Í stjörnum eins og sólinni okkar er gífurlegt efnismagn saman komið. Einhvers konar þrýstikraftur hlýtur að verka gegn þyngdarkraftinum til að sporna við því að stjarnan falli saman. Stjörnur eins og sólin okkar brenna vetni í kjarna sínum og helín myndast með kjarnasamruna. Þannig myndast gífurlegur hiti og þrýstingur sem verkar gegn samþjöppuninni og jafnvægi næst. En á endanum klárast vetniseldsneytið. Þá tekur við skemmra tímabil meðan önnur kjarnahvörf fara fram, svo sem samruni helíns, samruni kolefnis og fleira. Það er raunar háð massa stjörnunnar hvort þessi hvörf geta farið fram. En með þeim myndast þyngri frumefni, allt að járni. En samruni járns eða myndun þaðan af þyngri frumefna skilar ekki orku og því safnast fyrir járnkjarni í iðrum stjörnu sem hefur haft nógu mikinn massa í upphafi til að þessi þróun gengi til enda. Enn sem fyrr reynir þyngdarkrafturinn að þjappa þessum járnkjarna saman. Sé massi hans undir Chandrasekhar-massanum getur svokallaður rafeindaþrýstingur haldið þyngdarkraftinum í skefjum. Þá hefur myndast hvítur dvergur. En sé massinn meiri en Chandrasekhar-massinn getur rafeindaþrýstingur ekki haldið kjarnanum uppi og hann fellur því saman og myndar nifteindastjörnu eða svarthol. Að lokum er rétt að ítreka að Chandrasekhar-mörkin miðast við lokamassa kjarnans en ekki upphafsmassa sólstjörnunnar. Ítarlegri umfjöllun um stjörnuþróun má finna í svari Tryggva Þorgeirssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvernig myndast svarthol í geimnum?. Þá er fjallað um svokölluð Schönberg-Chandrasekhar-mörk í svari við spurningu um þau.
Hvað eru Chandrasekhar-mörk?
Í stjörnum eins og sólinni okkar er gífurlegt efnismagn saman komið. Einhvers konar þrýstikraftur hlýtur að verka gegn þyngdarkraftinum til að sporna við því að stjarnan falli saman. Stjörnur eins og sólin okkar brenna vetni í kjarna sínum og helín myndast með kjarnasamruna. Þannig myndast gífurlegur hiti og þrýstingur sem verkar gegn samþjöppuninni og jafnvægi næst. En á endanum klárast vetniseldsneytið. Þá tekur við skemmra tímabil meðan önnur kjarnahvörf fara fram, svo sem samruni helíns, samruni kolefnis og fleira. Það er raunar háð massa stjörnunnar hvort þessi hvörf geta farið fram. En með þeim myndast þyngri frumefni, allt að járni. En samruni járns eða myndun þaðan af þyngri frumefna skilar ekki orku og því safnast fyrir járnkjarni í iðrum stjörnu sem hefur haft nógu mikinn massa í upphafi til að þessi þróun gengi til enda. Enn sem fyrr reynir þyngdarkrafturinn að þjappa þessum járnkjarna saman. Sé massi hans undir Chandrasekhar-massanum getur svokallaður rafeindaþrýstingur haldið þyngdarkraftinum í skefjum. Þá hefur myndast hvítur dvergur. En sé massinn meiri en Chandrasekhar-massinn getur rafeindaþrýstingur ekki haldið kjarnanum uppi og hann fellur því saman og myndar nifteindastjörnu eða svarthol. Að lokum er rétt að ítreka að Chandrasekhar-mörkin miðast við lokamassa kjarnans en ekki upphafsmassa sólstjörnunnar. Ítarlegri umfjöllun um stjörnuþróun má finna í svari Tryggva Þorgeirssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvernig myndast svarthol í geimnum?. Þá er fjallað um svokölluð Schönberg-Chandrasekhar-mörk í svari við spurningu um þau.
Útgáfudagur
14.6.2000
Spyrjandi
Sævar Helgi Bragason
Tilvísun
SIV. „Hvað eru Chandrasekhar-mörk?“ Vísindavefurinn, 14. júní 2000, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=512.
SIV. (2000, 14. júní). Hvað eru Chandrasekhar-mörk? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=512
SIV. „Hvað eru Chandrasekhar-mörk?“ Vísindavefurinn. 14. jún. 2000. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=512>.