Ítarlega umfjöllun um hugtökin verund og neind er að finna í samnefndri bók heimspekingsins, rithöfundarins og leikritaskáldsins Jean-Paul Sartre (1905-1980, á mynd til hliðar). Sartre átti mikinn þátt í vinsældum tilvistarstefnunnar en hægt er að lesa meira um hana í svari höfundar við spurningunni Hvað er tilvistarstefna?
Helsti áhrifavaldur Sartre var þýski heimspekingurinn Martin Heidegger (1889-1976). Það var einkum tvennt sem Sartre lærði af honum; að endurskoða allar frumspekilegur kreddur út frá hversdagslegum heimi mannsins og spyrja róttækra spurninga um veru hans, eins og hvað er veran og hvers eðlis er tilvist hluta og manna?
Bæði Heidegger og Sartre aðhylltust fyrirbærafræði (e. phenomenology), stefnu sem var við mikinn blóma í Þýskalandi fyrir heimstyrjöldina síðari. Í fyrirbærafræði er lagt út frá fyrstu persónu lýsingum á reynslu mannsins. Báðir töldu að þau vísindi sem eingöngu byggja á efnishyggju væru ófær um að höndla sérstakan veruleika mannsins. Þeir töldu að slík vísindi féllu í þá aldagömlu frumspekilegu gryfju að einblína á eiginleika hlutanna en gefa sér fyrirfram veru þeirra. Heimspekingar ættu að reyna rannsaka hver séu svonefnd möguleikakjör verunnar, það er að segja hvað geri hlutum kleift að vera til, og með hvaða hætti.
Hugtakið vera verður mjög mikilvægt fyrir Sartre og í lok langrar rannsóknar í verkinu Vera og neind (fr. L’être et néant) stendur Sartre uppi með tvenns konar veruhætti.
Í fyrsta lagi, segir Sartre, verður að hafa í huga að tilvist er ekki eiginleiki. Skoðum setninguna „bíllinn er rauður“. Hér er rauður eiginleiki sem bíllinn hefur; orðið „er“ þýðir í raun aðeins að bíllinn eigi hlutdeild í eiginleikanum. Klassísk fræði og frumspeki velta fyrir sér hvort slíkir eiginleikar séu aðeins nöfn sem við notum um svipaða hluti eða séu í reynd til, hafi veru. Er til hið rauða eðli hluta eða er það aðeins nafn sem ekki vísar í neitt sérstakt? Er til hið góða eðli eða aðeins nafnið? Er til hið mannlega eðli eða aðeins nafn yfir samsafn svipaðra manna?

Úr myndasögunni The Adventures of Andrew Snail: Being and nothingness eftir Jay Veegee.
- Mynd af Sartre er af Sartre, Jean-Paul. Britannica Guide to the Nobel Prizes.
- Myndasagan er af Being and nothingness. The Adventures of Andrew Snail. Jay Veegee.