Er orðið ógnanir til? Ég er í viðskiptafræði og kennararnir tala alltaf um ógnanir en ekki ógnir, er þetta ekki vitlaust hjá þeim?Orðið ógnun er verknaðarnafnorð leitt af sögninni að ógna með viðskeytinu -un og merkir 'hótun, það að ógna'. Ógnanir eru því hótanir sem einhver beitir einhvern annan. Orðið mun ekki vera gamalt í málinu, líklegast frá upphafi 20. aldar. Sögnin ógna merkir að 'hóta, hræða' og er til dæmis notuð í samböndunum að ógna e-m 'hræða e-n' og ópersónulega í e-m ógnar e-ð 'e-r óttast eitthvað (mjög)'. Nafnorðið ógn er hins vegar gamalt í málinu og merkir 'skelfing, hræðsla, ótti'. Það er til dæmis notað í orðasambandinu að standa ógn af e-m eða e-u, það er óttast e-n eða e-ð mjög, og ógn stafar af e-u 'ástæða er til að óttast e-ð'. Ógn er því ekki notað um verknaðinn heldur fremur um ástand. Samhengið sker úr hverju sinni hvort við á að nota ógn eða ógnun.
Útgáfudagur
5.9.2005
Spyrjandi
Sigurhanna Kristinsdóttir
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Er orðið ógnanir til?“ Vísindavefurinn, 5. september 2005, sótt 11. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5242.
Guðrún Kvaran. (2005, 5. september). Er orðið ógnanir til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5242
Guðrún Kvaran. „Er orðið ógnanir til?“ Vísindavefurinn. 5. sep. 2005. Vefsíða. 11. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5242>.