Atli Húnakonungur var síðasti og voldugasti konungur Húna, sem upphaflega komu frá Asíu. Hann fæddist líklega árið 406 og var krýndur konungur árið 434. Í fyrstu stjórnaði hann ríkinu ásamt bróður sínum, Bleda, en Atli myrti hann árið 435 og ríkti eftir það einn allt þar til hann dó sjálfur árið 453. Undir stjórn Atla gerðu Húnar innrás í Evrópu og lögðu undir sig stór landsvæði.
Um Atla Húnakonung er hægt að lesa í Völsungasögu, Niflungaljóðum (þý. Nibelungenlied) og Atlakviðu. Þar segir meðal annars að Atli hafi beðið um hönd Guðrúnar ekkju Sigurðar Fáfnisbana, fengið hana og eignast með henni tvo syni. Guðrún er svo sögð hafa drepið drengina, smíðað bikar úr hauskúpum þeirra, blandað víni við blóð þeirra og tekið hjörtu þeirra og steikt. Þennan mat bar hún svo fyrir Atla, og naut þess að sjá hann kveljast er hún sagði hvers hann væri í raun að neyta. Að lokum lagði hún til Atla með hnífi og drap hann. Í Völsungasögu segir að orð Guðrúnar hafi hljómað svona:
Ég mun það segja þér og glaða þitt hjarta. Þú vaktir við oss mikinn harm þá er þú drapst bræður mína. Nú skaltu heyra mína ræðu. Þú hefir misst þinna sona og eru þeirra hausar hér að borðkerum báðir og sjálfur drakkstu þeirra blóð við vín blandið. Síðan tók eg hjörtu þeirra og steikti eg á teini en þú ást.Heimildir
- Attila. Encyclopædia Britannica Online.
- Attila. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
- Huns: European Huns. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
- Völsungasaga.
- Myndin er af Nurember chronicle.
Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2005.