Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Andorra er smáríki sem liggur á milli Frakklands og Spánar. Höfuðborg þess er Andorra la Vella. Landið er aðeins 468 km2 að flatarmáli, meira en 200 sinnum minna en Ísland. Andorra er fjalllent, enda er landið í miðjum Pýreneafjöllunum. Vetur eru snjóþungir, en sumur eru yfirleitt mild.
Íbúar Andorra eru um 70.550 (miðað við tölur frá júlí 2005). Þar af eru 43% Spánverjar, 33% Andorramenn, 11% Portúgalar, 7% Frakkar og 6% af öðrum þjóðernum. Katalónska er opinbert tungumál en önnur tungumál, aðallega spænska, franska og portúgalska, eru einnig töluð. Langflestir íbúanna eru rómversk-kaþólskrar trúar, en fræðast má meira um trúna í svarinu Hvað aðgreinir kaþólska trú frá lúterskri? eftir Hauk Má Helgason.
Fáni Andorra. Á skjaldarmerkinu standa orðin 'virtus unita fortior' sem í lauslegri þýðingu merkja 'dyggðin er meiri ef hún er sameinuð'.
Frá árinu 1278 var Andorra undir sameiginlegri stjórn franskra og spænskra leiðtoga. Árið 1993 breyttist stjórnskipanin; Andorra fékk sérstaka stjórnarskrá og varð að þingbundnu lýðræðisríki. Landið hefur samt enn tvo prinsa, forseta Frakklands og biskupinn af Seo de Urgel á Spáni, þótt pólitískt vald þeirra í landinu sé takmarkað.
Lengi vel var Andorra mjög einangrað og hafði svo til engin samskipti við önnur ríki, að undanskyldum nágrannaríkjunum Frakklandi og Spáni. Nú er landið aftur á móti orðið vinsæll ferðamannastaður og tekjur af ferðamennsku nema um 80% af vergri landsframleiðslu. Lesendur geta kynnt sér hvað átt er við með vergri landsframleiðslu í svari Gylfa Magnússonar við spurningunni Hvað er átt við þegar talað er um vergar þjóðartekjur? Vegna hagstæðra skattalaga er Andorra líka orðin að hálfgerðri skattaparadís fyrir auðmenn.
Heimildir og mynd
Eva Hrund Hlynsdóttir og Katrín Arndís Blomsterberg Magneudóttir. „Geturðu sagt mér eitthvað um Andorra?“ Vísindavefurinn, 8. september 2005, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5250.
Eva Hrund Hlynsdóttir og Katrín Arndís Blomsterberg Magneudóttir. (2005, 8. september). Geturðu sagt mér eitthvað um Andorra? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5250
Eva Hrund Hlynsdóttir og Katrín Arndís Blomsterberg Magneudóttir. „Geturðu sagt mér eitthvað um Andorra?“ Vísindavefurinn. 8. sep. 2005. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5250>.