Í hvaða átt er humátt? Af hverju er það dregið að fara í humátt á eftir einhverjum?Humátt er eitt af nokkrum afbökunum úr orðinu hámót. Hámót merkir 'hælfar, spor' og orðasambandið var upphaflega að fara í hámót á eftir einhverjum 'læðast á eftir e-m'. Fyrri liðurinn há- kemur ekki fyrir sjálfstæður en finnst í orðunum háband 'hækilhaft á sauðkind' og hásin 'sinin aftan á hælnum'. Sambærilegt orð var til í fornensku hôh 'hæll, hækill' meðal annars í hôhsinu 'hásin'. Elstu dæmi Orðabókar Háskólans eru frá miðri 18. öld um að fylgja e-m í hámóti en snemma á 19. öld er farið að nota að fara/ganga í hámót á eftir e-m og er það notað enn þann dag í dag. Elsta dæmi Orðabókarinnar um afbökunina humátt er frá því um aldamótin 1700. Það er úr kvæði þar sem talað var um að halda í humátt til e-s. Orðasambandið ganga/fylgja/ í humátt á eftir e-m virðist koma fram um miðja 19. öld. Aðrar hliðarmyndir eru humótt, sem elst dæmi er um frá því um 1700, og hémótt frá lokum 18. aldar.
Í hvaða átt er humátt?
Útgáfudagur
29.7.2005
Spyrjandi
Birna Lárusdóttir
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Í hvaða átt er humátt?“ Vísindavefurinn, 29. júlí 2005. Sótt 2. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=5167.
Guðrún Kvaran. (2005, 29. júlí). Í hvaða átt er humátt? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5167
Guðrún Kvaran. „Í hvaða átt er humátt?“ Vísindavefurinn. 29. júl. 2005. Vefsíða. 2. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5167>.