Sólin Sólin Rís 06:46 • sest 19:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:31 • Síðdegis: 14:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:45 • Síðdegis: 21:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:46 • sest 19:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:31 • Síðdegis: 14:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:45 • Síðdegis: 21:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er þriðji stærsti skógur Íslands?

Þröstur Eysteinsson

Frá fornu fari hefur verið talað um þrjá höfuðskóga Íslands: Hallormsstaðaskóg, Vaglaskóg og Bæjarstaðarskóg. Í þeim öllum eru trén óvenjuhávaxin á íslenskan mælikvarða og eru tveir þeir fyrrnefndu allstórir að flatarmáli en Bæjarstaðarskógur talsvert minni um sig. Því hefur verið haldið fram að Hallormsstaðaskógur og Vaglaskógur væru stærstu skógar Íslands að flatarmáli. Það er örugglega rangt hvað varðar Vaglaskóg og það er ekki að svo stöddu hægt að staðfesta á vísindalegan hátt, það er með samanburði á flatarmálsmælingum, að Hallormsstaðaskógur sé stærstur. Það hefur reyndar aldrei verið hægt.



Hallormsstaður.

Stutt svar við spurningunni er því: Við vitum ekki hver þriðji stærsti skógur Íslands er. Við vitum ekki einu sinni hverjir eru í fyrsta og öðru sæti. Vandamálið er tvíþætt: Annars vegar er það spurning um skilgreiningu á því hvað sé skógur og hins vegar um að mæla flatarmál skóga.

Einföld skilgreining á skógi er:
Vistkerfi þar sem tré eru ríkjandi.
Þá þarf að skilgreina hvað sé tré, oftast miðað við einhverja tiltekna hæð, og hvað það þýði að þau séu ríkjandi, það er hversu stóran hluta lands trén þekja. Loks þarf að tilgreina lágmarksflatarmál; eitt tré er ekki skógur og ekki heldur þyrping 20 trjáa. Hentug skilgreining á skógi miðað við íslenskar aðstæður væri til dæmis:
Vistkerfi, minnst 1 hektari að flatarmáli, þar sem tré að minnsta kosti 2 m á hæð eru ríkjandi og þekja að minnsta kosti 30% lands.

Hæðarmörkin gera það að verkum að stór hluti birkikjarrs, til dæmis á vestanverðu landinu, telst ekki til skóga. Ákvæði um lágmarksþekju þýðir að svæði þar sem eru tré á stangli eru heldur ekki skógar. Til dæmis hefur verið talað um höfuðborgarsvæðið sem stærsta skóg landsins því þar eru víða stór tré og sum hverfin þannig að trén eru meira áberandi tilsýndar en húsin. Á höfuðborgarsvæðinu í heild ná tré þó ekki lágmarksþekju auk þess sem hús og götur tilheyra ekki skógarvistkerfi og því er ekki rétt að tala þar um skóg þótt einstök smærri svæði innan þéttbýlisins geti flokkast sem skógar.

Þá finnst sumum skipta máli hver uppruni skógarins sé. Þeir eru til sem ekki telja það vera skóg ef hann hefur verið gróðursettur, sérstaklega ef notaðar eru aðfluttar trjátegundir.

Svo eru ýmsar spurningar sem skipta máli við mælingu á flatarmáli. Hvar dregur maður mörk skógar? Fyrr á tíð voru landamerki jarða notuð; til dæmis er hinn eiginlegi Vaglaskógur skógurinn á jörðinni Vöglum í Fnjóskadal en á næstu jörð, Hálsi, er Hálsskógur. Landamerki jarðanna liggja um miðjan skóg. Er þá um að ræða einn skóg eða tvo? Ef skógur vex sitt hvorumegin við á (eða veg eða gil eða annað í landslaginu), rennur áin þá í gegnum einn og sama skóginn (þá er einn skógur) eða skiptir hún landi þannig að um tvo skóga sé að ræða? Þegar tré eru gróðursett, telst það strax skógur eða þarf að bíða þar til trén eru orðin tveggja metra há? Eða telst það ef til vill aldrei vera skógur? Svör við þessum spurningum eru háð mati miðað við aðstæður á hverjum stað eða viðmiðunarreglum sem menn setja sér. Engar opinberar reglur eru til um þetta hér á landi.



Hæð trjáa og þéttleiki skipta máli þegar skilgreina á skóg.

Að mæla flatarmál skóga er mikið verk, auk þess sem skógar eru sífellt ýmist að breiðast út eða dragast saman og mælingar því ekki réttar nema í stuttan tíma í einu. Því þarf að endurtaka mælingar með fárra ára millibili ef þær eiga að vera réttar. Vinna við það er hafin á vegum Rannsóknastöðvar Skógræktar á Mógilsá, en nokkur ár eru í það að samanburðarhæfar tölur um flatarmál allra skóga liggi fyrir.

Vel má vera að Hallormsstaðaskógur og Vaglaskógur hafi verið stærstu skógar á Íslandi fyrir um 100 árum síðan þegar þeir voru gerðir að fyrstu þjóðskógum Íslendinga. Báðir hafa þeir stækkað verulega að flatarmáli síðan eins og lesa má um í svari saman höfundar við spurningunni: Eru Hallormsstaðaskógur og Vaglaskógur enn að stækka að flatarmáli? Aðrar breytingar hafa þó einnig átt sér stað, einkum á síðustu 50-60 árum. Skógar hafa víða breiðst út á svæðum sem eru vernduð fyrir beit auk þess sem gróðursettir skógar þekja nú all víðáttumikil svæði á nokkrum stöðum.

Þó að ekkert sé hægt að sanna um hvaða skógar séu stærstir á Íslandi er hægt að nefna nokkra sem örugglega eru meðal þeirra stærstu: Hallormsstaðaskóg, skóginn í Aðaldalshrauni, skóginn í austanverðum Fnjóskadal sem nær frá jörðinni Lundi og langt fram í Timburvalladal, og hinn svokallaða Græna Trefil sem umlykur höfuðborgarsvæðið og inniheldur meðal annars Heiðmörk og Hólmsheiði.

Að lokum ber að geta þess að þessir stærstu skógar Íslands ná hver um sig yfir flatarmál sem nemur í mesta lagi fáum þúsundum hektara. Ef til vill nær sá stærsti ekki 2000 hekturum (20 ferkílómetrum), eftir því hvernig við skilgreinum hann. Þetta eru agnarsmáir blettir miðað við heildarflatarmál Íslands (rúma 100.000 ferkílómetra), enda er Ísland skóglausasta land Evrópu.

Eitt sinn talaði undirritaður við finnskan skógfræðing og sagði honum frá því að á Íslandi væru 40 þjóðskógar, það er skóglendi í eigu og umsjá Skógræktar ríkisins, og nefndi um leið nokkra þeirra. Hann svaraði um hæl að í Finnlandi væri aðeins einn skógur - hann heitir Finnland.

Myndir:

Höfundur

Þröstur Eysteinsson

skógræktarstjóri

Útgáfudagur

29.8.2005

Spyrjandi

Jón Ásgeir, f. 1988

Tilvísun

Þröstur Eysteinsson. „Hver er þriðji stærsti skógur Íslands?“ Vísindavefurinn, 29. ágúst 2005, sótt 13. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5227.

Þröstur Eysteinsson. (2005, 29. ágúst). Hver er þriðji stærsti skógur Íslands? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5227

Þröstur Eysteinsson. „Hver er þriðji stærsti skógur Íslands?“ Vísindavefurinn. 29. ágú. 2005. Vefsíða. 13. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5227>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er þriðji stærsti skógur Íslands?
Frá fornu fari hefur verið talað um þrjá höfuðskóga Íslands: Hallormsstaðaskóg, Vaglaskóg og Bæjarstaðarskóg. Í þeim öllum eru trén óvenjuhávaxin á íslenskan mælikvarða og eru tveir þeir fyrrnefndu allstórir að flatarmáli en Bæjarstaðarskógur talsvert minni um sig. Því hefur verið haldið fram að Hallormsstaðaskógur og Vaglaskógur væru stærstu skógar Íslands að flatarmáli. Það er örugglega rangt hvað varðar Vaglaskóg og það er ekki að svo stöddu hægt að staðfesta á vísindalegan hátt, það er með samanburði á flatarmálsmælingum, að Hallormsstaðaskógur sé stærstur. Það hefur reyndar aldrei verið hægt.



Hallormsstaður.

Stutt svar við spurningunni er því: Við vitum ekki hver þriðji stærsti skógur Íslands er. Við vitum ekki einu sinni hverjir eru í fyrsta og öðru sæti. Vandamálið er tvíþætt: Annars vegar er það spurning um skilgreiningu á því hvað sé skógur og hins vegar um að mæla flatarmál skóga.

Einföld skilgreining á skógi er:
Vistkerfi þar sem tré eru ríkjandi.
Þá þarf að skilgreina hvað sé tré, oftast miðað við einhverja tiltekna hæð, og hvað það þýði að þau séu ríkjandi, það er hversu stóran hluta lands trén þekja. Loks þarf að tilgreina lágmarksflatarmál; eitt tré er ekki skógur og ekki heldur þyrping 20 trjáa. Hentug skilgreining á skógi miðað við íslenskar aðstæður væri til dæmis:
Vistkerfi, minnst 1 hektari að flatarmáli, þar sem tré að minnsta kosti 2 m á hæð eru ríkjandi og þekja að minnsta kosti 30% lands.

Hæðarmörkin gera það að verkum að stór hluti birkikjarrs, til dæmis á vestanverðu landinu, telst ekki til skóga. Ákvæði um lágmarksþekju þýðir að svæði þar sem eru tré á stangli eru heldur ekki skógar. Til dæmis hefur verið talað um höfuðborgarsvæðið sem stærsta skóg landsins því þar eru víða stór tré og sum hverfin þannig að trén eru meira áberandi tilsýndar en húsin. Á höfuðborgarsvæðinu í heild ná tré þó ekki lágmarksþekju auk þess sem hús og götur tilheyra ekki skógarvistkerfi og því er ekki rétt að tala þar um skóg þótt einstök smærri svæði innan þéttbýlisins geti flokkast sem skógar.

Þá finnst sumum skipta máli hver uppruni skógarins sé. Þeir eru til sem ekki telja það vera skóg ef hann hefur verið gróðursettur, sérstaklega ef notaðar eru aðfluttar trjátegundir.

Svo eru ýmsar spurningar sem skipta máli við mælingu á flatarmáli. Hvar dregur maður mörk skógar? Fyrr á tíð voru landamerki jarða notuð; til dæmis er hinn eiginlegi Vaglaskógur skógurinn á jörðinni Vöglum í Fnjóskadal en á næstu jörð, Hálsi, er Hálsskógur. Landamerki jarðanna liggja um miðjan skóg. Er þá um að ræða einn skóg eða tvo? Ef skógur vex sitt hvorumegin við á (eða veg eða gil eða annað í landslaginu), rennur áin þá í gegnum einn og sama skóginn (þá er einn skógur) eða skiptir hún landi þannig að um tvo skóga sé að ræða? Þegar tré eru gróðursett, telst það strax skógur eða þarf að bíða þar til trén eru orðin tveggja metra há? Eða telst það ef til vill aldrei vera skógur? Svör við þessum spurningum eru háð mati miðað við aðstæður á hverjum stað eða viðmiðunarreglum sem menn setja sér. Engar opinberar reglur eru til um þetta hér á landi.



Hæð trjáa og þéttleiki skipta máli þegar skilgreina á skóg.

Að mæla flatarmál skóga er mikið verk, auk þess sem skógar eru sífellt ýmist að breiðast út eða dragast saman og mælingar því ekki réttar nema í stuttan tíma í einu. Því þarf að endurtaka mælingar með fárra ára millibili ef þær eiga að vera réttar. Vinna við það er hafin á vegum Rannsóknastöðvar Skógræktar á Mógilsá, en nokkur ár eru í það að samanburðarhæfar tölur um flatarmál allra skóga liggi fyrir.

Vel má vera að Hallormsstaðaskógur og Vaglaskógur hafi verið stærstu skógar á Íslandi fyrir um 100 árum síðan þegar þeir voru gerðir að fyrstu þjóðskógum Íslendinga. Báðir hafa þeir stækkað verulega að flatarmáli síðan eins og lesa má um í svari saman höfundar við spurningunni: Eru Hallormsstaðaskógur og Vaglaskógur enn að stækka að flatarmáli? Aðrar breytingar hafa þó einnig átt sér stað, einkum á síðustu 50-60 árum. Skógar hafa víða breiðst út á svæðum sem eru vernduð fyrir beit auk þess sem gróðursettir skógar þekja nú all víðáttumikil svæði á nokkrum stöðum.

Þó að ekkert sé hægt að sanna um hvaða skógar séu stærstir á Íslandi er hægt að nefna nokkra sem örugglega eru meðal þeirra stærstu: Hallormsstaðaskóg, skóginn í Aðaldalshrauni, skóginn í austanverðum Fnjóskadal sem nær frá jörðinni Lundi og langt fram í Timburvalladal, og hinn svokallaða Græna Trefil sem umlykur höfuðborgarsvæðið og inniheldur meðal annars Heiðmörk og Hólmsheiði.

Að lokum ber að geta þess að þessir stærstu skógar Íslands ná hver um sig yfir flatarmál sem nemur í mesta lagi fáum þúsundum hektara. Ef til vill nær sá stærsti ekki 2000 hekturum (20 ferkílómetrum), eftir því hvernig við skilgreinum hann. Þetta eru agnarsmáir blettir miðað við heildarflatarmál Íslands (rúma 100.000 ferkílómetra), enda er Ísland skóglausasta land Evrópu.

Eitt sinn talaði undirritaður við finnskan skógfræðing og sagði honum frá því að á Íslandi væru 40 þjóðskógar, það er skóglendi í eigu og umsjá Skógræktar ríkisins, og nefndi um leið nokkra þeirra. Hann svaraði um hæl að í Finnlandi væri aðeins einn skógur - hann heitir Finnland.

Myndir: ...