
Verkamenn árið 1927. Á þessum tíma var litið á vinnuafl sem hver önnur aðföng, og lítið var hugað að starfsánægju og áhrifum hennar á framleiðni.
sem framleiðni hjá þeim hópi dvínaði. Til þess að reyna að kryfja þessa óvæntu stöðu til mergjar fengu stjórnendur verksmiðjunnar nýráðinn sálfræðing við Harvard-háskóla, Elton Mayo (á mynd til hliðar), til liðs við sig. Í kjölfarið fylgdi röð rannsókna þar sem áhrif ýmissa starfstengdra þátta eins og gæði loftræstingar, vinnutíma og fjölda vinnuhléa á framleiðni var athuguð. Niðurstöðurnar voru á sömu leið; framleiðni starfsfólks jókst hvort sem aðstæður voru bættar eða þær skertar, og framleiðniaukningin hélst jafnvel þegar aðstæður voru færðar í upprunalegt horf.
Að þessum rannsóknum loknum lá því ljóst fyrir að aukning á framleiðni starfsfólks gat ekki stafað af breytingum á vinnuaðstæðum, en eftir stóð að finna trúverðugar skýringar á framleiðniaukningunni. Þótt fræðimenn séu ekki á eitt sáttir um nákvæma túlkun niðurstaðna Hawthorne-rannsóknanna virðast flestir nokkuð sammála því að skýringuna sé að finna í þeirri auknu athygli sem verkstjórar og stjórnendur sýndu verkafólkinu meðan á rannsóknunum stóð. Eins og áður var getið var almennt lítill gaumur gefinn að tilfinningum og þörfum starfsfólks í verksmiðjum þessa tíma, og sú jákvæða athygli sem beindist að verkafólkinu meðan á rannsókninni stóð varð hugsanlega til þess að því fannst það mikilsverðara en áður og metið að verðleikum. Auk þess fékk fólkið sem þátt tók í fyrsta skipti endurgjöf (feedback) á frammistöðu sína ásamt auknu frelsi frá verkstjórum sínum. Fyrir vikið er talið að andrúmsloftið á vinnustaðnum hafi batnað, hvatning starfsfólksins til að standa sig vel hafi aukist og frammistaða batnað í kjölfarið.
Það er óhætt að segja að áhrif Hawthorne-rannsóknanna hafi verið víðtæk. Eftir þær varð mikil aukning á þeirri athygli sem stjórnendur og rannsakendur beindu að mannlegum þáttum vinnustaðarins. Hugsmíðin starfsánægja varð eitt vinsælasta rannsóknarefni fræðimanna á sviði vinnusálfræði og stjórnunar um áratuga skeið, flóknari og viðameiri kenningar um starfshvatningu voru settar fram til að skýra hvernig þarfir og tilfinningar hefðu áhrif á starfstengda hegðun og fyrirtæki gerðu gangskör í því að uppfylla betur þarfir starfsfólks á vinnustað. Auk þess öðluðust Hawthorne-áhrifin svokölluðu – breyting á hegðun fólks við það að einhver fylgist með því – sjálfstæðan sess sem hugtak í aðferðafræði rannsókna. Það er því óhætt að segja að þessi uppgötvun sem verkfræðingar Hawthorne-verksmiðjanna hrösuðu óvart um á sínum tíma hafi haft víðtæk áhrif á starfsumhverfi og vellíðan starfsfólks og þeirra áhrifa gætir allt til dagsins í dag.
Heimildir og myndir
- Highhouse, S. (1999). „The brief history of personnel counseling in industrial-organizational psychology“. Journal of Vocational Behavior, 55, 318-336.
- Landy & Conte (2004). Work in the 21st century: An introduction to Industrial and Organizational Psychology. Boston: McGraw-Hill.
- Reece, B. L. og Brandt, R. (2000). Human relations: Principles and practices. Boston: Houghton Mifflin.
- Robbins, S. P. (2003). Organizational Behavior (10. útg.). New Jersey: Prentice Hall.
- Zikmund, W. G. (2003). Business research methods (7. útg.) Mason: Thomson.
- Mynd af verkamönnum er af Tools - Labor Media & Clip Art Files. OIP Project.
- Mynd af Elton Mayo er af Administración de empresas.