Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Rússland er langstærsta land heims, um 17.098.000 km2 eða nær tvöfalt stærra en Kanada sem kemur þar á eftir. Landið er þó aðeins í áttunda sæti yfir fjölmennustu ríki heims með rúmlega 143 milljónir íbúa. Stærsti hluti Rússlands tilheyrir Norður-Asíu en svæðið vestan Úralfjalla tilheyrir Evrópu eins og lesa má um í svari við spurningunni Í hvaða heimsálfu er Rússland? Rússneska er opinbert mál í Rússlandi og móðurmál meginhluta íbúanna en fjölmargir minnihlutahópar hafa sitt eigið tungumál.
Hvíta-Rússland er í Austur-Evrópu og liggur á milli Rússlands, Póllands, Lettlands, Litháens og Úkraínu. Það er bæði mikið minna og mikið fámennara en Rússland. Flatarmál þess er rúmlega 207.600 km2 sem er innan við 2% af flatarmáli Rússlands og íbúarnir aðeins um 10,3 milljónir. Ólíkt Rússlandi liggur Hvíta-Rússland hvergi að sjó. Opinbert tungumál landsins er hvítrússneska, þótt einnig sé þar töluð rússneska.
Hvíta-Rússland sést hér merkt með rauðu, en svæði sem tilheyra Rússlandi eru græn.
Rússland og Hvíta-Rússland eiga sér talsverða sameiginlega sögu. Á 6. til 8. öld settust Slavar að í Austur-Evrópu. Austur-Slavar settust meðal annars að í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi og blönduðust hirðingjaþjóðunum sem þar bjuggu fyrir. Um árið 880 sameinaði prinsinn Oleg, leiðtogi Rurik-ættarinnar, Austur-Slava og stofnaði Kíevísku Rússíu (Kievan Rus'). Ríkið leystist svo á 12. öld upp í sjö héröð: Novgorod, Vladimir-Suzdal, Halych, Polotsk, Smolensk, Chernigov, og Pereyaslavl. Þessi héruð áttu síðar eftir að kallast Úkraína, Rússland og Hvíta-Rússland.
Á 13. til 15. öld tilheyrði Hvíta-Rússland, rétt eins og Úkraína, Litháenhertogadæminu (e. Grand Duchy of Lithuania) þar sem gamla hvítrússneska, eða rúþeníska (e. ruthenian), var opinbert tungumál. Vesturhluti Rússlands tilheyrði því einnig, en Tatarar réðu yfir mið- og suðurhluta landsins. Norðurhluti Rússlands, ásamt Novgorod, hélt sjálfstæði sínu að mestu leyti. Rússneska heimsveldið leit svo dagsins ljós þegar Ívan grimmi varð fyrsti keisari Rússlands um miðja 16. öld. Rússland náði nær öllu Litháenhertogadæminu á sitt vald á seinni hluta 18. aldar. Litháenhertogadæmið var að vísu endurreist í stuttan tíma undir franskri stjórn í kjölfar landvinninga Napóleons Bónapartes, en Hvíta-Rússland féll aftur í hendur Rússlands við sigur á Napóleoni og hans mönnum.
Hér sést fáni Hvíta-Rússlands til vinstri og Rússlands til hægri.
Rússneska byltingin varð árið 1917 þegar Bolsévikar, undir stjórn Vladimírs Leníns, steyptu síðasta keisara Rússa af stóli og stofnuðu Sovétríkin. Eftir byltinguna, eða árið 1918, lýsti Hvíta-Rússland yfir sjálfstæði sínu, en ríkið varð skammlíft og Hvíta-Rússland gekk inn í Sovétríkin árið 1922. Hvít-Rússar gengu svo aftur úr Sovétríkjunum 27. júlí árið 1990, og 8. desember árið 1991 liðu Sovétríkin endanlega undir lok.
Þess bera að geta í lokin að þegar spurt er um hvað tiltekin lönd eigi sameiginlegt eða hvað skilur þau að eru ótal margir þættir sem hægt er að fjalla um. Þar á meðal eru saga, menning, trúarbrögð, efnahagur, stjórnarfar, lýðfræði (e. demography), náttúra og svona mætti lengi telja. Í þessu svari hefur aðeins verið minnst á nokkur þessara atriða en áhugasamir lesendur geta kynnt sér þær heimildir sem hér koma á eftir og gert sinn eigin samanburð á Rússlandi og Hvíta-Rússlandi.
Heimildir og myndir:
Þetta svar er eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2005.
Þegar þetta svar birtist á Vísindavefnum í ágúst 2005, var íslenska heitið Hvíta-Rússland nær eingöngu notað um landið. Á síðustu árum hefur orðið breyting þar á og nú er til að mynda heitið Belarús almennt notað í opinberri stjórnsýslu á Íslandi, þar á meðal í utanríkisráðuneytinu og Stjórnarráðinu.[1]
Formlegt heiti landsins er skráð sem Lýðveldið Belarús á vef Stofnunar Árna Magnússonar[2] og þar eru almenn heiti landsins höfð tvö: Hvíta-Rússland og Belarús.
Tilvísanir:
Ingólfur Daníel Árnason og Heiða María Sigurðardóttir. „Hver er munurinn á Rússlandi og Hvíta-Rússlandi?“ Vísindavefurinn, 23. ágúst 2005, sótt 17. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5216.
Ingólfur Daníel Árnason og Heiða María Sigurðardóttir. (2005, 23. ágúst). Hver er munurinn á Rússlandi og Hvíta-Rússlandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5216
Ingólfur Daníel Árnason og Heiða María Sigurðardóttir. „Hver er munurinn á Rússlandi og Hvíta-Rússlandi?“ Vísindavefurinn. 23. ágú. 2005. Vefsíða. 17. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5216>.