Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaMenntavísindiMenntunarfræðiHafa farið fram vísindalegar rannsóknir á því hvort strákar í grunnskóla fái meiri athygli í tímum en stelpur?
Erlendis hefur það talsvert verið rannsakað hvort kennarar veiti strákum meiri athygli en stelpum inni í skólastofunni. Í stuttu máli er niðurstaðan sú að strákar virðast vissulega fá meiri athygli kennara en stúlkur. Það er þó afar umdeilt hversu mikla athygli drengir fá fram yfir stúlkur, hvort sú athygli sé öll jákvæð eða æskileg og hvaða áhrif þessi mismunur á athygli kennara hafi á bæði kynin.
Sumir rannsakendur halda því fram að sú niðurstaða að strákar fái meiri athygli en stelpur sé tilkominn vegna þess að flestar rannsóknir á þessu sviði fóru fram í kennslustundum þar sem kennd voru "strákafög" á borð við stærðfræði og eðlisfræði. Því gæti verið að innbyggð skekkja sé í þessum rannsóknum.
Að auki er alveg ljóst að máli skiptir hvers konar athygli um er að ræða. Margt bendir til þess að sú athygli kennara sem strákar fá fram yfir stúlkur sé að miklu leyti neikvæð athygli. Strákar eru skammaðir oftar og gjarnan þurfa kennarar að eyða meira púðri í að halda þeim á mottunni en stúlkum. Þegar skammir og neikvæð athygli eru ekki talin með, heldur aðeins tekið tillit til þeirrar athygli sem felur í sér einhverja kennslu (til dæmis: spurningar, hrós og leiðbeiningar) kemur í ljós að munur á milli kynja er oftast lítill og stundum fá stúlkurnar meira af þessari athygli. Einnig er ljóst að strákar greinast mun oftar með hegðunar- eða námstengda erfiðleika og því ekki nema von að almennt þyki erfiðara að kenna þeim og þar af leiðandi að þeir fái meiri athygli en stúlkur. Það kemur ekki á óvart í ljósi þessa að um helmingi fleiri drengir en stúlkur fá sérkennslu á skólagöngu sinni.
Tegund erfiðleika
Hlutfall drengja á móti stúlkum
Lesblinda
4:1
Einhverfa
4:1
Stam
4:1
Málraskanir
3:1
Ofvirkni
4:1
Margt bendir því til þess að athyglin sem drengir fá fram yfir stúlkur í skólastofunni sé að miklu leyti tilkomin vegna þess að þeir eru skammaðir oftar og eiga oftar í námstengdum erfiðleikum. Það er því ekki hægt að halda því fram, eins og sumir hafa gert, að þetta valdi því að skólar veiti drengjum meiri eða betri menntun en stúlkum. Þvert á móti bendir flest til þess að almennt gangi stúlkum betur í skóla en strákum; þær fá hærri einkunnir í flestöllum fögum, fá fleiri verðlaun og viðurkenningar fyrir námsframmistöðu, eru líklegri til að fara í háskólanám og fleiri konur útskrifast með háskólagráður en karlar. Fátt virðist því benda til þess að sú athygli sem drengjum er veitt verði þeim til verulegra tekna.
Myndir
Mynd af kennara er af Staff development. Liberty elementary school district.
Orri Smárason. „Hafa farið fram vísindalegar rannsóknir á því hvort strákar í grunnskóla fái meiri athygli í tímum en stelpur?“ Vísindavefurinn, 26. ágúst 2005, sótt 18. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5224.
Orri Smárason. (2005, 26. ágúst). Hafa farið fram vísindalegar rannsóknir á því hvort strákar í grunnskóla fái meiri athygli í tímum en stelpur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5224
Orri Smárason. „Hafa farið fram vísindalegar rannsóknir á því hvort strákar í grunnskóla fái meiri athygli í tímum en stelpur?“ Vísindavefurinn. 26. ágú. 2005. Vefsíða. 18. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5224>.