Bob Marley eða Robert Nesta Marley eins og hann hét fullu nafni, fæddist 6. febrúar 1945 á eyjunni Jamaíku í Karabíska hafinu. Þekktastur er hann fyrir framlag sitt til reggítónlistar, en hann gerði lög eins og 'No woman no cry' og 'I shot the sheriff' ódauðleg.
Faðir Marleys var hvítur plantekrustjóri að nafni Norval Sinclair Marley, en móðir hans var svört táningsstúlka sem hét Cedella Malcolm. Cedella og Marley giftust 9. júní 1944 og eignuðust Bob átta mánuðum seinna. Norval flutti frá konu sinni og Bob kynntist föður sínum aldrei að neinu ráði.
Bob Marley stofnaði sína fyrstu hljómsveit, The Rudeboys, árið 1961 með vinum sínum Peter Tosh og Bunny Wailer. Hljómsveitin varð svo seinna þekkt undir nafninu The Wailers. Fyrsti smellurinn þeirra, 'Simmer down', kom út árið 1963. Ólíkt annarri vinsælli tónlist á þessum tíma var lagið lítið undir áhrifum erlendrar tónlistarhefðar heldur speglaði frekar raunveruleika fólksins í fátækrahverfum Jamaíku. Upphaflega spiluðu The Wailers tónlist í anda svokallaðrar ska-stefnu en hún þróaðist smám saman út í það sem nú er þekkt sem reggí.
The Wailers með Bob Marley fyrir miðju.
Árið 1972 skrifuðu The Wailers undir samning hjá útgáfufélaginu Island og Catch a fire, fyrsta plata The Wailers sem kom út á vegum þess, kom The Wailers á heimskortið. Vinsældir Marleys urðu gífurlegar en hinir meðlimir tríósins fengu mun minni athygli. Tosh og Wailer hófu brátt sólóferil sinn en Bob Marley fór að koma fram með tríói þriggja bakraddasöngkvenna, The I Threes. Þeirra á meðal var konan hans, Rita Anderson Marley. Með henni eignaðist hann fjögur af sínum níu börnum, þar á meðal David Ziggy Marley og Stephen Marley, sem nú hafa sjálfir öðlast nokkra frægð fyrir hljómsveit sína Melody Makers.
Árið 1976 var Bob Marley sýnt banatilræði en bæði hann og Rita urðu fyrir skoti. Meiðsli þeirra voru ekki mjög alvarleg og þau náðu sér að fullu. Árásin er talin hafa verið af pólitískum ástæðum, en stutt var í kosningar á Jamaíku og Marley ætlaði að syngja á tónleikum sem Michael Manley, þáverandi forsætisráðherra landsins, skipulagði. Aðeins tveimur árum seinna greindist Bob Marley með húðkrabbamein sem dró hann til bana 11. maí 1981.
Þótt Bob Marley hafi verið vinsæll í lifanda lífi varð hann að hálfgerðu átrúnaðargoði eftir dauða sinn. Safnplatan Legend, sem gefin var út árið 1984, varð söluhæsta reggíplata sem nokkurn tíma hefur verið gefin út og árið 2001 hlaut Bob Marley Grammyverðlaunin fyrir framlag sitt til tónlistar.
Heimildir og myndir
- Bob Marley. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
- Marley, Bob. Encyclopædia Britannica Online.
- Marley, Bob. MSN Encarta.
- Rastafari. Encyclopædia Britannica Online.
- Fyrsta myndin er af Bob Marley biography.
- Önnur myndin er af Bob Marley & The Wailers: Greatest Hits at Studio One.
- Þriðja myndin er af Bob Marley To Be Buried In Ethiopia Stories False. Undercover.
Þetta svar er eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2005.