Iglur eru blóðsugur. Nánar má lesa um þær í svari Jóns Más Halldórssonar við spurningunni Hvað lifa iglur (blóðsugur) lengi og hvernig fjölga þær sér? Um læknablóðsugur má svo lesa í svarinu Til hvers hafa læknablóðsugur verið notaðar í nútíð og fortíð? eftir sama höfund.
Iktur eru tvíkynja sníkjudýr sem festa sig á fórnarlömbum sínum með sogskálum og krókum. Þær teljast til einhvers konar flatorma, en til þeirra teljast um 8000 tegundir. Iktur skiptast í þrjá ættbálka: kviðsugur (lifa á lindýrum), einhýsla iktur (lifa á fiski, skjaldbökum og froskdýrum) og tvíhýsla iktur (lifa meðal annars í mönnum).
Ildýr eru bifdýr alsett hárum. Þau finnast aðallega í ferskvötnum og lifa á gerlum.
Illir, eða þefvíslur, eru rándýr af marðarætt. Þeir hafa dökkbrúnan feld nema hvað eyru og höfuð eru gulleit. Illir nærast aðallega á fiski og froskum.
Impalahjörtur er antilópa á stærð við dádýr. Impalahirtir eru rauðbrúnir og með ljósan kvið. Þeir hafa löng sveigð horn. Frekari fróðleik er að finna í svari Jóns Más Halldórssonar við Er til íslensk þýðing á „impala“ - antilópa og hvað getið þið sagt mér um það dýr?
Indrar eru fjórar apategundir af ætt hálfapa, náskyldir lemúrum. Þeir lifa á laufi og ávöxtum í regnskógum Madagaskar. Þeir geta náð allt að 70 cm hæð.
Indverska tígrisdýrið er ekki ósvipað öðrum tígrisdýrum en það er í útrýmingarhættu vegna veiða á því.
Heimildir
- Carvadine, M. (1988). Lífríki náttúrunnar. Reykjavík, Skjaldborg.
- Íslenska alfræðiorðabókin (2. bindi). 1988. Ritstjórar: Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir. Reykjavík, Örn og Örlygur.
- Íslenska alfræðiorðabókin (3. bindi). 1988. Ritstjórar: Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir. Reykjavík, Örn og Örlygur.
- Valdimar Helgason. Kafli 7: Hryggleysingjar.
Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2005.