Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Geimferjan Challenger fórst hinn 28. janúar 1986, einungis 73 sekúndum eftir að henni var skotið á loft. Challenger var þá í um 14 km hæð yfir jörðu og á næstum tvöföldum hljóðhraða, eða 2040 km hraða á klukkustund. Um borð í ferjunni voru sjö geimfarar; fimm karlar og tvær konur, þeirra á meðal Christa McAuliffe sem átti að verða fyrsti almenni borgarinn til að fara út í geiminn en hún var kennari að mennt. Á hljóðupptökum má heyra seinustu orð geimfarans Michael Smith, sem eru einfaldlega "Uh-oh!" Sekúndubroti síðar tvístraðist ferjan.
Efri röð (frá vinstri): Ellison S. Onizuka, Sharon Christa McAuliffe, Greg Jarvis og Judy Resnik. Neðri röð (frá vinstri): Michael J. Smith, Dick Scobee og Ron McNair.
Þvert á algengan misskilning var það ekki geimferjan sjálf sem sprakk heldur brotnaði hún upp af völdum eldflauganna sem knúðu ferjuna áfram. Orsök slyssins mátti að mestu leyti rekja til galla í svonefndum O-hring, en O-hringirnir eru úr gúmmíi og halda saman samskeytum eldflauganna við eldsneytistankinn.
Nóttina fyrir geimskotið var átta stiga frost og aðeins tveggja stiga hiti um morguninn sem er óvenju kalt á Flórídaskaga. Aldrei áður hafði lofthiti fyrir geimskot verið undir ellefu gráðum og voru O-hringirnir ekki hannaðir til að standast svo mikinn kulda. Að lokum gáfu þeir sig sem olli því að 3313 gráðu heitt gas innan úr eldflauginni seytlaði út og leiddi að lokum til sprengingar og tvístrunar geimferjunnar.
Eldsneyti streymir út úr O-hring hægri eldflaugarinnar.
Rannsóknir sýndu ennfremur að geimferjan lenti í verstu vindhviðum í sögu geimferjuáætlunarinnar (en Kólumbía lenti, að því er virðist, í þeirri næstverstu). Vindálag hafði sitt að segja um að geimferjan fórst.
Allar líkur eru á að geimfararnir hafi lifað upphaflegu sprenginguna af og ef til vill ekki látist fyrr en tveimur og hálfri mínútu síðar þegar hylkið sem þeir voru í skall í sjóinn á 320 km hraða á klukkustund. Þegar óhappið varð var hylkið á svo mikilli ferð upp á við að það hélt áfram upp í næstum 20 km áður en það fór að falla aftur til jarðar. Á myndum NASA sést áhafnarhylkið falla út úr skýinu í heilu lagi. Rafmagns- og súrefnissamband hafði þá rofnað og því hugsanlegt að geimfarnir hafi misst meðvitund vegna súrefnisskorts. Í geimbúningunum eru hins vegar neyðarbirgðir af súrefni og af þeim fjórum sem fundust hafði verið kveikt á þremur og hluti birgðanna nýttur. Þetta bendir til þess að hluti áhafnarinnar hafi að minnsta kosti lifað nógu lengi til að ræsa búnaðinn.
Áhafnarklefinn sést fyrir miðju þessarar myndar. Geimfararnir lifðu sprenginguna líklega af og létust hugsanlega ekki fyrr en klefinn skall í sjóinn.
Ef geimfararnir lifðu í nokkurn tíma eftir slysið er alveg ljóst að þeir létust samstundis þegar hylkið brotlenti í sjónum. Líkamsleifar þeirra urðu fyrir miklu hnjaski við lendinguna og voru síðan lengi í saltvatni þannig að við getum ekki skorið fyllilega úr um hvað varð þeim raunverulega að bana.
Skoðið svör við skyldum spurningum:
Sævar Helgi Bragason og Heiða María Sigurðardóttir. „Hvað olli Challenger-slysinu árið 1986 og hvernig litu geimfararnir út?“ Vísindavefurinn, 5. ágúst 2005, sótt 19. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5178.
Sævar Helgi Bragason og Heiða María Sigurðardóttir. (2005, 5. ágúst). Hvað olli Challenger-slysinu árið 1986 og hvernig litu geimfararnir út? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5178
Sævar Helgi Bragason og Heiða María Sigurðardóttir. „Hvað olli Challenger-slysinu árið 1986 og hvernig litu geimfararnir út?“ Vísindavefurinn. 5. ágú. 2005. Vefsíða. 19. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5178>.