
Til að fá rafhlöðuna til að verka á nýjan leik er hleðslutæki tengt við rafhlöðuna í stað upphaflega tækisins sem hún átti að knýja. Í hleðslutækinu er oftast afriðill sem afriðar riðstrauminn frá rafveitunni. Hleðslutækið verkar þá svipað og rafhlaða þar sem forskaut þess er tengd við forskaut litín-jón rafhlöðunar og bakskautin eru samtengd (mynd 1b). Þegar hleðslutækið er tengt við rafhlöðuna á sér stað virkni í litínjónarafhlöðunni andstætt því sem átti sér stað áður þegar rafhlaðan var í notkun. Nú eru rafeindir losaðar frá Li-frumeindum sem höfðu myndast í kristallsgrindinni og Li+-jónir þar endurmyndaðar en rafeindum skilað á ný yfir á Li+ jónir í nánd við fjölliðugrindina til að endurmynda Li-frumeindir. Í þetta sinn flæða Li+-jónir aftur til baka frá kristalgrindinni yfir að fjölliðugrindinni. Hleðslu er lokið þegar þessi „viðsnúningur“ er yfirstaðinn og búið er að mynda sömu aðstæður í litínjónarafhlöðunni og voru fyrir hendi áður en hún var notuð. Þá er hún fullhlaðin og nothæf á nýjan leik.

Í eldri gerðum af rafhlöðum eru efnaferlin oft talsvert flóknari en hér er lýst og er það meginástæða þess að ekki er hægt að hlaða þær aftur þegar þær tæmast.
Heimildir og myndir: