Talað er um áfallastreitu þegar manneskja hefur orðið fyrir skelfilegri lífsreynslu, svo sem líkamsárás eða nauðgun, og sýnir viðbrögð eins og hjálparleysi, ótta eða hrylling. Áfallastreitan líður síðan oftast hjá og er ekki flokkuð sem geðröskun.
Áfallastreituröskun (e. post-traumatic stress disorder, PTSD) flokkast hins vegar sem geðröskun.
Greining áfallastreituröskunar felur í sér að:
- Viðkomandi sýni einkenni eftir að hafa orðið fyrir áfalli. Þessi einkenni felast meðal annars í því að:
- endurupplifa hinn skelfilega atburð á einhvern hátt (í vöku eða draumi).
- reyna að sneiða hjá aðstæðum og deyfa hjá sjálfum sér allt sem minnir á atvikið (tilfinningalegur dofi og minnisleysi).
- vera ,,ofurviðbrigðinn”, svo sem að þjást af svefntruflunum, einbeitingarerfiðleikum, reiðiköstum eða að hrökkva í kút af minnsta tilefni.
- Einkennin vari í meira en mánuð.
- Einkennin orsaki alvarlegan vanda og vanlíðan í einkalífi og starfi eða daglegu lífi almennt.
Þetta svar er fengið með góðfúslegu leyfi af vefsetrinu Doktor.is. Þar er meðal annars að finna ýmsar fleiri greinar um geðraskanir.