Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Vísindavefurinn hefur fengið ótalmargar spurningar um þetta efni, svo spyrjendur komust ekki nándar nærri allir fyrir í spyrjendareitnum. Aðrir spyrjendur eru: Jón Bragi Guðjónsson, Kristján Kristjánsson, Viðar Berndsen, Hanna Lilja Jónasdóttir, Magnús Óskarsson, Þórunn Sigurðardóttir, Sigurlaug Jónasdóttir, Reynir Hans Reynisson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Helena Montazeri, Svandís Ólafsdóttir, Lilja Sif Þorsteinsdóttir, Sveinn Sampsted, Jenný Gunnarsdóttir, Kristín Valtýsdóttir, Aldís Líf Vigfúsdóttir og Tinna Sindradóttir.
Svefnganga er truflun á svokölluðum hægbylgjusvefni (slow-wave sleep), dýpsta stigi svefns. Í svefngöngu rís fólk úr rekkju og framkvæmir ýmsa hluti sem það gerir að öllu jöfnu aðeins í vöku, svo sem að ganga um. Einnig getur verið að fólk tali upp úr svefni. Þetta þýðir ekki að svefngenglarnir geri eða segi það sem þá dreymir, því draumsvefn verður aðallega á svefnstigi sem nefnist bliksvefn eða REM-svefn.
Ólíkt því sem almennt er talið hafa svefngenglar hvorki útréttar hendur né lokuð augu; þvert á móti hafa þeir augun opin og geta því séð hvert þeir fara. Augnaráð þeirra er að vísu oft fjarrænt, enda er fólk ekki með réttu ráði og svarar lítið við utanaðkomandi áreitum. Þegar fólk vaknar getur það virkað hálfruglað og utan við sig, og man yfirleitt ekkert eftir svefngöngunni. Ekki er talið hættulegt að vekja svefngengla, og getur jafnvel verið nauðsynlegt ef þeir eru við það að gera eitthvað óæskilegt.
Svefnganga er algengust hjá ungum börnum og eldist gjarnan af þeim án nokkurrar sérstakrar meðferðar. Þetta skýrist hugsanlega af því að taugakerfi þeirra er tiltölulega vanþroskað. Svefnganga fullorðinna fer yfirleitt saman við óreglulegar svefnvenjur, álag og streitu. Ef þessum þáttum er kippt í liðinn hættir svefngangan oft af sjálfu sér. Í einstaka tilfellum er fólk meðhöndlað með lyfjagjöf, en það getur verið varhugavert þar sem lyfin geta einnig truflað eðlilegan svefn.
Fólk sem gengur ítrekað í svefni er stundum greint með svokallaða svefngönguröskun (sleepwalking disorder, somnambulism) sem er ein tegund sérstakra svefnraskana (parasomnias). Svefngönguröskun er truflandi en er yfirleitt ekki talin hættuleg. Fjölmargar atvikasögur eru þó af því að fólk geri ótrúlegustu hluti í svefni sem það myndi aldrei gera í vöku, svo sem að stunda kynlíf með ókunnugum eða jafnvel fremja morð (sjá grein í New Scientist). Þetta er að sjálfsögðu ekki algengt, og umdeilt er hvort svefngenglar geti yfirleitt gert svo flókna hluti. En allur er varinn góður, svo ef fólk er gjarnt á að ganga í svefni gæti verið gott ráð að fyrirbyggja að það valdi sér eða öðrum skaða, til að mynda með því að sofa á jarðhæð, loka gluggum og hurðum og fjarlægja hluti af gólfinu sem hægt er að hnjóta um.
Heimildir og frekara lesefni
Carlson, N. R. (2001). Physiology of behavior (7. útgáfa). Needham Heights, MA: Allyn and Bacon.
Heiða María Sigurðardóttir. „Af hverju ganga sumir í svefni?“ Vísindavefurinn, 9. september 2005, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5255.
Heiða María Sigurðardóttir. (2005, 9. september). Af hverju ganga sumir í svefni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5255
Heiða María Sigurðardóttir. „Af hverju ganga sumir í svefni?“ Vísindavefurinn. 9. sep. 2005. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5255>.