Perú liggur að strönd Kyrrahafsins í norð-vesturhluta Suður-Ameríku. Perú á landamæri að Ekvador í norð-vestur, Kólumbíu í norð-austur, Brasilíu í austur, Bólivíu í suð-austur og Chíle í suður.
Perú er 1.285.216 ferkílómetrar (km2) að flatarmáli og áætlað er að íbúafjöldi landsins árið 2005 séu rúmlega 27.925.000 manns. Höfuðborg Perú er Líma og er hún jafnframt stærsta borgin. Perú fékk sjálfstæði frá Spáni 28. júlí 1821.
Spænska er opinbert tungumál landsins ásamt indíánamálinu quechua, en það er tunga hinna fornu Inka sem settust að í Perú löngu á undan hinum spænsku landnemum. Nafnið Perú er einmitt komið úr quechua-tungumálinu og merkir "allsnægtarland".
Lesendum er einnig bent á að kynna sér svar Jóns Más Halldórssonar um dýralíf í Perú og svar Gísla Gunnarssonar um Inka og Maya.
Heimildir og mynd:
- Ferðaheimur.
- Peru. Encyclopædia Britannica Online.
- Peru. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
- World Fact Book.
- Mynd frá CNN.com.
Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2005.