
Yfirlit yfir þróun sáttmála og skipulags ESB. Smellið til að stækka myndina
Árið 1993 var nafninu á sáttmálanum um Efnahagsbandalag Evrópu breytt í sáttmálann um Evrópubandalagið (EB; European Community, EC). Samtímis var undirritaður sáttmálinn um Evrópusambandið (ESB; European Union, EU) sem tók yfir öll starfsvið Evrópusamstarfsins og fól meðal annars í sér stoðaskipulag. Í fyrstu stoðinni voru KSB, EURATOM og EB (áður EBE). Önnur stoð rúmaði sameiginlegu stefnuna í utanríkis- og öryggismálum og í þriðju stoðinn var komið fyrir samvinnu í lögreglu- og dómsmálum. Í daglegu tali varð Evrópusambandið fljótlega samheiti yfir allt það sem fram fór í stoðunum þremur. Árið 2009 var stoðaskipulagið afnumið. Efni þriðju stoðar hafði þá að miklu leyti verið tekið inn í sáttmálann um Evrópubandalagið og árið 2002 rann 50 ára gildistími Kola- og stálbandalagsins út. Heitið Evrópubandalagið var með öllu lagt niður og sáttmálinn um Evrópubandalagið fékk heitið sáttmálinn um starfshætti Evrópusambandsins. Í dag eru því samhliða í gildi sáttmálar um EURATOM og Evrópusambandið. ESB grundvallast á tveimur sáttmálum: sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, sem var upphaflega undirritaður í Róm 1957, og sáttmálanum um Evrópusambandið, sem var fyrst undirritaður í Maastricht 1992.

- Kort af Evrópu, sótt á www.youreuropemap.com (2008).
- Þórhildur Hagalín, 2011: Skýringarmynd af þróun og skipulagi Evrópusambandsins. Með hliðsjón af en.wikipedia.org - Template: EU evolution timeline.