Sólin Sólin Rís 03:51 • sest 23:15 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:50 • Síðdegis: 16:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:03 • Síðdegis: 22:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:51 • sest 23:15 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:50 • Síðdegis: 16:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:03 • Síðdegis: 22:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Eru einhverjar sannanir um tilvist drauga og annarra slíkra anda?

Sigurður J. Grétarsson

Allar sögur af draugum eru atvikasögur, sögur af einstökum tilvikum. Draugasögur hafa tilhneigingu til að skreppa saman þegar menn ætla sér að beisla fyrirbærin með vísindalegri aðferð. Draugar gera ekki vart við sig reglulega í einhverju tilteknu orsakasamhengi. Engar óvéfengjanlegar vísindarannsóknir benda til tilvistar drauga. Langflestir hallast að því að draugagang megi skýra með missýnum og oftúlkunum og blekkingum af ýmsu tagi þó að sögur af honum kunni að eiga sér einhvern tilgang.

Til þess að sýna að eitthvað sé til þarf í raun aðeins eitt einstakt og óvéfengjanlegt tilvik. En það er snúnara að staðfesta að eitthvað sé örugglega ekki til.

Þegar Evrópumenn tóku, í lok miðalda, að sigla um hnöttinn og kanna ókunn lönd sögðu þeir, þegar heim var komið, frá ýmsum kynjaskepnum sem þeir kváðust hafa séð í ferðum sínum. Þeir sögðu meðal annars frá þeirri fögru skepnu, einhyrningi, eins konar hvítum hesti með snúið horn þráðbeint upp úr enninu. Sögurnar komust á prent, málaðar voru myndir af einhyrningum og skepnan var í miklum metum. Duft af horni skepnunnar var nauðsynlegt í margar uppskriftir seiðkarla og undralækna. Harla margir kváðust eiga slík horn, og höfðu jafnvel til sýnis.

Nú er ekki lengur getið um einhyrninga í vísindabókum, nema þá kannski meðal heimspekinga sem taka þá sem dæmi um það að fyrirbæri þarf ekki að vera til þó að til sé orð yfir það, og jafnvel þó tilvist þess sé rökstudd með sögusögnum af ýmsum toga. Enda er ekki lengur til að dreifa neinum sögum af einhyrningum sem sannfæra náttúrufræðinga.

En ekki er þar með sagt að þeir séu örugglega ekki til. Kannski, kannski er falinn dalur einhvers staðar í ókönnuðu fjalllendi þar sem einhyrningar spranga um frjálsir og fagrir. Og kannski er einhvers staðar pláneta sem er sérstakur griðastaður einhyrninga, og þangað hafa allir einhyrningar af jörðinni verið fluttir af því að guðir á geimförum sáu að þeim var ekki lengur vært á jörðinni. Kannski, kannski - en harla er það nú ólíklegt. Það er nefnilega ekkert sem bendir til tilvistar þeirra nema óstaðfestar sögur. En það er í sjálfu sér ekki hægt að útiloka algerlega að einhver sannleikur felist í slíkum kynjasögum.


Draugar eru dálítið svipaðir. Í öllum þekktum samfélögum fer sögum af því að látnir geri vart við sig í mannheimum með einhverjum hætti. Mikilfenglegastar eru lýsingar af öndum sem birtast hálfgagnsæir og jafnvel mælandi, eins og Shakespeare segir frá í Makbeð, en vel þekktir eru líka íslenskir draugar sem troða illsakir við menn, berjast við þá og vinna þeim mein. Jón Hreggviðsson þarf að kljást við slíkar skepnur í Íslandsklukku Halldórs Laxness. Daufastir virðast draugar sem ekki hafa snarpari nærveru en svo að einstaka manneskja þykist heyra þrusk eða týna amboðum þar sem þeir eru nærri. Þjóðfræðingar og dulsálfræðingar hafa kannað hve algengt sé að fólk telji sig finna fyrir nærveru látinna. Svo er að sjá að Íslendingar láti síst hlut sinn í samanburði við aðrar þjóðir þegar kemur að því að kannast við drauga í umhverfi sínu.

En allar sögur af draugum eru atvikasögur, sögur af einstökum tilvikum, þar sem mistrúverðugir sögumenn segja frá upplifunum sínum. Og því er eins farið með draugasögur og svo margt annað sem fólk kallar dulrænt, að þær hafa tilhneigingu til að skreppa saman þegar menn ætla sér að beisla fyrirbærin með vísindalegri aðferð. Kjörlendi drauga er meðal trúgjarnra manna í rökkri. Nokkur einangrun frá umhverfi og kvíði virðast einnig stuðla að því að þeir birtist. En þegar vísindamenn mæta, efagjarnir með kastljós, heimta að fyrirbærin geri vart við sig reglulega í einhverju tilteknu orsakasamhengi, þá er eins og draugar verði miklu daufari í dálkinn. Engar óvéfengjanlegar vísindarannsóknir benda til tilvistar drauga. En er þá 100% öruggt að þeir séu ekki til?

Langflestir hallast að því að draugagang megi skýra með missýningum og oftúlkunum og blekkingum af ýmsu tagi. En fáir neita því þó að sú menning sem fólk elst upp við beinir sjónum þess í ýmsar slíkar áttir, og í sumum samfélögum er það á mörkum lækninga, íþrótta og trúar að magna upp drauga meðal trúgjarnra þannig að eftir sé tekið. Draugagangur kann í þeim skilningi að eiga sér einhvern tilgang. En engum sögum fer af draugum sem náttúrufyrirbærum sem eiga sér staðfesta tilvist.

En kannski eru draugar bara þannig að þeir stökkva frá þegar kastljós vísinda beinist að þeim. Kannski eru vísindalegar aðferðir svona groddalegar. Kannski eru draugarnir allir að fela sig í dulheimum en stökkva til og leita á sálarlíf mannanna þegar dimmir. Kannski, kannski! En ekkert nema endalausar atvikasögur benda til þess.

Atvikasögur einar sér nægja ekki í náttúruvísindum - hvorki af draugum né einhyrningum.

Mynd: Ghost and Spirit Pictures.

Höfundur

Sigurður J. Grétarsson

prófessor í sálarfræði við HÍ

Útgáfudagur

14.6.2000

Spyrjandi

Kári Gautason, f. 1989

Tilvísun

Sigurður J. Grétarsson. „Eru einhverjar sannanir um tilvist drauga og annarra slíkra anda?“ Vísindavefurinn, 14. júní 2000, sótt 18. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=513.

Sigurður J. Grétarsson. (2000, 14. júní). Eru einhverjar sannanir um tilvist drauga og annarra slíkra anda? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=513

Sigurður J. Grétarsson. „Eru einhverjar sannanir um tilvist drauga og annarra slíkra anda?“ Vísindavefurinn. 14. jún. 2000. Vefsíða. 18. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=513>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Eru einhverjar sannanir um tilvist drauga og annarra slíkra anda?
Allar sögur af draugum eru atvikasögur, sögur af einstökum tilvikum. Draugasögur hafa tilhneigingu til að skreppa saman þegar menn ætla sér að beisla fyrirbærin með vísindalegri aðferð. Draugar gera ekki vart við sig reglulega í einhverju tilteknu orsakasamhengi. Engar óvéfengjanlegar vísindarannsóknir benda til tilvistar drauga. Langflestir hallast að því að draugagang megi skýra með missýnum og oftúlkunum og blekkingum af ýmsu tagi þó að sögur af honum kunni að eiga sér einhvern tilgang.

Til þess að sýna að eitthvað sé til þarf í raun aðeins eitt einstakt og óvéfengjanlegt tilvik. En það er snúnara að staðfesta að eitthvað sé örugglega ekki til.

Þegar Evrópumenn tóku, í lok miðalda, að sigla um hnöttinn og kanna ókunn lönd sögðu þeir, þegar heim var komið, frá ýmsum kynjaskepnum sem þeir kváðust hafa séð í ferðum sínum. Þeir sögðu meðal annars frá þeirri fögru skepnu, einhyrningi, eins konar hvítum hesti með snúið horn þráðbeint upp úr enninu. Sögurnar komust á prent, málaðar voru myndir af einhyrningum og skepnan var í miklum metum. Duft af horni skepnunnar var nauðsynlegt í margar uppskriftir seiðkarla og undralækna. Harla margir kváðust eiga slík horn, og höfðu jafnvel til sýnis.

Nú er ekki lengur getið um einhyrninga í vísindabókum, nema þá kannski meðal heimspekinga sem taka þá sem dæmi um það að fyrirbæri þarf ekki að vera til þó að til sé orð yfir það, og jafnvel þó tilvist þess sé rökstudd með sögusögnum af ýmsum toga. Enda er ekki lengur til að dreifa neinum sögum af einhyrningum sem sannfæra náttúrufræðinga.

En ekki er þar með sagt að þeir séu örugglega ekki til. Kannski, kannski er falinn dalur einhvers staðar í ókönnuðu fjalllendi þar sem einhyrningar spranga um frjálsir og fagrir. Og kannski er einhvers staðar pláneta sem er sérstakur griðastaður einhyrninga, og þangað hafa allir einhyrningar af jörðinni verið fluttir af því að guðir á geimförum sáu að þeim var ekki lengur vært á jörðinni. Kannski, kannski - en harla er það nú ólíklegt. Það er nefnilega ekkert sem bendir til tilvistar þeirra nema óstaðfestar sögur. En það er í sjálfu sér ekki hægt að útiloka algerlega að einhver sannleikur felist í slíkum kynjasögum.


Draugar eru dálítið svipaðir. Í öllum þekktum samfélögum fer sögum af því að látnir geri vart við sig í mannheimum með einhverjum hætti. Mikilfenglegastar eru lýsingar af öndum sem birtast hálfgagnsæir og jafnvel mælandi, eins og Shakespeare segir frá í Makbeð, en vel þekktir eru líka íslenskir draugar sem troða illsakir við menn, berjast við þá og vinna þeim mein. Jón Hreggviðsson þarf að kljást við slíkar skepnur í Íslandsklukku Halldórs Laxness. Daufastir virðast draugar sem ekki hafa snarpari nærveru en svo að einstaka manneskja þykist heyra þrusk eða týna amboðum þar sem þeir eru nærri. Þjóðfræðingar og dulsálfræðingar hafa kannað hve algengt sé að fólk telji sig finna fyrir nærveru látinna. Svo er að sjá að Íslendingar láti síst hlut sinn í samanburði við aðrar þjóðir þegar kemur að því að kannast við drauga í umhverfi sínu.

En allar sögur af draugum eru atvikasögur, sögur af einstökum tilvikum, þar sem mistrúverðugir sögumenn segja frá upplifunum sínum. Og því er eins farið með draugasögur og svo margt annað sem fólk kallar dulrænt, að þær hafa tilhneigingu til að skreppa saman þegar menn ætla sér að beisla fyrirbærin með vísindalegri aðferð. Kjörlendi drauga er meðal trúgjarnra manna í rökkri. Nokkur einangrun frá umhverfi og kvíði virðast einnig stuðla að því að þeir birtist. En þegar vísindamenn mæta, efagjarnir með kastljós, heimta að fyrirbærin geri vart við sig reglulega í einhverju tilteknu orsakasamhengi, þá er eins og draugar verði miklu daufari í dálkinn. Engar óvéfengjanlegar vísindarannsóknir benda til tilvistar drauga. En er þá 100% öruggt að þeir séu ekki til?

Langflestir hallast að því að draugagang megi skýra með missýningum og oftúlkunum og blekkingum af ýmsu tagi. En fáir neita því þó að sú menning sem fólk elst upp við beinir sjónum þess í ýmsar slíkar áttir, og í sumum samfélögum er það á mörkum lækninga, íþrótta og trúar að magna upp drauga meðal trúgjarnra þannig að eftir sé tekið. Draugagangur kann í þeim skilningi að eiga sér einhvern tilgang. En engum sögum fer af draugum sem náttúrufyrirbærum sem eiga sér staðfesta tilvist.

En kannski eru draugar bara þannig að þeir stökkva frá þegar kastljós vísinda beinist að þeim. Kannski eru vísindalegar aðferðir svona groddalegar. Kannski eru draugarnir allir að fela sig í dulheimum en stökkva til og leita á sálarlíf mannanna þegar dimmir. Kannski, kannski! En ekkert nema endalausar atvikasögur benda til þess.

Atvikasögur einar sér nægja ekki í náttúruvísindum - hvorki af draugum né einhyrningum.

Mynd: Ghost and Spirit Pictures....