Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Af hverju hræðast menn að svartur köttur gangi í veg fyrir þá?

Símon Jón Jóhannsson

Talið er að heimiliskötturinn hafi komið til Evrópu einhvern tíma á járnöld en utan Evrópu á hann sér mun lengri sögu. Hlutverk kattarins í samfélagi við manninn hefur allt frá fyrstu tíð verið að verja uppskeru og híbýli fyrir nagdýrum auk þess sem kattarskinn voru lengi talin verðmæt. Það er einnig ævagömul trú að kettir séu merkilegar skepnur og standi í nánu sambandi við þau öfl sem búa að baki hinum sýnilega veruleika.

Fornegyptar eru taldir hafa byrjað að temja ketti um það bil 3000 árum f. Kr. Egyptar urðu svo hrifnir af ágæti kattarins að þeir tóku að tilbiðja hann. Hjá þeim var kötturinn sagður afkvæmi Ísisar, gyðju ljóss og lífs, og Ósírisar sem var guð mána og dauða. Mynd kattargyðjunnar Bast var kona með kattarhöfuð. Frá Egyptum er einnig komin sú trú að kettir hafi níu líf.

Kettir höfðu nokkru hlutverki að gegna í grískri goðafræði. Mánagyðjan Artemis var verndari kattanna, þeir voru í fylgdarliði hennar og hún gat sjálf brugðið sér í kattarlíki ef svo bar undir. Artemis var í nánu sambandi við Hekötu, gyðju undirheimanna, en hún var einnig mánagyðja og gat breytt sér í kött eins og Artemis. Hekata var einnig gyðja nornanna, og kettir fylgdu Hekötu á næturferðum hennar. Kötturinn var því snemma tengdur göldrum og öðrum myrkraverkum.

Kettir eru fylgifiskar ástar- og frjósemisgyðjunnar Freyju í norrænni goðafræði og þeir drógu vagn hennar þegar hún ferðaðist. Auk þessa má finna ýmsa tiltrú er ketti varðar hjá Kínverjum og fleiri Asíuþjóðum.

Í þjóðtrú hafa menn löngum verið blendnir í afstöðu sinni til kattarins. Á hann hefur verið litið sem heilagt dýr en algengara er þó að hann hafi verið álitinn fulltrúi illra afla. Á miðöldum urðu svartir kettir einkennisdýr norna og voru kettir norna sagðir nærast á blóði þeirra. Nornir áttu meðal annars að geta brugðið sér í kattarlíki. Verði svartur köttur á vegi manns er því allt eins víst að þar sé norn á ferðinni.

Kettir eru oftast taldir til góðs á heimilum og víða má finna þá hjátrú að heilladrjúgt sé að hafa kött með sér þegar flutt er inn í nýtt húsnæði. Því var trúað að kötturinn sogaði til sín ólán og ill öfl eða að þessi fyrirbæri tækju sér bólfestu í honum. Kötturinn var með öðrum orðum nokkurs konar segull eða ryksuga sem dró að sér allt illt. Sagt er að sums staðar hafi tíðkast að henda svörtum ketti inn fyrir þröskuldinn á heimili brúðhjóna til að hreinsa andrúmsloftið áður en þau fóru sjálf inn.



Kettir hafa löngum verið taldar dulmagnaðar skepnur. Ýmist var litið á þá sem heilagar verur eða fulltrúa illra afla.

Flestir þekkja þá hjátrú að það sé slæmur fyrirboði ef svartur köttur hleypur þvert í veg fyrir mann. Víðast hvar í Evrópu og Bandaríkjunum er þessi hjátrú almenn enn í dag. Það vekur mörgum ugg í brjósti hlaupi svartur köttur þvert á leið þeirra, sérstaklega séu menn að sinna mikilvægum eða áhættusömum erindum. Margir Bandaríkjamenn halda því þó fram að svartur köttur sé einungis fyrirboði ills hlaupi hann frá vinstri til hægri en viti á gott komi hann frá hægri. Hvítir kettir vita aftur á móti á gott.

Í Englandi snúa margir þessari hjátrú við; svartir kettir vita á gott en hvítir kettir á illt. Þá eru svartir kettir álíka vinsælir og þeir eru óvinsælir annars staðar á Vesturlöndum, hlaupi þeir í veg fyrir menn. Þess eru dæmi í Englandi að einhver taki sérstaklega að sér það verkefni að láta svartan kött hlaupa í veg fyrir brúðhjón þegar þau koma út úr kirkjunni að lokinni vígslu, þeim til heilla.

Segja má að einn af grunnþáttum hjátrúar sé að viðhalda ákveðnu jafnvægi í hinu daglega lífi. Allt sem truflar eða gengur þvert á það sem er talið venjulegt eða eðlilegt boðar illt en getur þó í sumum tilfellum verið fyrirboði góðra tíðinda. Svartur köttur sem skyndilega hleypur þvert á leið manna truflar ákveðið jafnvægi, gengur þvert á fyrirfram ákveðna leið og er þess vegna í flestum tilfellum talinn ills viti.

Ótrúin á svarta ketti á sér rætur í hefðbundnum viðhorfum til kattarins; um aldir var hann annars vegar talinn heilagt dýr og hins vegar djöfulleg skepna. Vegna hins nána sambands kattarins við nornir og önnur myrkraöfl hefur neikvætt viðhorf til svartra katta sennilega orðið jafn afgerandi og raun ber vitni.

Annars er ráð, hlaupi svartur köttur í veg fyrir mann, að hrækja í átt til hans eða krossleggja fingur til að afstýra óláni.

Á Vísindavefnum er að finna fleiri tengd svör, til dæmis:

Myndir

Höfundur

Símon Jón Jóhannsson

þjóðfræðingur

Útgáfudagur

4.7.2005

Spyrjandi

Sólrún Svana, f. 1993

Tilvísun

Símon Jón Jóhannsson. „Af hverju hræðast menn að svartur köttur gangi í veg fyrir þá?“ Vísindavefurinn, 4. júlí 2005. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5108.

Símon Jón Jóhannsson. (2005, 4. júlí). Af hverju hræðast menn að svartur köttur gangi í veg fyrir þá? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5108

Símon Jón Jóhannsson. „Af hverju hræðast menn að svartur köttur gangi í veg fyrir þá?“ Vísindavefurinn. 4. júl. 2005. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5108>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju hræðast menn að svartur köttur gangi í veg fyrir þá?
Talið er að heimiliskötturinn hafi komið til Evrópu einhvern tíma á járnöld en utan Evrópu á hann sér mun lengri sögu. Hlutverk kattarins í samfélagi við manninn hefur allt frá fyrstu tíð verið að verja uppskeru og híbýli fyrir nagdýrum auk þess sem kattarskinn voru lengi talin verðmæt. Það er einnig ævagömul trú að kettir séu merkilegar skepnur og standi í nánu sambandi við þau öfl sem búa að baki hinum sýnilega veruleika.

Fornegyptar eru taldir hafa byrjað að temja ketti um það bil 3000 árum f. Kr. Egyptar urðu svo hrifnir af ágæti kattarins að þeir tóku að tilbiðja hann. Hjá þeim var kötturinn sagður afkvæmi Ísisar, gyðju ljóss og lífs, og Ósírisar sem var guð mána og dauða. Mynd kattargyðjunnar Bast var kona með kattarhöfuð. Frá Egyptum er einnig komin sú trú að kettir hafi níu líf.

Kettir höfðu nokkru hlutverki að gegna í grískri goðafræði. Mánagyðjan Artemis var verndari kattanna, þeir voru í fylgdarliði hennar og hún gat sjálf brugðið sér í kattarlíki ef svo bar undir. Artemis var í nánu sambandi við Hekötu, gyðju undirheimanna, en hún var einnig mánagyðja og gat breytt sér í kött eins og Artemis. Hekata var einnig gyðja nornanna, og kettir fylgdu Hekötu á næturferðum hennar. Kötturinn var því snemma tengdur göldrum og öðrum myrkraverkum.

Kettir eru fylgifiskar ástar- og frjósemisgyðjunnar Freyju í norrænni goðafræði og þeir drógu vagn hennar þegar hún ferðaðist. Auk þessa má finna ýmsa tiltrú er ketti varðar hjá Kínverjum og fleiri Asíuþjóðum.

Í þjóðtrú hafa menn löngum verið blendnir í afstöðu sinni til kattarins. Á hann hefur verið litið sem heilagt dýr en algengara er þó að hann hafi verið álitinn fulltrúi illra afla. Á miðöldum urðu svartir kettir einkennisdýr norna og voru kettir norna sagðir nærast á blóði þeirra. Nornir áttu meðal annars að geta brugðið sér í kattarlíki. Verði svartur köttur á vegi manns er því allt eins víst að þar sé norn á ferðinni.

Kettir eru oftast taldir til góðs á heimilum og víða má finna þá hjátrú að heilladrjúgt sé að hafa kött með sér þegar flutt er inn í nýtt húsnæði. Því var trúað að kötturinn sogaði til sín ólán og ill öfl eða að þessi fyrirbæri tækju sér bólfestu í honum. Kötturinn var með öðrum orðum nokkurs konar segull eða ryksuga sem dró að sér allt illt. Sagt er að sums staðar hafi tíðkast að henda svörtum ketti inn fyrir þröskuldinn á heimili brúðhjóna til að hreinsa andrúmsloftið áður en þau fóru sjálf inn.



Kettir hafa löngum verið taldar dulmagnaðar skepnur. Ýmist var litið á þá sem heilagar verur eða fulltrúa illra afla.

Flestir þekkja þá hjátrú að það sé slæmur fyrirboði ef svartur köttur hleypur þvert í veg fyrir mann. Víðast hvar í Evrópu og Bandaríkjunum er þessi hjátrú almenn enn í dag. Það vekur mörgum ugg í brjósti hlaupi svartur köttur þvert á leið þeirra, sérstaklega séu menn að sinna mikilvægum eða áhættusömum erindum. Margir Bandaríkjamenn halda því þó fram að svartur köttur sé einungis fyrirboði ills hlaupi hann frá vinstri til hægri en viti á gott komi hann frá hægri. Hvítir kettir vita aftur á móti á gott.

Í Englandi snúa margir þessari hjátrú við; svartir kettir vita á gott en hvítir kettir á illt. Þá eru svartir kettir álíka vinsælir og þeir eru óvinsælir annars staðar á Vesturlöndum, hlaupi þeir í veg fyrir menn. Þess eru dæmi í Englandi að einhver taki sérstaklega að sér það verkefni að láta svartan kött hlaupa í veg fyrir brúðhjón þegar þau koma út úr kirkjunni að lokinni vígslu, þeim til heilla.

Segja má að einn af grunnþáttum hjátrúar sé að viðhalda ákveðnu jafnvægi í hinu daglega lífi. Allt sem truflar eða gengur þvert á það sem er talið venjulegt eða eðlilegt boðar illt en getur þó í sumum tilfellum verið fyrirboði góðra tíðinda. Svartur köttur sem skyndilega hleypur þvert á leið manna truflar ákveðið jafnvægi, gengur þvert á fyrirfram ákveðna leið og er þess vegna í flestum tilfellum talinn ills viti.

Ótrúin á svarta ketti á sér rætur í hefðbundnum viðhorfum til kattarins; um aldir var hann annars vegar talinn heilagt dýr og hins vegar djöfulleg skepna. Vegna hins nána sambands kattarins við nornir og önnur myrkraöfl hefur neikvætt viðhorf til svartra katta sennilega orðið jafn afgerandi og raun ber vitni.

Annars er ráð, hlaupi svartur köttur í veg fyrir mann, að hrækja í átt til hans eða krossleggja fingur til að afstýra óláni.

Á Vísindavefnum er að finna fleiri tengd svör, til dæmis:

Myndir

...