Sólin Sólin Rís 08:13 • sest 18:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:20 • Sest 00:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:43 • Síðdegis: 15:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:57 • Síðdegis: 21:43 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:13 • sest 18:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:20 • Sest 00:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:43 • Síðdegis: 15:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:57 • Síðdegis: 21:43 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig stendur á eyðingu regnskóga og hvaða áhrif hljótast af henni?

Jón Már Halldórsson

Hér er einnig svarað spurningum:

  • Hvers vegna eru regnskógarnir að eyðast? (Helga Þorsteinsdóttir, f. 1991)
  • Hvað er áætlað að búið sé að fella mörg prósent af regnskógum S-Ameríku? (Gunnlaugur Úlfsson)
  • Hvar get ég fengið upplýsingar um regnskóga, eyðingu þeirra og áhrifin sem þeir hafa? (Aldis Guðlaugsdóttir)

Regnskógar eru yfirleitt á þeim stöðum í heiminum þar sem árleg úrkoma er meiri en 1800 mm og hiti og raki er mikill. Þetta á til að mynda við um landsvæði í námunda við miðbaug í Suður- og Mið-Ameríku, Afríku og Asíu. Regnskógarnir eru tegundaríkustu vistkerfi jarðar og skiptir tegundafjöldinn þar sjálfsagt hundruðum þúsunda ef ekki milljónum. Rannsóknir hafa sýnt að á einum hektara regnskógar geta verið allt að 750 tegundir af trjám og yfir 1500 tegundir af öðrum plöntum. Hins vegar er lítið af næringarefnum bundið í jarðvegi og þegar gróðurinn er fjarlægður af einhverjum ástæðum hverfa næringarefnin fljótt. Eftir verður ófrjór jarðvegur sem harðnar auðveldlega og hleypir ekki vatni í gegnum sig.



Regnskógar heimsins.

Hratt hefur gengið á regnskóga jarðar, aðallega í Asíu og Suður-Ameríku. Sérstaklega má nefna lönd eins og Brasilíu og Indónesíu þar sem umfangsmikil eyðing regnskóga hefur átt sér stað. Fyrr á tímum þöktu regnskógar um 14% af þurrlendi jarðar en nú er talið að þeir þeki aðeins um 6% þurrlendis. Samkvæmt mati vísindamanna er árleg eyðing regnskóga einhvers staðar á bilinu 50.000 til 75.000 km2 eða sem nemur rúmlega hálfu Íslandi.

Þar sem ein spurningin var sérstaklega um Suður-Ameríku má geta þess að Amazon-svæðið er stærsta regnskógasvæði heims. Talið er að á tímabilinu 1978 til 2004 hafi tæplega 530.000 km2 af skóglendi Amazon svæðisins tapast. Samkvæmt skýrslu frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) þöktu skógar um 8.341.420 km2 eða um 60% lands á hitabeltissvæðum Suður-Ameríku árið 2000 og er stór hluti þess regnskógar. Á einu ári, frá 1999 til 2000 nam skógareyðing á þessu svæði 34.560 km2 sem samsvarar 0,4%.

Helstu ástæður fyrir eyðingu regnskóga heimsins eru þessar:
  • Landbúnaður
  • Skógarhögg
  • Söfnun eldiviðar
  • Virkjanir

Landbúnaður er helsta orsök þess að gengið hefur verulega á regnskóga jarðar. Talið er að allt að 60% skógareyðingar í heiminum sé vegna sviðuræktunar (e. slash and burn farming) sem felst í því að gróðurinn er höggvinn niður og svo brenndur til þess að skapa land til ræktunar. Vandamálið er að jarðvegur þess lands sem brotið er á þennan hátt helst ekki frjósamur í langan tíma og þess vegna þarf reglulega að ryðja og brenna nýtt land ef ræktun á að halda áfram.



Skógareldur á Amazon-svæðinu í Suður-Ameríku.

Annað vandamál sem fylgir því að brenna skóg til þess að ryðja nýtt ræktarland er hættan á að missa stjórn á eldinum. Til að mynda eru mörg dæmi frá Indónesíu um slíkt þar sem af hafa hlotist mjög miklir skógareldar með alvarlegum afleiðingum fyrir dýra- og plöntulíf á svæðunum. Sem dæmi má nefna gríðarlega elda bæði á Súmötru og Borneó fyrir fáeinum árum en eldhafið og reykurinn varð það mikill að hann hafði áhrif á flugsamgöngur um stærstan hluta Suðaustur-Asíu.

Yfirleitt eru það fátækir bændur sem stunda sviðuræktun enda eiga þeir oft ekki annarra kosta völ við að sjá sér og sínum farborða. Ýmis verndunarsamtök halda því fram að aðal ástæða þess að bændur leiti inn í skóganna til að hefja þar landbúnað sé sú að þeir hafa verið neyddir burt af jörðum sínum af stórfyrirtækjum og ríkisstjórnum sem taka betra ræktarland fyrir sig.

Þótt sviðuræktun sé helsta ástæða eyðingar regnskóganna þegar litið er á heiminn í heild þá er vaxandi nautgriparækt mikilvægasti einstaki þátturinn í eyðingu regnskóga í Mið- og Suður-Ameríku. Mikil eftirspurn ríkari þjóða á norðurhveli jarðar, aðallega Bandaríkjanna, eftir kjöti frá þessum svæðum hefur stóraukið þörfina á beitarlandi og þá er gengið á regnskógana.

Skógarhögg á líka sinn þátt í eyðingu regnskóganna þar sem daglega eru höggvin tré á stórum svæðum til þess að selja ríkari þjóðum jarðar, húsa- og húsgagnavið. Eftirspurn eftir harðviði úr skógunum kemur aðallega frá Evrópu og Norður-Ameríku. En það er ekki bara skógarhöggið sjálft sem skaðar skógana. Vegir eru lagðir að svæðinu og það spillir landinu en einnig þurfa stórvirkar vinnuvélar að komast að þeim trjám sem felld eru til þess að flytja þau í burtu. Slíkt veldur mjög miklu raski sem með tímanum getur leitt til uppblásturs og annars konar rasks á gróðri og dýralífi. Vegalagningar inn á skógarsvæðin auku síðan hættuna á ólöglegu skógarhöggi og veiðiþjófnaði.



Sár eftir skógarhögg í Belís í Mið-Ameríku.

Talið er að á milli 1,5-2 milljarðar manna reiði sig á eldivið við matreiðslu og til upphitunar og hefur slíkt vissulega áhrif á regnskóga heimsins. Virkjanir voru einnig nefndar í listanum hér að ofan en hundruðum þúsunda hektara af skóglendi hefur verið sökkt vegna bygginga vatnsaflsvirkjana. Rannsóknir hafa sýnt að í kjölfar virkjanagerða fjölgar sjúkdómum og vistkerfi vatnasvæðanna raskast verulega. Einnig má nefna að virkjanagerð getur haft umtalsverð áhrif á mannlíf og menningu þar sem í mörgum tilvikum hefur þurft að flytja fólk nauðugt burt af svæðunum sem á að nota undir miðlunarlón.

Fjölmargar aðrar athafnir mannanna hafa neikvæð áhrif á regnskóga heimsins en að lokum má minnast sérstaklega á einn þátt, það er vaxandi ferðamannaþjónustu á þessum svæðum. Slíku fylgir umtalsvert rask meðal annars vegna göngustíga, sorps og úrgangs, dýralíf verður fyrir truflun og svo mætti lengi telja.

Eyðing regnskóganna er vandamál sem öll heimsbyggðin þarf að leysa en ekki aðeins þær þjóðir sem hafa regnskóga innan sinna landamæra. Með tveimur undantekningum eru þetta svokölluð þriðja heims ríki þar sem fátækt og spilling er mikil en slíkt auðveldar ekki verndun skóganna. Þessar þjóðir hafa ekki bolmagn til að bregðast við þessu vandamáli þó einhverjar þeirra hafi sýnt talsverða viðleitni, til dæmis Venesúela og Brasilía. Fyrir stuttu ákvað ríkisstjórn Brasilíu að vernda um 30 milljón ekrur af regnskógi fyrir frumbyggja svæðisins en mikil rányrkja hefur verið stunduð á landi þeirra.

Framtíð regnskógasvæða jarðar er ekki björt. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) telur að vegna mannfjölgunar muni eftirspurn eftir hrísgrjónum og hveiti aukast frá því sem nú er um 40% til ársins 2020 og eftirspurn eftir vatni um 50% á sama tímabili. Sömuleiðis mun eftirspurn eftir eldiviði tvöfaldast á næstu 45 árum en regnskógar jarðar eru meginuppspretta eldiviðar í heiminum.



Frá Amazon-svæðinu í Suður-Ameríku.

Áhrif skógareyðingar eru bæði margþætt og flókin og virðast engum til góðs nema ef til vill þeim sem nýta landið fyrir stundargróða. Regnskógarnir eru sagðir vera lungu jarðar. Margir fræðimenn telja að um 20% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amazon-skógunum í Suður-Ameríku og sennilega á bilinu 30-35% á regnskógarsvæðum jarðar í heild. Ef þetta er raunin þá hefur eyðing regnskóganna áhrif á möguleika jarðar til að mynda nýtt súrefni og getur þar af leiðandi aukið á gróðurhúsaáhrif miðað við þá losun sem er á gróðurhúsalofttegundum í dag.

Í gríðarlega fjölbreyttri fánu og flóru regnskóganna eru ýmis efni sem gætu nýst til að vinna á sjúkdómum í nánustu framtíð. Það má segja að regnskógarnir séu lyfjasafn af stjarnfræðilegri stærðargráðu. Með eyðingu skóganna glatast þessi efni að eilífu og hugsanlega möguleikinn á því að finna lækningu við einhverjum þeirra sjúkdóma sem sem hrjá mannkynið. Þess má geta að lyf sem unnið var úr plöntu sem heitir Madagaskar-hörpulauf, sem er nú útdauð vegna skógarhöggs, eykur lífslíkur barna með hvítblæði úr 20% í 80%.

Eyðing regnskóga hefur einnig margvísleg staðbundin áhrif. Sem dæmi má nefna að uppblástur lands sem fylgir skógareyðingu hefur eyðilagt möguleika komandi kynslóða á svæðunum til að nýta landið auk þess sem rannsóknir hafa sýnt að skógareyðingu fylgir aukin vatnsmengun.

Hér hefur aðeins verið rætt stuttlega um eyðingu regnskóga. Víða á netinu má lesa meira um skógareyðingu og hversu stórt vandamál þetta í rauninni er, bæði vistfræðilegt og menningarlegt, staðbundið og alþjóðlegt. Höfundur hvetur lesendur til þess að kynna sér þetta efni nánar, til dæmis með því að skoða þær heimildir sem hér eru nefndar eða nota leitarvélar og slá inn leitarorð eins og deforestation.

Heimildir og myndir

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

25.8.2005

Spyrjandi

Ásbjörg Gústafsdóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvernig stendur á eyðingu regnskóga og hvaða áhrif hljótast af henni?“ Vísindavefurinn, 25. ágúst 2005, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5222.

Jón Már Halldórsson. (2005, 25. ágúst). Hvernig stendur á eyðingu regnskóga og hvaða áhrif hljótast af henni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5222

Jón Már Halldórsson. „Hvernig stendur á eyðingu regnskóga og hvaða áhrif hljótast af henni?“ Vísindavefurinn. 25. ágú. 2005. Vefsíða. 13. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5222>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig stendur á eyðingu regnskóga og hvaða áhrif hljótast af henni?
Hér er einnig svarað spurningum:

  • Hvers vegna eru regnskógarnir að eyðast? (Helga Þorsteinsdóttir, f. 1991)
  • Hvað er áætlað að búið sé að fella mörg prósent af regnskógum S-Ameríku? (Gunnlaugur Úlfsson)
  • Hvar get ég fengið upplýsingar um regnskóga, eyðingu þeirra og áhrifin sem þeir hafa? (Aldis Guðlaugsdóttir)

Regnskógar eru yfirleitt á þeim stöðum í heiminum þar sem árleg úrkoma er meiri en 1800 mm og hiti og raki er mikill. Þetta á til að mynda við um landsvæði í námunda við miðbaug í Suður- og Mið-Ameríku, Afríku og Asíu. Regnskógarnir eru tegundaríkustu vistkerfi jarðar og skiptir tegundafjöldinn þar sjálfsagt hundruðum þúsunda ef ekki milljónum. Rannsóknir hafa sýnt að á einum hektara regnskógar geta verið allt að 750 tegundir af trjám og yfir 1500 tegundir af öðrum plöntum. Hins vegar er lítið af næringarefnum bundið í jarðvegi og þegar gróðurinn er fjarlægður af einhverjum ástæðum hverfa næringarefnin fljótt. Eftir verður ófrjór jarðvegur sem harðnar auðveldlega og hleypir ekki vatni í gegnum sig.



Regnskógar heimsins.

Hratt hefur gengið á regnskóga jarðar, aðallega í Asíu og Suður-Ameríku. Sérstaklega má nefna lönd eins og Brasilíu og Indónesíu þar sem umfangsmikil eyðing regnskóga hefur átt sér stað. Fyrr á tímum þöktu regnskógar um 14% af þurrlendi jarðar en nú er talið að þeir þeki aðeins um 6% þurrlendis. Samkvæmt mati vísindamanna er árleg eyðing regnskóga einhvers staðar á bilinu 50.000 til 75.000 km2 eða sem nemur rúmlega hálfu Íslandi.

Þar sem ein spurningin var sérstaklega um Suður-Ameríku má geta þess að Amazon-svæðið er stærsta regnskógasvæði heims. Talið er að á tímabilinu 1978 til 2004 hafi tæplega 530.000 km2 af skóglendi Amazon svæðisins tapast. Samkvæmt skýrslu frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) þöktu skógar um 8.341.420 km2 eða um 60% lands á hitabeltissvæðum Suður-Ameríku árið 2000 og er stór hluti þess regnskógar. Á einu ári, frá 1999 til 2000 nam skógareyðing á þessu svæði 34.560 km2 sem samsvarar 0,4%.

Helstu ástæður fyrir eyðingu regnskóga heimsins eru þessar:
  • Landbúnaður
  • Skógarhögg
  • Söfnun eldiviðar
  • Virkjanir

Landbúnaður er helsta orsök þess að gengið hefur verulega á regnskóga jarðar. Talið er að allt að 60% skógareyðingar í heiminum sé vegna sviðuræktunar (e. slash and burn farming) sem felst í því að gróðurinn er höggvinn niður og svo brenndur til þess að skapa land til ræktunar. Vandamálið er að jarðvegur þess lands sem brotið er á þennan hátt helst ekki frjósamur í langan tíma og þess vegna þarf reglulega að ryðja og brenna nýtt land ef ræktun á að halda áfram.



Skógareldur á Amazon-svæðinu í Suður-Ameríku.

Annað vandamál sem fylgir því að brenna skóg til þess að ryðja nýtt ræktarland er hættan á að missa stjórn á eldinum. Til að mynda eru mörg dæmi frá Indónesíu um slíkt þar sem af hafa hlotist mjög miklir skógareldar með alvarlegum afleiðingum fyrir dýra- og plöntulíf á svæðunum. Sem dæmi má nefna gríðarlega elda bæði á Súmötru og Borneó fyrir fáeinum árum en eldhafið og reykurinn varð það mikill að hann hafði áhrif á flugsamgöngur um stærstan hluta Suðaustur-Asíu.

Yfirleitt eru það fátækir bændur sem stunda sviðuræktun enda eiga þeir oft ekki annarra kosta völ við að sjá sér og sínum farborða. Ýmis verndunarsamtök halda því fram að aðal ástæða þess að bændur leiti inn í skóganna til að hefja þar landbúnað sé sú að þeir hafa verið neyddir burt af jörðum sínum af stórfyrirtækjum og ríkisstjórnum sem taka betra ræktarland fyrir sig.

Þótt sviðuræktun sé helsta ástæða eyðingar regnskóganna þegar litið er á heiminn í heild þá er vaxandi nautgriparækt mikilvægasti einstaki þátturinn í eyðingu regnskóga í Mið- og Suður-Ameríku. Mikil eftirspurn ríkari þjóða á norðurhveli jarðar, aðallega Bandaríkjanna, eftir kjöti frá þessum svæðum hefur stóraukið þörfina á beitarlandi og þá er gengið á regnskógana.

Skógarhögg á líka sinn þátt í eyðingu regnskóganna þar sem daglega eru höggvin tré á stórum svæðum til þess að selja ríkari þjóðum jarðar, húsa- og húsgagnavið. Eftirspurn eftir harðviði úr skógunum kemur aðallega frá Evrópu og Norður-Ameríku. En það er ekki bara skógarhöggið sjálft sem skaðar skógana. Vegir eru lagðir að svæðinu og það spillir landinu en einnig þurfa stórvirkar vinnuvélar að komast að þeim trjám sem felld eru til þess að flytja þau í burtu. Slíkt veldur mjög miklu raski sem með tímanum getur leitt til uppblásturs og annars konar rasks á gróðri og dýralífi. Vegalagningar inn á skógarsvæðin auku síðan hættuna á ólöglegu skógarhöggi og veiðiþjófnaði.



Sár eftir skógarhögg í Belís í Mið-Ameríku.

Talið er að á milli 1,5-2 milljarðar manna reiði sig á eldivið við matreiðslu og til upphitunar og hefur slíkt vissulega áhrif á regnskóga heimsins. Virkjanir voru einnig nefndar í listanum hér að ofan en hundruðum þúsunda hektara af skóglendi hefur verið sökkt vegna bygginga vatnsaflsvirkjana. Rannsóknir hafa sýnt að í kjölfar virkjanagerða fjölgar sjúkdómum og vistkerfi vatnasvæðanna raskast verulega. Einnig má nefna að virkjanagerð getur haft umtalsverð áhrif á mannlíf og menningu þar sem í mörgum tilvikum hefur þurft að flytja fólk nauðugt burt af svæðunum sem á að nota undir miðlunarlón.

Fjölmargar aðrar athafnir mannanna hafa neikvæð áhrif á regnskóga heimsins en að lokum má minnast sérstaklega á einn þátt, það er vaxandi ferðamannaþjónustu á þessum svæðum. Slíku fylgir umtalsvert rask meðal annars vegna göngustíga, sorps og úrgangs, dýralíf verður fyrir truflun og svo mætti lengi telja.

Eyðing regnskóganna er vandamál sem öll heimsbyggðin þarf að leysa en ekki aðeins þær þjóðir sem hafa regnskóga innan sinna landamæra. Með tveimur undantekningum eru þetta svokölluð þriðja heims ríki þar sem fátækt og spilling er mikil en slíkt auðveldar ekki verndun skóganna. Þessar þjóðir hafa ekki bolmagn til að bregðast við þessu vandamáli þó einhverjar þeirra hafi sýnt talsverða viðleitni, til dæmis Venesúela og Brasilía. Fyrir stuttu ákvað ríkisstjórn Brasilíu að vernda um 30 milljón ekrur af regnskógi fyrir frumbyggja svæðisins en mikil rányrkja hefur verið stunduð á landi þeirra.

Framtíð regnskógasvæða jarðar er ekki björt. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) telur að vegna mannfjölgunar muni eftirspurn eftir hrísgrjónum og hveiti aukast frá því sem nú er um 40% til ársins 2020 og eftirspurn eftir vatni um 50% á sama tímabili. Sömuleiðis mun eftirspurn eftir eldiviði tvöfaldast á næstu 45 árum en regnskógar jarðar eru meginuppspretta eldiviðar í heiminum.



Frá Amazon-svæðinu í Suður-Ameríku.

Áhrif skógareyðingar eru bæði margþætt og flókin og virðast engum til góðs nema ef til vill þeim sem nýta landið fyrir stundargróða. Regnskógarnir eru sagðir vera lungu jarðar. Margir fræðimenn telja að um 20% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amazon-skógunum í Suður-Ameríku og sennilega á bilinu 30-35% á regnskógarsvæðum jarðar í heild. Ef þetta er raunin þá hefur eyðing regnskóganna áhrif á möguleika jarðar til að mynda nýtt súrefni og getur þar af leiðandi aukið á gróðurhúsaáhrif miðað við þá losun sem er á gróðurhúsalofttegundum í dag.

Í gríðarlega fjölbreyttri fánu og flóru regnskóganna eru ýmis efni sem gætu nýst til að vinna á sjúkdómum í nánustu framtíð. Það má segja að regnskógarnir séu lyfjasafn af stjarnfræðilegri stærðargráðu. Með eyðingu skóganna glatast þessi efni að eilífu og hugsanlega möguleikinn á því að finna lækningu við einhverjum þeirra sjúkdóma sem sem hrjá mannkynið. Þess má geta að lyf sem unnið var úr plöntu sem heitir Madagaskar-hörpulauf, sem er nú útdauð vegna skógarhöggs, eykur lífslíkur barna með hvítblæði úr 20% í 80%.

Eyðing regnskóga hefur einnig margvísleg staðbundin áhrif. Sem dæmi má nefna að uppblástur lands sem fylgir skógareyðingu hefur eyðilagt möguleika komandi kynslóða á svæðunum til að nýta landið auk þess sem rannsóknir hafa sýnt að skógareyðingu fylgir aukin vatnsmengun.

Hér hefur aðeins verið rætt stuttlega um eyðingu regnskóga. Víða á netinu má lesa meira um skógareyðingu og hversu stórt vandamál þetta í rauninni er, bæði vistfræðilegt og menningarlegt, staðbundið og alþjóðlegt. Höfundur hvetur lesendur til þess að kynna sér þetta efni nánar, til dæmis með því að skoða þær heimildir sem hér eru nefndar eða nota leitarvélar og slá inn leitarorð eins og deforestation.

Heimildir og myndir

...