Sú hugmynd er ævaforn að maðurinn sé lítill spegill eða eftirmynd af stórri veröld -- og öfugt: veröldin stór eftirmynd af manninum. <->Míkrókosm-makrókosm er hugmyndin nefnd á erlendum málum; maðurinn er hér míkrókosm (lítill heimur), hinn ytri heimur makrókosm (stór heimur). Búddasiður speglar manninn og heiminn hvorn í öðrum á þennan máta, hindúasiður einnig -- sömu öfl eða guðir eru að verki úti og inni. Gyðingdómur og kristin trú, meðal annarra trúarbragða, eiga Guð bak við heiminn sem skapaði manninn í sinni mynd -- það eru nokkurs konar míkrókosm-makrókosm-vensl. Demókrítos, heimspekingurinn gríski, skýrir hegðun náttúrunnar að nokkru með líkingu við manninn. Platón reisir siðferðið í riti sínu Ríkinu á líkingu borgarsamfélags við mann -- líkt og þrjár stéttir skulu þrífast í ríkinu hefur maðurinn þrefalda sál. Og þannig mætti lengi telja. Sumir myndu segja svipað á ferðinni í hverri goðsögn sem mennirnir eignast -- maðurinn framlengi eigin hvatir og eðli út í heiminn, kannski til að afsaka breyskleika sinn? En að því er varðar hina vísindalegu hlið þessarar hugmyndar þá felur þrengsti skilningur meðal annars í sér að "lífvera" sé eitthvað sem hreyfist í einu lagi sem ein heild. Hins vegar er stundum frjótt að slaka á þessari kröfu í tilteknu samhengi. Til dæmis má líta á maurabú sem eina lífveru ef því er að skipta, þó að einingar hennar, maurarnir, hreyfist hver í sínu lagi. Eins er stundum gagnlegt að líta á einstök vistkerfi sem eins konar lífverur. Það er út frá þessum hugsanagangi sem mönnum hefur dottið í hug að líta á jörðina eða vistkerfi hennar sem eins konar lífveru, Gaiu. Henni er til dæmis skammtaður tími eins og lífverum. Þannig vitum við að sögu lífsins á jörðinni hlýtur að ljúka ekki síðar en þegar sólin þenst út og gleypir jörðina. Þessari sögu gæti líka lokið miklu fyrr til að mynda af völdum lífsins sjálfs, einkum þeirrar tegundar sem nú fer mest fyrir, það er að segja mannanna.
Gætu stjörnurnar verið frumagnir í risavaxinni veru sem við erum inni í?
Sú hugmynd er ævaforn að maðurinn sé lítill spegill eða eftirmynd af stórri veröld -- og öfugt: veröldin stór eftirmynd af manninum. <->Míkrókosm-makrókosm er hugmyndin nefnd á erlendum málum; maðurinn er hér míkrókosm (lítill heimur), hinn ytri heimur makrókosm (stór heimur). Búddasiður speglar manninn og heiminn hvorn í öðrum á þennan máta, hindúasiður einnig -- sömu öfl eða guðir eru að verki úti og inni. Gyðingdómur og kristin trú, meðal annarra trúarbragða, eiga Guð bak við heiminn sem skapaði manninn í sinni mynd -- það eru nokkurs konar míkrókosm-makrókosm-vensl. Demókrítos, heimspekingurinn gríski, skýrir hegðun náttúrunnar að nokkru með líkingu við manninn. Platón reisir siðferðið í riti sínu Ríkinu á líkingu borgarsamfélags við mann -- líkt og þrjár stéttir skulu þrífast í ríkinu hefur maðurinn þrefalda sál. Og þannig mætti lengi telja. Sumir myndu segja svipað á ferðinni í hverri goðsögn sem mennirnir eignast -- maðurinn framlengi eigin hvatir og eðli út í heiminn, kannski til að afsaka breyskleika sinn? En að því er varðar hina vísindalegu hlið þessarar hugmyndar þá felur þrengsti skilningur meðal annars í sér að "lífvera" sé eitthvað sem hreyfist í einu lagi sem ein heild. Hins vegar er stundum frjótt að slaka á þessari kröfu í tilteknu samhengi. Til dæmis má líta á maurabú sem eina lífveru ef því er að skipta, þó að einingar hennar, maurarnir, hreyfist hver í sínu lagi. Eins er stundum gagnlegt að líta á einstök vistkerfi sem eins konar lífverur. Það er út frá þessum hugsanagangi sem mönnum hefur dottið í hug að líta á jörðina eða vistkerfi hennar sem eins konar lífveru, Gaiu. Henni er til dæmis skammtaður tími eins og lífverum. Þannig vitum við að sögu lífsins á jörðinni hlýtur að ljúka ekki síðar en þegar sólin þenst út og gleypir jörðina. Þessari sögu gæti líka lokið miklu fyrr til að mynda af völdum lífsins sjálfs, einkum þeirrar tegundar sem nú fer mest fyrir, það er að segja mannanna.
Útgáfudagur
16.6.2000
Spyrjandi
Arnaldur Björnsson
Tilvísun
Haukur Már Helgason og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Gætu stjörnurnar verið frumagnir í risavaxinni veru sem við erum inni í?“ Vísindavefurinn, 16. júní 2000, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=522.
Haukur Már Helgason og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 16. júní). Gætu stjörnurnar verið frumagnir í risavaxinni veru sem við erum inni í? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=522
Haukur Már Helgason og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Gætu stjörnurnar verið frumagnir í risavaxinni veru sem við erum inni í?“ Vísindavefurinn. 16. jún. 2000. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=522>.