Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hugtökin verund (e. being) og neind (e. nothingness) eru ein og sér svo almenns eðlis að þau koma fyrir með einum og öðrum hætti í vel flestum verkum heimspekisögunnar. Þá tengjast þessi andstæðu hugtök öðrum aldagömlum hugtökum eins og sýnd/reynd, satt/ósatt og rétt/rangt. Nú orðið er talað um sérstaka grein heimspekinnar sem verufræði (e. ontology) þegar rætt er um eðli verunnar. Ég geri þó ráð fyrir að spyrjandi hafi sérstakan áhuga á hugmyndum tilvistarstefnumanna en í meðförum þeirra náðu hugtökin verund og neind langt út fyrir tæknilega umfjöllun fagheimspekinga.
Ítarlega umfjöllun um hugtökin verund og neind er að finna í samnefndri bók heimspekingsins, rithöfundarins og leikritaskáldsins Jean-Paul Sartre (1905-1980, á mynd til hliðar). Sartre átti mikinn þátt í vinsældum tilvistarstefnunnar en hægt er að lesa meira um hana í svari höfundar við spurningunni Hvað er tilvistarstefna?
Helsti áhrifavaldur Sartre var þýski heimspekingurinn Martin Heidegger (1889-1976). Það var einkum tvennt sem Sartre lærði af honum; að endurskoða allar frumspekilegur kreddur út frá hversdagslegum heimi mannsins og spyrja róttækra spurninga um veru hans, eins og hvað er veran og hvers eðlis er tilvist hluta og manna?
Bæði Heidegger og Sartre aðhylltust fyrirbærafræði (e. phenomenology), stefnu sem var við mikinn blóma í Þýskalandi fyrir heimstyrjöldina síðari. Í fyrirbærafræði er lagt út frá fyrstu persónu lýsingum á reynslu mannsins. Báðir töldu að þau vísindi sem eingöngu byggja á efnishyggju væru ófær um að höndla sérstakan veruleika mannsins. Þeir töldu að slík vísindi féllu í þá aldagömlu frumspekilegu gryfju að einblína á eiginleika hlutanna en gefa sér fyrirfram veru þeirra. Heimspekingar ættu að reyna rannsaka hver séu svonefnd möguleikakjör verunnar, það er að segja hvað geri hlutum kleift að vera til, og með hvaða hætti.
Hugtakið vera verður mjög mikilvægt fyrir Sartre og í lok langrar rannsóknar í verkinu Vera og neind (fr. L’être et néant) stendur Sartre uppi með tvenns konar veruhætti.
Í fyrsta lagi, segir Sartre, verður að hafa í huga að tilvist er ekki eiginleiki. Skoðum setninguna „bíllinn er rauður“. Hér er rauður eiginleiki sem bíllinn hefur; orðið „er“ þýðir í raun aðeins að bíllinn eigi hlutdeild í eiginleikanum. Klassísk fræði og frumspeki velta fyrir sér hvort slíkir eiginleikar séu aðeins nöfn sem við notum um svipaða hluti eða séu í reynd til, hafi veru. Er til hið rauða eðli hluta eða er það aðeins nafn sem ekki vísar í neitt sérstakt? Er til hið góða eðli eða aðeins nafnið? Er til hið mannlega eðli eða aðeins nafn yfir samsafn svipaðra manna?
Úr myndasögunni The Adventures of Andrew Snail: Being and nothingness eftir Jay Veegee.
Skoðum nú setninguna „Bíllinn er til“. Hvað þýðingu hefur orðið „er“ hér? Það segir til um tilvist bílsins, en það er ekki eiginleiki. Bíllinn getur haft alla þá eiginleika sem hann þarf til að vera bíll án þess að vera til. Ef rauði bíllinn er eitthvað annað en ímyndun mín ein þá er hann til óháð mér og á sér ákveðinn stað í tíma og rúmi. Tilvist hans er staðreynd (fr. facticité). Sartre kallaði slíka tilvist veru í sjálfu sér (fr. être-en-soi). En manneskjur eru ekki til með sama hætti. Þær hafa veru fyrir sig (fr. être-pour-soi); hennar eigin tilvist verður að eins konar þversagnakenndum eiginleika því hún hefur sjálfsvitund og skynjar sjálfa sig í tíma og rúmi.
Fyrir slíka veru verður tilvistin einkennandi. Samt getur hún ekki talað um tilvist sína sem hlut eða eiginleika. Hér er því ekki um tvíhyggju að ræða í anda heimspekinga á borð við Descartes sem taldi að hugurinn væri hlutur af öðrum toga en efnislegir hlutir í heiminum. Maðurinn er sjálfsvera (fr. sujet) en ekki hlutvera (fr. objet). Það er hérna sem Sartre innleiðir hugtakið neind (það sem ekki er). Maðurinn stendur andspænis sjálfum sér og verður eitthvað annað en hann sjálfur. Tilvist hans „inniheldur“ tóm sem ekki er afleiðing af líffræðilegum og félagslegum skilyrðum. Í neindinni felst frelsi mannsins og þetta frelsi kemur á undan eðli mannsins. Frelsið verður hins vegar vandasamt þar sem tilvist mannsins einkennist af hvoru tveggja, verunni fyrir sig og verunni í sjálfu sér. Maðurinn er staddur í aðstæðum sem skilyrða hann en hann er einnig fær um að yfirstíga þessar aðstæður vegna frelsisins. Maðurinn er í senn fjötraður og frjáls.
Myndir
Mynd af Sartre er af Sartre, Jean-Paul. Britannica Guide to the Nobel Prizes.
Valur Brynjar Antonsson. „Hver er meginmunurinn á hugtökunum verund og engu?“ Vísindavefurinn, 29. ágúst 2005, sótt 9. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5228.
Valur Brynjar Antonsson. (2005, 29. ágúst). Hver er meginmunurinn á hugtökunum verund og engu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5228
Valur Brynjar Antonsson. „Hver er meginmunurinn á hugtökunum verund og engu?“ Vísindavefurinn. 29. ágú. 2005. Vefsíða. 9. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5228>.