Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað þýðir "að höstla"?

Sögnin að höstla er tiltölulega ný í íslensku máli og telst vera slangur. Hana er ekki að finna í Íslenskri orðabók Eddu frá árinu 2003.

Á íslensku merkir 'að höstla' yfirleitt að ná sér í karlmann/kvenmann, samanber eftirfarandi dæmi um notkun á sögninni:
 • Hann var voða almennilegur, við elduðum saman og fórum svo í bæinn að höstla kvenfólk.
 • Við ætlum að finna sætu gæjana sem við ætlum að "höstla" í Herjólfi.

Að minnsta kosti þrenns konar ritháttur tíðkast á sögninni:
 • að höstla
 • að hözla
 • að hözzla
Samkvæmt leitarvélinni Google virðist sem fyrsti og síðasti rithátturinn séu mest notaðir.

Yfirleitt hefur 'að höstla' á sér óheflaðan blæ, það virðist til dæmis vera notað sem andstæða sagnarinnar 'að heilla': "Þú átt ekki að höstla hana, heldur heilla." Höstler er einnig notað sem samheiti orðsins flagari eða kvennabósi. Dæmi um þetta er að finna í texta hljómsveitarinnar Sveittra gangavarða við lagið Höstler:

Hann er höstler,
tekur trylltan dans.
Er hann tjúttar flykkjast allar
kellingar til hans.


Johnny Depp var mikill höstler í myndinni Don Juan DeMarco.

Stundum er orðið notað í annarri merkingu en að ná sér í karlmann/kvenmann, til dæmis í sömu merkingu og að svíkja: "Leigusalinn er að höstla þig, hann ætlar að selja þér eitthvað sem kostar milljónir." Einnig virðist sögninni einstaka sinnum vera ruglað saman við orðasambandið 'að hasla sér völl' sem þýðir að marka sér stað eða verksvið. Seinna dæmið er í raun nokkuð skemmtilegur misskilningur:
 • Það fer rosalega í taugarnar á mér þegar fokríkt og frægt fólk reynir að höstla sér völl á einhverju öðru sviði.
 • Mig grunar fastlega að þarna hafi verið á ferð erlend vændiskona sem hafi verið að höstla sér völl á Íslandi.

Sögnin 'höstla' er líklega hingað komin úr ensku, mynduð eftir sögninni 'hustle' og nafnorðinu 'hustler'. Orðið 'hustle' hefur nokkrar merkingar í ensku, meðal annars:
 • hrekja, flæma burt
 • þröngva, neyða
 • svindla
 • reyna að klófesta viðskiptavin
 • selja sig, bjóða blíðu sínu

Nafnorðið 'hustler' hefur tvær merkingar. Það þýðir annars vegar vændiskona, sérstaklega þær sem krækja sér í viðskiptavini á götuhornum, og hins vegar útsjónarsamur braskari, sem einnig gengur undir nafninu 'wheeler dealer' á ensku. Íslenska sögnin 'að höstla' virðist ná ágætlega báðum merkingu enska nafnorðsins hustler.

Heimildir og mynd
 • Ýmsar bloggsíður sem fundust þegar orðin, höstla, hözla og hözzla voru slegin inn í leitarvélina Google. Einstaka ritvillur voru lagfærðar í tilvitnunum.
 • Mynd af Depp er af Moviesection.

Útgáfudagur

9.8.2005

Spyrjandi

Friðrik Sigurbjörnsson, f. 1988

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað þýðir "að höstla"?“ Vísindavefurinn, 9. ágúst 2005. Sótt 20. júní 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=5185.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2005, 9. ágúst). Hvað þýðir "að höstla"? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5185

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað þýðir "að höstla"?“ Vísindavefurinn. 9. ágú. 2005. Vefsíða. 20. jún. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5185>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Einar Árnason

1948

Einar Árnason er prófessor í þróunarfræði og stofnerfðafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Rannsóknir hans snúast um krafta þróunar.