Sólin Sólin Rís 05:54 • sest 21:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:29 • Síðdegis: 24:02 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:26 í Reykjavík

Hver eru helstu verk Friedrichs Nietzsches?

Valur Brynjar Antonsson

Ritverkum Friedrichs Nietzsches (1844-1900) er vanalega skipt í þrjú tímabil: Æskuverkin (1872-1877), miðárin (1878-1882) og síðustu árin (1883-1888). Þar sem áhrifa Nietzsches gætir meðal listamanna, arkitekta, heimspekinga, félagsfræðinga, sálfræðinga, rithöfunda, tónlistarmanna, mannfræðinga, kvikmyndagerðarmanna og stjórnmálamanna – svo nokkrir séu nefndir – er erfitt að ákveða endanlega hver séu hans helstu verk. Túlkun þessara hópa á verkum hans er oft æði ólík og menn skiptast sömuleiðis í hópa eftir því hver þeir telji aðalverkin. Það má þó nefna nokkur verk og flokka eftir mismunandi viðtökum.

Æskuverk

Af æskuverkum Nietzsches er ein frægasta bókin óneitanlega Fæðing harmleiksins (1872). Í bókinni, sem Nietzsche gaf út aðeins 28 ára, beitti hann menntun sinni sem klassískur textafræðingur til að endurtúlka þá dýrkun á forna Grikklandi sem hafði verið svo ríkjandi í evrópskri menningu frá dögum endurreisnar. Hann tefldi fram tveimur andstæðum öflum, hinu díónýsíska gegn því apollóníska; hið fyrra einkennist af ölvun, erótík, oflæti og skapandi frumkrafti en hið síðara stillingu, jafnvægi, formi og göfgun. Nietzsche taldi að fyrir daga Sókratesar hafi ríkt jafnvægi á milli þessara afla, en svo hafi skynseminni verið lyft á kostnað lífsaflsins og við það hafi listin og maðurinn úrkynjast. Þetta verk hefur haft gríðarleg áhrif á alla listsköpun, sérstaklega á listamenn framúrstefnunnar við upphaf 20. aldar.

Af öðrum frægum verkum frá þessu tímabili má nefna ritgerðina „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi“, þar sem Nietzsche þróar þá hugmynd að uppruni allra hugtaka séu myndlíkingar og manngervingar, þar með talið sannleikshugtakið sjálft. Þessi grein er töluvert vinsæl meðal póstmódernista og málvísindamanna, svo sem Lakoffs og Johnsons.

Miðárin

Af verkum frá miðjutímabilinu má helst nefna Morgunroða (1881) og Hin kátu vísindi (1882). Í því fyrra þróaði Nietzsche þann stíl sem hann byrjaði að nota í verkinu Mannlegt, allof mannlegt, og varð þekktur fyrir að blanda saman ritgerðum og stuttum mjög hnitmiðuðum orðspjótum. Hér birtist Nietzsche sem framúrskarandi skarpskyggn athugandi félags- og sálfræðilegrar hegðunar mannsins. Nietzsche lagði áherslu á að skoða hinar lífeðlisfræðilegu forsendur fyrir gildismati fólks, og taldi að viljinn til valds væri helsti drifkraftur alls lífs.

Í Hinum kátu vísindum koma fyrir hin frægu orð Nietzsches að „Guð sé dauður.“ Þau birtast reyndar í dæmisögu sem fyrst og fremst var ætlað að beina spjótum sínum að menningu og samfélagi nútímamanna sem héldu á lofti dauðum og steinrunnum gildum sem þeir sjálfir trúðu ekki á. Þetta rit hefur einkum haft áhrif á þá sem telja Nietzsche frumkvöðul í náttúrulegum skýringum sem lausar eru við blekkingar um handanheim. Meira má lesa um þessa frægustu setningu Nietzsches í svari Róberts Haraldssonar við spurningunni Hvernig getur Guð verið dáinn ef hann fæddist aldrei?

Síðustu árin

Við upphaf síðasta tímabils skrifar Nietzsche frægasta verk sitt, Svo mælti Zaraþústra (1883-85). Það er skrifað í goðsagnakenndum stíl þar sem ofin eru saman heimspekilegar hugmyndir og myndmál úr austrænum trúarbrögðum og kristni. Hér birtist hið fræga ofurmenni Nietzsches og hugmyndin um hina eilífu endurkomu er skýrð frekar. Hugsuður framtíðarinnar er maður sem hefur hrist af sér steinrunnið gildismat fyrri tíma og er fær um að játast lífshvetjandi afli – svo sem erótík, gleði, framkvæmdavilja og fyrst og fremst skapandi hugsun – jafnvel þótt slíkt feli í sér sársauka og átök. Hann getur jafnvel tileinkað sér þá heimsmynd að allt muni endurtaka sig; hans eigið líf, sigrar hans og ósigrar. Bæði í Zaraþústru og Hinum kátu vísindum virðist Nietzsche álíta að þessi hugmynd sé mælikvarði á styrk mannsins og sálrænt atgervi hans.

Síðast ber að nefna Handan góðs og ills (1886) og Sifjafræði siðferðisins (1887). Í þessum tveimur verkum ræðst Nietzsche jöfnum höndum á hefðbundna heimspeki og kristið siðferði. Hann rekur sögulegan og sálfræðilegan uppruna þeirra beggja til tíma þegar hinn þjáði maður þurfti að bregðast við ofríki ráðandi stétta. Það siðferði auðmýktar og líkamsfyrirlitningar sem Nietzsche taldi einkenna kristindóminn var að hans mati þrælasiðferði sem veiklunduð klerkastétt stefndi gegn hinum sterku lífsgildum göfugra Rómverja. Hjá þeim var til gott og slæmt í skilningnum göfugt og lágkúrlegt. Þrælasiðferðið snéri þessum gildum við þannig að það sem áður taldist göfugt varð illt og hið lágkúrlega gott. Við þessa umbyltingu gildanna varð til siðferði sem hóf upp til skýjanna dygðir sem einkenndu þá sem minna máttu sín: Hófsemi, sparsemi, auðmýkt og meinlæti. Neyð var þannig gerð að dygð. En hvers vegna þarf menning okkar að ríghalda í þessi gildi þegar þeir sem minna máttu sín hafa risið til æðstu metorða í Vatíkaninu í Róm og gildin sjálf virka letjandi á mannsandann?


Friedrich Nietzsche. Hluti verks Edvards Munchs frá 1906.

Menningarheimur okkar er heimur tvíhyggjunnar í þeim skilningi að hann skiptist í andstæð pör: Gott/illt, sýnd/reynd, satt/ósatt, 1/0, maður/kona, upp/niður – eins og um einhvers konar náttúrulegar andstæður væri að ræða. Maðurinn/ofurmennið sem ætlar að játast lífinu og tileinka sér viljann til valds verður að hefja sig yfir slíka tvíhyggju og staðsetja sig handan góðs og ills. Þessar hugmyndir Nietzsches hafa í einfaldaðri mynd eins og þessari hneykslað margra, en ekki ber að skilja þessar hugmyndir sem boðskap tiltekinnar pólitískrar kenningar, né sem dýrkun á ofbeldi, múgsefjun og einræði sem síðar einkenndi 20. öldina. Nietzsche fyrirleit slíkt.

Engu að síður eru þessi verk margslungin og enn í dag umdeild, þó að þau séu óneitanlega sígild og hafi opnað nýjar leiðir til að útskýra menninguna og manninn. Fyrst og fremst er slagkraftur Nietzsches í þessum verkum sá að mat manna á hvað teljist gott og hvað illt sé ekki eilíft eða fyrirfram ákvarðað, heldur séu þetta hugtök sem geti þróast og breyst. Það er svo hlutverk hugsuðarins að rekja þróunarsögu þeirra. Auk þess hafa hugmyndir Nietzsches haft gríðarleg áhrif á fjöldann allan af mönnum sem sáu Nietzsche sem mann sem þorði að standa fyrir utan dægurþras nútímastjórnmála og hugsuð sem losaði sig við hræsni siðapredikarans og innantómt hjal hnignandi menningar.

Ítarefni og heimildir

Ritverk eftir Nietzsche á íslensku

 • Nietzsche, Friedrich. Svo mælti Zaraþústra: Bók fyrir alla og engan. Reykjavík: Heimspekistofnun og Háskólaútgáfan, 1996.
 • Nietzsche, Friedrich. Handan góðs og ills: Forleikur að heimspeki framtíðar. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1994.
 • Nietzsche, Friedrich. „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi“. Skírnir: Ný tíðindi hins íslenzka bókmenntafélags, 167, vor, 1993, s. 15-33.

Á vefnum um Nietzsche

 • Nietzsche. Stanford Encyclopedia of Philosophy.

Bækur um Nietzsche

 • Kaufmann, Walter Arnold. Nietzsche: Philosopher, psychologist, antichrist. Princeton: Princeton University Press, 1974.

Um viðtökur Nietzsches á Íslandi

 • Davíð G. Kristinsson. „Íslenskur Nietzsche við aldamót“. Hugur, 15, 2003, s. 84-149.

Myndir

Höfundur

Útgáfudagur

16.9.2005

Spyrjandi

Björgvin Árnason

Tilvísun

Valur Brynjar Antonsson. „Hver eru helstu verk Friedrichs Nietzsches?“ Vísindavefurinn, 16. september 2005. Sótt 15. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5269.

Valur Brynjar Antonsson. (2005, 16. september). Hver eru helstu verk Friedrichs Nietzsches? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5269

Valur Brynjar Antonsson. „Hver eru helstu verk Friedrichs Nietzsches?“ Vísindavefurinn. 16. sep. 2005. Vefsíða. 15. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5269>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver eru helstu verk Friedrichs Nietzsches?
Ritverkum Friedrichs Nietzsches (1844-1900) er vanalega skipt í þrjú tímabil: Æskuverkin (1872-1877), miðárin (1878-1882) og síðustu árin (1883-1888). Þar sem áhrifa Nietzsches gætir meðal listamanna, arkitekta, heimspekinga, félagsfræðinga, sálfræðinga, rithöfunda, tónlistarmanna, mannfræðinga, kvikmyndagerðarmanna og stjórnmálamanna – svo nokkrir séu nefndir – er erfitt að ákveða endanlega hver séu hans helstu verk. Túlkun þessara hópa á verkum hans er oft æði ólík og menn skiptast sömuleiðis í hópa eftir því hver þeir telji aðalverkin. Það má þó nefna nokkur verk og flokka eftir mismunandi viðtökum.

Æskuverk

Af æskuverkum Nietzsches er ein frægasta bókin óneitanlega Fæðing harmleiksins (1872). Í bókinni, sem Nietzsche gaf út aðeins 28 ára, beitti hann menntun sinni sem klassískur textafræðingur til að endurtúlka þá dýrkun á forna Grikklandi sem hafði verið svo ríkjandi í evrópskri menningu frá dögum endurreisnar. Hann tefldi fram tveimur andstæðum öflum, hinu díónýsíska gegn því apollóníska; hið fyrra einkennist af ölvun, erótík, oflæti og skapandi frumkrafti en hið síðara stillingu, jafnvægi, formi og göfgun. Nietzsche taldi að fyrir daga Sókratesar hafi ríkt jafnvægi á milli þessara afla, en svo hafi skynseminni verið lyft á kostnað lífsaflsins og við það hafi listin og maðurinn úrkynjast. Þetta verk hefur haft gríðarleg áhrif á alla listsköpun, sérstaklega á listamenn framúrstefnunnar við upphaf 20. aldar.

Af öðrum frægum verkum frá þessu tímabili má nefna ritgerðina „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi“, þar sem Nietzsche þróar þá hugmynd að uppruni allra hugtaka séu myndlíkingar og manngervingar, þar með talið sannleikshugtakið sjálft. Þessi grein er töluvert vinsæl meðal póstmódernista og málvísindamanna, svo sem Lakoffs og Johnsons.

Miðárin

Af verkum frá miðjutímabilinu má helst nefna Morgunroða (1881) og Hin kátu vísindi (1882). Í því fyrra þróaði Nietzsche þann stíl sem hann byrjaði að nota í verkinu Mannlegt, allof mannlegt, og varð þekktur fyrir að blanda saman ritgerðum og stuttum mjög hnitmiðuðum orðspjótum. Hér birtist Nietzsche sem framúrskarandi skarpskyggn athugandi félags- og sálfræðilegrar hegðunar mannsins. Nietzsche lagði áherslu á að skoða hinar lífeðlisfræðilegu forsendur fyrir gildismati fólks, og taldi að viljinn til valds væri helsti drifkraftur alls lífs.

Í Hinum kátu vísindum koma fyrir hin frægu orð Nietzsches að „Guð sé dauður.“ Þau birtast reyndar í dæmisögu sem fyrst og fremst var ætlað að beina spjótum sínum að menningu og samfélagi nútímamanna sem héldu á lofti dauðum og steinrunnum gildum sem þeir sjálfir trúðu ekki á. Þetta rit hefur einkum haft áhrif á þá sem telja Nietzsche frumkvöðul í náttúrulegum skýringum sem lausar eru við blekkingar um handanheim. Meira má lesa um þessa frægustu setningu Nietzsches í svari Róberts Haraldssonar við spurningunni Hvernig getur Guð verið dáinn ef hann fæddist aldrei?

Síðustu árin

Við upphaf síðasta tímabils skrifar Nietzsche frægasta verk sitt, Svo mælti Zaraþústra (1883-85). Það er skrifað í goðsagnakenndum stíl þar sem ofin eru saman heimspekilegar hugmyndir og myndmál úr austrænum trúarbrögðum og kristni. Hér birtist hið fræga ofurmenni Nietzsches og hugmyndin um hina eilífu endurkomu er skýrð frekar. Hugsuður framtíðarinnar er maður sem hefur hrist af sér steinrunnið gildismat fyrri tíma og er fær um að játast lífshvetjandi afli – svo sem erótík, gleði, framkvæmdavilja og fyrst og fremst skapandi hugsun – jafnvel þótt slíkt feli í sér sársauka og átök. Hann getur jafnvel tileinkað sér þá heimsmynd að allt muni endurtaka sig; hans eigið líf, sigrar hans og ósigrar. Bæði í Zaraþústru og Hinum kátu vísindum virðist Nietzsche álíta að þessi hugmynd sé mælikvarði á styrk mannsins og sálrænt atgervi hans.

Síðast ber að nefna Handan góðs og ills (1886) og Sifjafræði siðferðisins (1887). Í þessum tveimur verkum ræðst Nietzsche jöfnum höndum á hefðbundna heimspeki og kristið siðferði. Hann rekur sögulegan og sálfræðilegan uppruna þeirra beggja til tíma þegar hinn þjáði maður þurfti að bregðast við ofríki ráðandi stétta. Það siðferði auðmýktar og líkamsfyrirlitningar sem Nietzsche taldi einkenna kristindóminn var að hans mati þrælasiðferði sem veiklunduð klerkastétt stefndi gegn hinum sterku lífsgildum göfugra Rómverja. Hjá þeim var til gott og slæmt í skilningnum göfugt og lágkúrlegt. Þrælasiðferðið snéri þessum gildum við þannig að það sem áður taldist göfugt varð illt og hið lágkúrlega gott. Við þessa umbyltingu gildanna varð til siðferði sem hóf upp til skýjanna dygðir sem einkenndu þá sem minna máttu sín: Hófsemi, sparsemi, auðmýkt og meinlæti. Neyð var þannig gerð að dygð. En hvers vegna þarf menning okkar að ríghalda í þessi gildi þegar þeir sem minna máttu sín hafa risið til æðstu metorða í Vatíkaninu í Róm og gildin sjálf virka letjandi á mannsandann?


Friedrich Nietzsche. Hluti verks Edvards Munchs frá 1906.

Menningarheimur okkar er heimur tvíhyggjunnar í þeim skilningi að hann skiptist í andstæð pör: Gott/illt, sýnd/reynd, satt/ósatt, 1/0, maður/kona, upp/niður – eins og um einhvers konar náttúrulegar andstæður væri að ræða. Maðurinn/ofurmennið sem ætlar að játast lífinu og tileinka sér viljann til valds verður að hefja sig yfir slíka tvíhyggju og staðsetja sig handan góðs og ills. Þessar hugmyndir Nietzsches hafa í einfaldaðri mynd eins og þessari hneykslað margra, en ekki ber að skilja þessar hugmyndir sem boðskap tiltekinnar pólitískrar kenningar, né sem dýrkun á ofbeldi, múgsefjun og einræði sem síðar einkenndi 20. öldina. Nietzsche fyrirleit slíkt.

Engu að síður eru þessi verk margslungin og enn í dag umdeild, þó að þau séu óneitanlega sígild og hafi opnað nýjar leiðir til að útskýra menninguna og manninn. Fyrst og fremst er slagkraftur Nietzsches í þessum verkum sá að mat manna á hvað teljist gott og hvað illt sé ekki eilíft eða fyrirfram ákvarðað, heldur séu þetta hugtök sem geti þróast og breyst. Það er svo hlutverk hugsuðarins að rekja þróunarsögu þeirra. Auk þess hafa hugmyndir Nietzsches haft gríðarleg áhrif á fjöldann allan af mönnum sem sáu Nietzsche sem mann sem þorði að standa fyrir utan dægurþras nútímastjórnmála og hugsuð sem losaði sig við hræsni siðapredikarans og innantómt hjal hnignandi menningar.

Ítarefni og heimildir

Ritverk eftir Nietzsche á íslensku

 • Nietzsche, Friedrich. Svo mælti Zaraþústra: Bók fyrir alla og engan. Reykjavík: Heimspekistofnun og Háskólaútgáfan, 1996.
 • Nietzsche, Friedrich. Handan góðs og ills: Forleikur að heimspeki framtíðar. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1994.
 • Nietzsche, Friedrich. „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi“. Skírnir: Ný tíðindi hins íslenzka bókmenntafélags, 167, vor, 1993, s. 15-33.

Á vefnum um Nietzsche

 • Nietzsche. Stanford Encyclopedia of Philosophy.

Bækur um Nietzsche

 • Kaufmann, Walter Arnold. Nietzsche: Philosopher, psychologist, antichrist. Princeton: Princeton University Press, 1974.

Um viðtökur Nietzsches á Íslandi

 • Davíð G. Kristinsson. „Íslenskur Nietzsche við aldamót“. Hugur, 15, 2003, s. 84-149.

Myndir

...