitt um mannlífið. Og enn þann dag í dag hugsa margir sem svo að mennirnir séu skapaðir í guðs mynd, þeir séu frjálsir og með einhverjum hætti hafnir yfir náttúrulögmálin. Með tvíhyggju sinni kenndi Descartes að þetta gilti um mannshugann en líkami mannsins væri viðfangsefni raunvísindanna eins og önnur náttúrufyrirbæri.

Önnur tvíhygga sem sett hefur svip á hugsunarhátt manna síðustu aldirnar er stundum kennd við Skotann David Hume, þótt það sé álitamál hvort hann aðhylltist hana. Kenningin sem hér um ræðir kveður á um strangan greinarmun staðreynda og gilda. Samkvæmt henni er aldrei hægt að álykta hvernig eitthvað ætti að vera eða hvað maður ætti að gera af staðreyndum um hvernig veruleikinn er. Einn angi þessarar tvíhyggju er sú skoðun að vísindin (að minnsta kosti raunvísindi og félagsvísindi) séu hlutlaus með þeim hætti að þau taki enga afstöðu til þess hvort eitthvað er gott eða illt og af niðurstöðum þeirra verði engar ályktanir dregnar þar um nema með því að gefa sér forsendur sem ekki verða studdar með vísindalegum rökum. Vísindin geta til dæmis fært rök að því að reykingar valdi krabbameini en við getum ekki ályktað af því að það sé slæmt að reykja nema við gefum okkur þá óvísindalegu forsendu að krabbamein sé slæmt.

Hér hefur verið minnst á þrjár ólíkar tvíhyggjukenningar. Það væri hægt að nefna margar fleiri og ef til vill er tilhneigingin til að skipta heimspekikenningum í tvo flokka dæmi um einhvers konar tvíhyggjuhugsunarhátt. Þótt umræða um tvíhyggju sé áberandi í bókum um hugmyndasögu, þar sem reynt er að skipa viðfangsefninu niður í flokka, er ekki þar með sagt að til sé nein ein tvíhyggja sem er svo mjög fyrirferðamikil í sögunni. Svipað má segja um einhyggjukenningar. Þær eru margs konar. Hér skal aðeins getið hughyggju og efnishyggju.

Eftir að tvíhyggja Descartes varð kunn spurðu margir hvernig hugur, sem er óefniskenndur og utan við lögmál efnisheimsins, geti haft áhrif á taugakerfið eða aðra hluta líkamans. Enn þann dag í dag hefur enginn fundið sennilegt svar við þessari spurningu og af þeim sökum hefur mörgum þótt tvíhyggja Descartes algerlega ótæk. Einn þeirra var Írinn George Berkeley, sem uppi var á 18. öld. Hann taldi tilveru hugans hafna yfir allan vafa en spurði hvaða vitneskju við höfum um tilveru efnishluta og svaraði spurningunni á þá leið að einu heimildirnar um þá væru skynjanir og þær væru huglægar, eitthvað sem gerist í huganum. Niðurstaða hans var sú að veruleikinn sé einnar gerðar. Það séu bara til hugir og það sem okkur virðist vera efnishlutir sé í raun og veru bara skynjanir sem æðsti hugurinn, guð almáttugur, sendir út til allra hinna. Með þessari kenningu sinni taldi Berkeley sig hafa leyst flest vandamál heimspekinnar en af einhverjum ástæðum hafa afar fáir fengist til að trúa niðurstöðu hans, þótt það hafi vafist fyrir mönnum að færa gild rök gegn henni.

Kenning Berkeleys er ein af mörgum hughyggjukenningum sem settar voru fram á 17., 18. og 19. öld. Þótt þessar kenningar hafi verið töluvert ræddar í þröngum hópi heimspekinga hafa þær ekki haft nærri því eins mikil áhrif á hugsunarhátt vísindamanna og almennings eins og tvíhyggja Descartes.

Sú einhyggja sem mest gætir nú á tímum er efnishyggja. Sögu hennar má rekja aftur til gríska fornspekingsins Demokritosar sem kenndi að ekkert væri til nema frumeindir og tómið á milli þeirra. Hann taldi að mannshugurinn væri, eins og allt annað, gerður úr örsmáum efnisögnum. Hugmyndir manna um efnisheiminn hafa breyst mikið síðan á dögum Demokritosar og í stað öreindanna sem hann hugsaði sér setja efnishyggjumenn nútímans þann veruleika tímarúms, einda og efniskrafta sem eðlisfræðin lýsir.

Efnishyggja nútímans hefur að nokkru leyti mótast sem andóf gegn tvíhyggju í anda Descartes. Heimspekingar sem aðhyllast efnishyggju leggja yfirleitt áherslu á að lögmál náttúruvísindanna gildi um hugarstarf rétt eins og hvað annað. Þeir hafna yfirnáttúrulegum, trúarlegum og dulspekilegum skýringum á reynslu fólks og álíta að maðurinn tilheyri algerlega ríki náttúrunnar. ...