Sólin Sólin Rís 06:43 • sest 20:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:43 • Síðdegis: 25:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:01 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:43 • sest 20:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:43 • Síðdegis: 25:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:01 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um flæmingja?

Jón Már Halldórsson

Flamingóar eða flæmingjar (Phoenicopteridae) eru hvítir að grunninum til en vegna bleikra, og allt að því skærrauðra, reita á vængjum, fótum og nefi er yfirbragð þeirra bleikt. Langur háls og háir fætur gera þá tignarlega á að líta. Ævintýralegt er að sjá stóra hópa þessara glæsilegu fugla á flugi.



Rauðflæmingjar (Phoenicopterus ruber) á flugi.

Flæmingjar tilheyra ættbálknum Ciconiiformes (því miður er höfundi ekki kunnugt um íslenskt heiti ættbálksins) ásamt storkum, hegrum og íbísum, en allt eru þetta óvenju háfættir og hálslangir fuglar. Til flæmingja teljast fimm tegundir: Litli flæmingi (Phoeniconaias minor), síleflæmingi (Phoenicopterus chilensis), fjallaflæmingi (Phoenicoparrus andinus), dalaflæmingi (Phoenicoparrus jamesi) og rauðflæmingi (Phoenicopterus ruber).

Litli flæmingi finnst á vatnasvæðum í austur- og suðurhluta Afríku, Madagaskar og á Indlandi. Þetta er minnsta flæmingjategundin en jafnframt sú algengasta. Talið er að heildarstofnstærðin sé nálægt 4 milljónum fugla.

Síleflæmingi lifir á saltvatnssvæðum hátt í Andesfjöllum á landamærasvæðum Síle, Bólivíu og Perú. Stofninn er ekki stór, eða aðeins nærri 250 þúsund fuglar.

Fjallaflæmingi lifir á svipuðum slóðum og síleflæminginn og oft á sömu stöðum. Stofn fjallaflæmingja er enn minni en síleflæmingja, líklega færri en 100 þúsund einstaklinga.

Dalaflæmingi er þriðja suður-ameríska flæmingjategundin. Hann lifir á afskekktum svæðum í Andesfjöllunum og er nær undantekningarlaust í samfloti með fjallaflæmingja. Þessi tegund var áður talin útdauð en árið 1950 fannst hún að nýju og er nú alfriðuð. Vísindamenn hafa fylgst náið með tegundinni og er talið að stofnstærðin sé rúmlega 50 þúsund fuglar.

Rauðflæmingi er stærsta flæmingjategundin og sú eina sem finnst í Evrópu. Rauðflæmingjum er skipt upp í tvær deilitegundir, Phoenicopterus ruber ruber sem lifir á svæðum við Karíbahafið í Mið- og Norður-Ameríku og Phoenicopterus ruber roseus sem lifir í sunnanverðri Evrópu, Norður-Ameríku og sunnanverðri Asíu.

Á undanförnum áratugum hefur rauðflæmingjum fækkað verulega báðum megin Atlantshafs og má meðal annars rekja það til veiða, röskunar á búsvæðum og nú nýlega til veðurfarsbreytinga. Stærstu varpsvæði fuglsins eru við sjávarlón í Mexíkó, Venesúela og á Bahamaeyjum auk þess sem varpbyggð er á Galapagoseyjum.

Flæmingjar verpa aðeins á sárafáum svæðum í Evrópu og Asíu svo sem í Camargue (Frakklandi), Laguna de Fuente de Piedra (Spáni), Seyfe Golu og Izmir Kus Cenneti (Tyrklandi). Evrópski stofninn er talinn vera á bilinu 14-35 þúsund fuglar og sá tyrkneski 14-18 þúsund fuglar.

Flæmingjar eru afar félagslyndir fuglar og sjást oft við vötn og votlendi í stórum hópum, jafnvel þúsundum saman. Í Rann-saltfenjunum á Indlandi hafa tugir þúsunda litlu flæmingja komið saman og í Kenía hafa sést um tvær milljónir fugla saman við eitt og sama vatnið.



Hópur litlu flæmingja (Phoeniconaias minor) á vatni í Kenía.

Fæðuval flæmingja er nokkuð breytilegt eftir tegundum, en lögun nefsins er í megindráttum eins á milli tegunda og þar af leiðandi fæðunámið líka. Í gogginum eru raðir burstanadda sem minna mjög á hvalskíði og hafa það hlutverk að sía fæðuna úr vatninu. Fuglarnir nota tunguna til þess að soga upp drullu og vatn sem er auðugt af lífrænum efnum. Síðan þrýstir fuglinn tungunni að síunni sem burstanaddarnir mynda við munnvikið þannig að vatnið fer út en eftir sitja lífræn efni, gjörþurrkuð vegna þrýstingsins frá sterkri tungunni.

Hreiðurgerð flæmingja er einföld. Þeir skafa leir með gogginum og mynda keilulaga hrauka í flæðarmálinu. Efst er grunn skál sem fuglinn verpir einu eggi í. Foreldrarnir liggja til skiptis á hreiðri. Nýklakinn unginn er þakinn hvítum dún og hefur eldrautt og beint nef en fæturnir eru rauðir. Báðir foreldrarnir sjá um að mata ungann á ælu sem oft samanstendur af eggjahvítuauðugum smádýrum sem tínd eru á grunnum botni vatnsins.

Unginn heldur kyrru fyrir í hreiðrinu í tæpar tvær vikur. Síðan safnast ungar flæmingjabyggðarinnar oft saman í gríðarstóra hópa og halda til í einhvers konar „barnaheimilum“ við flæðarmálið. Á þeim tíma eru þeir farnir að fá grábrúnan dún og nef og fætur þeirra orðnir svartir. Þeir eru mataðir af fullorðnum fuglum allt þar til þeir verða sjálfbjarga við 10 vikna aldur, en þá verða þeir fleygir og nefið er farið að beygjast niður á við.

Stöku sinnum kemur fyrir að vötnin eða lónin sem flæmingjarnir verpa við þorna í hinum miklu sumarhitum sem verða á varpsvæðum þeirra í Afríku. Eitt kunnasta dæmið um slíkt er þegar Etosha Pan saltvatnið í Namibíu þornaði upp að hluta en það var þá varpsvæði tæplega 12 þúsund flæmingjapara. Dýrafræðingar gátu fylgst gaumgæfilega með því hvernig fullorðnu fuglarnir björguðu ungum sínum úr þessum hremmingum og tókst að afstýra fjöldadauða unga. Ungarnir fóru í smáhópum, sem stýrt var af fullorðnum fuglum, alls 80 km leið eftir þurrum botni vatnsins. Á meðan fóru aðrir fullorðnir fuglar langar leiðir eftir æti og þurftu að fæða unganna stanslaust. Öll ferðin tók um mánuð og lifðu flestir ungarnir ferðalagið af. Ekki enda þó allar sögur svona vel og fyrir hefur komið að allir ungar í varpi hafi drepist í mikilli þurrkatíð.

Flæmingjar eru að langmestu leyti farfuglar sem fara langar leiðir til að komast á vetrarslóðir. Eftir varptímann leysast flæmingjabyggðirnar upp og fuglarnir leggja í ferðalag á vetrarstöðvarnar. Rannsóknir hafa sýnt að evrópskir flæmingjar fara að öllu jöfnu lengst, en fuglar af varpsvæðinu í Camarque í Suður-Frakklandi fara um 3.500 km vegalengd til Atlantshafsstrandar Senegals. Reyndar fer hluti stofnsins ekki út fyrir landamæri Frakklands heldur færir sig einungis niður að strönd Miðjarðarhafsins. Íranskir flæmingjar fara einnig afar langt til að komast á vetrarslóðir eða um 2.500 km leið til Líbíu. Vitað er um enn lengra flug nokkurra íranskra flæmingja eða alla leið til Mjanmar (áður Burma) í rúmlega 4.000 km fjarlægð frá varpstöðvunum, samkvæmt merkingum íranskra fuglafræðinga.

Heimildir og myndir:
  • Flamingo Encyclopædia Britannica. Sótt af Encyclopædia Britannica Online 14. maí 2005.
  • Gallet, E. 1950. Flamingos of the Camargue. Basil Blackwell, Oxford.
  • Kear, J. og N. Duplaix-Hall. 1975. Flamingos. T & A D Poyser. Berkhamsted.
  • Undraveröld dýranna. Fuglar. Fjölvaútgáfan, Reykjavík. 1984.
  • Just Birds Photographers.
  • Natur-Lexikon.com.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

7.7.2005

Spyrjandi

María Skúladóttir, f. 1992.

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um flæmingja?“ Vísindavefurinn, 7. júlí 2005, sótt 12. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5119.

Jón Már Halldórsson. (2005, 7. júlí). Hvað getið þið sagt mér um flæmingja? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5119

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um flæmingja?“ Vísindavefurinn. 7. júl. 2005. Vefsíða. 12. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5119>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um flæmingja?
Flamingóar eða flæmingjar (Phoenicopteridae) eru hvítir að grunninum til en vegna bleikra, og allt að því skærrauðra, reita á vængjum, fótum og nefi er yfirbragð þeirra bleikt. Langur háls og háir fætur gera þá tignarlega á að líta. Ævintýralegt er að sjá stóra hópa þessara glæsilegu fugla á flugi.



Rauðflæmingjar (Phoenicopterus ruber) á flugi.

Flæmingjar tilheyra ættbálknum Ciconiiformes (því miður er höfundi ekki kunnugt um íslenskt heiti ættbálksins) ásamt storkum, hegrum og íbísum, en allt eru þetta óvenju háfættir og hálslangir fuglar. Til flæmingja teljast fimm tegundir: Litli flæmingi (Phoeniconaias minor), síleflæmingi (Phoenicopterus chilensis), fjallaflæmingi (Phoenicoparrus andinus), dalaflæmingi (Phoenicoparrus jamesi) og rauðflæmingi (Phoenicopterus ruber).

Litli flæmingi finnst á vatnasvæðum í austur- og suðurhluta Afríku, Madagaskar og á Indlandi. Þetta er minnsta flæmingjategundin en jafnframt sú algengasta. Talið er að heildarstofnstærðin sé nálægt 4 milljónum fugla.

Síleflæmingi lifir á saltvatnssvæðum hátt í Andesfjöllum á landamærasvæðum Síle, Bólivíu og Perú. Stofninn er ekki stór, eða aðeins nærri 250 þúsund fuglar.

Fjallaflæmingi lifir á svipuðum slóðum og síleflæminginn og oft á sömu stöðum. Stofn fjallaflæmingja er enn minni en síleflæmingja, líklega færri en 100 þúsund einstaklinga.

Dalaflæmingi er þriðja suður-ameríska flæmingjategundin. Hann lifir á afskekktum svæðum í Andesfjöllunum og er nær undantekningarlaust í samfloti með fjallaflæmingja. Þessi tegund var áður talin útdauð en árið 1950 fannst hún að nýju og er nú alfriðuð. Vísindamenn hafa fylgst náið með tegundinni og er talið að stofnstærðin sé rúmlega 50 þúsund fuglar.

Rauðflæmingi er stærsta flæmingjategundin og sú eina sem finnst í Evrópu. Rauðflæmingjum er skipt upp í tvær deilitegundir, Phoenicopterus ruber ruber sem lifir á svæðum við Karíbahafið í Mið- og Norður-Ameríku og Phoenicopterus ruber roseus sem lifir í sunnanverðri Evrópu, Norður-Ameríku og sunnanverðri Asíu.

Á undanförnum áratugum hefur rauðflæmingjum fækkað verulega báðum megin Atlantshafs og má meðal annars rekja það til veiða, röskunar á búsvæðum og nú nýlega til veðurfarsbreytinga. Stærstu varpsvæði fuglsins eru við sjávarlón í Mexíkó, Venesúela og á Bahamaeyjum auk þess sem varpbyggð er á Galapagoseyjum.

Flæmingjar verpa aðeins á sárafáum svæðum í Evrópu og Asíu svo sem í Camargue (Frakklandi), Laguna de Fuente de Piedra (Spáni), Seyfe Golu og Izmir Kus Cenneti (Tyrklandi). Evrópski stofninn er talinn vera á bilinu 14-35 þúsund fuglar og sá tyrkneski 14-18 þúsund fuglar.

Flæmingjar eru afar félagslyndir fuglar og sjást oft við vötn og votlendi í stórum hópum, jafnvel þúsundum saman. Í Rann-saltfenjunum á Indlandi hafa tugir þúsunda litlu flæmingja komið saman og í Kenía hafa sést um tvær milljónir fugla saman við eitt og sama vatnið.



Hópur litlu flæmingja (Phoeniconaias minor) á vatni í Kenía.

Fæðuval flæmingja er nokkuð breytilegt eftir tegundum, en lögun nefsins er í megindráttum eins á milli tegunda og þar af leiðandi fæðunámið líka. Í gogginum eru raðir burstanadda sem minna mjög á hvalskíði og hafa það hlutverk að sía fæðuna úr vatninu. Fuglarnir nota tunguna til þess að soga upp drullu og vatn sem er auðugt af lífrænum efnum. Síðan þrýstir fuglinn tungunni að síunni sem burstanaddarnir mynda við munnvikið þannig að vatnið fer út en eftir sitja lífræn efni, gjörþurrkuð vegna þrýstingsins frá sterkri tungunni.

Hreiðurgerð flæmingja er einföld. Þeir skafa leir með gogginum og mynda keilulaga hrauka í flæðarmálinu. Efst er grunn skál sem fuglinn verpir einu eggi í. Foreldrarnir liggja til skiptis á hreiðri. Nýklakinn unginn er þakinn hvítum dún og hefur eldrautt og beint nef en fæturnir eru rauðir. Báðir foreldrarnir sjá um að mata ungann á ælu sem oft samanstendur af eggjahvítuauðugum smádýrum sem tínd eru á grunnum botni vatnsins.

Unginn heldur kyrru fyrir í hreiðrinu í tæpar tvær vikur. Síðan safnast ungar flæmingjabyggðarinnar oft saman í gríðarstóra hópa og halda til í einhvers konar „barnaheimilum“ við flæðarmálið. Á þeim tíma eru þeir farnir að fá grábrúnan dún og nef og fætur þeirra orðnir svartir. Þeir eru mataðir af fullorðnum fuglum allt þar til þeir verða sjálfbjarga við 10 vikna aldur, en þá verða þeir fleygir og nefið er farið að beygjast niður á við.

Stöku sinnum kemur fyrir að vötnin eða lónin sem flæmingjarnir verpa við þorna í hinum miklu sumarhitum sem verða á varpsvæðum þeirra í Afríku. Eitt kunnasta dæmið um slíkt er þegar Etosha Pan saltvatnið í Namibíu þornaði upp að hluta en það var þá varpsvæði tæplega 12 þúsund flæmingjapara. Dýrafræðingar gátu fylgst gaumgæfilega með því hvernig fullorðnu fuglarnir björguðu ungum sínum úr þessum hremmingum og tókst að afstýra fjöldadauða unga. Ungarnir fóru í smáhópum, sem stýrt var af fullorðnum fuglum, alls 80 km leið eftir þurrum botni vatnsins. Á meðan fóru aðrir fullorðnir fuglar langar leiðir eftir æti og þurftu að fæða unganna stanslaust. Öll ferðin tók um mánuð og lifðu flestir ungarnir ferðalagið af. Ekki enda þó allar sögur svona vel og fyrir hefur komið að allir ungar í varpi hafi drepist í mikilli þurrkatíð.

Flæmingjar eru að langmestu leyti farfuglar sem fara langar leiðir til að komast á vetrarslóðir. Eftir varptímann leysast flæmingjabyggðirnar upp og fuglarnir leggja í ferðalag á vetrarstöðvarnar. Rannsóknir hafa sýnt að evrópskir flæmingjar fara að öllu jöfnu lengst, en fuglar af varpsvæðinu í Camarque í Suður-Frakklandi fara um 3.500 km vegalengd til Atlantshafsstrandar Senegals. Reyndar fer hluti stofnsins ekki út fyrir landamæri Frakklands heldur færir sig einungis niður að strönd Miðjarðarhafsins. Íranskir flæmingjar fara einnig afar langt til að komast á vetrarslóðir eða um 2.500 km leið til Líbíu. Vitað er um enn lengra flug nokkurra íranskra flæmingja eða alla leið til Mjanmar (áður Burma) í rúmlega 4.000 km fjarlægð frá varpstöðvunum, samkvæmt merkingum íranskra fuglafræðinga.

Heimildir og myndir:
  • Flamingo Encyclopædia Britannica. Sótt af Encyclopædia Britannica Online 14. maí 2005.
  • Gallet, E. 1950. Flamingos of the Camargue. Basil Blackwell, Oxford.
  • Kear, J. og N. Duplaix-Hall. 1975. Flamingos. T & A D Poyser. Berkhamsted.
  • Undraveröld dýranna. Fuglar. Fjölvaútgáfan, Reykjavík. 1984.
  • Just Birds Photographers.
  • Natur-Lexikon.com.
  • ...