Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Löng hefð er fyrir því að kalla hrognkelsi (Cyclopterus lumpus) tveimur nöfnum, hrygnan er nefnd grásleppa og hængurinn rauðmagi.
Rannsóknir á hrognkelsum sýna að þau snúa aftur til uppeldisstöðva sinna til að hrygna og halda tryggð við svæðið ár eftir ár. Áður en að hrygningargöngu kemur halda hrognkelsi til úti á reginhafi en fara á grunnmið seinni hluta vetrar og snemma á vorin til hrygningar.
Ekki er mikið vitað um vistfræði hrognkelsa á meðan þau halda til á úthafinu en sjómenn hafa veitt þau í botnvörpu í janúar og febrúar. Þó er vitað að þau halda sig aðallega miðsævis og við yfirborðið þar sem þau éta af kappi og safna orku fyrir hrygningartímann. Rannsóknir hafa sýnt að þar éta þau aðallega ljósátu, ýmsar tegundir marflóa sem halda til í yfirborðssjó og hveljur.
Hrognkelsi (Cyclopterus lumpus).
Í febrúar/mars snúa hrognkelsi til hrygningarstöðvanna. Hrygning fer aðallega fram á 0-40 metra dýpi á grýttum þarabotni allt umhverfis landið. Hver hrygna hrygnir á bilinu 80-150 þúsund eggjum og eru þau tiltölulega stór, eða um 2,5 mm í þvermál.
Klak eggjanna tekur um 3 vikur og eru seiðin í kringum 5 mm á lengd við klak. Vöxturinn er hraður fyrstu vikurnar og um mánaðar gömul eru seiðin orðin um 1 cm á lengd. Fyrst um sinn halda hrognkelsaseiðin til í þaraskóginum við ströndina en flytja sig út á úthafið þegar þau eru um það bil árs gömul. Þar eru þau í 5-6 ár eða þar til kynþroska er náð. Þá leggja hrognkelsin í hrygningargöngu, að öllum líkindum á gömlu uppeldisstöðvar sínar.
Þegar kynþroska er náð eru hængarnir orðnir 25-30 cm á lengd en hrygnurnar 34-40 cm langar.
Heimildir og mynd:
Gunnar Jónsson. 1983. Íslenskir fiskar. Reykjavík, Fjölvaútgáfa.
Karl Gunnarsson, Gunnar Jónsson og Ólafur Karvel Pálsson. 1998. Sjávarnytjar við Ísland. Reykjavík, Mál og menning.
Jón Már Halldórsson. „Hvernig er lífsferill hrognkelsa?“ Vísindavefurinn, 28. júlí 2005, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5163.
Jón Már Halldórsson. (2005, 28. júlí). Hvernig er lífsferill hrognkelsa? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5163
Jón Már Halldórsson. „Hvernig er lífsferill hrognkelsa?“ Vísindavefurinn. 28. júl. 2005. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5163>.