Af hverju má henda pappakassa í sjóinn en ekki plastbrúsa? Þetta var allt búið til úr náttúrunni.Pappír er í grundvallaratriðum umhverfisvænni en plast og er skýringanna að leita í efnafræði. Pappír er gerður úr örfínum þráðum, yfirleitt úr sellulósa sem bundinn er saman með vetnistengjum. Sellulósi er náttúrulegt efni sem brotnar auðveldlega niður. Allur pappír á það sameiginlegt að vera unninn úr trjám. Víða í Evrópu er stunduð sjálfbær skógrækt þar sem nýjum trám er plantað í stað þeirra sem fara í pappírsvinnslu. Skógurinn er þannig endurnýjanleg auðlind. Ekki er allur pappír jafn umhverfisvænn. Bleiktur pappír er yfirleitt verstur þar sem klórsambönd eru oft notuð við framleiðslu hans. Hins vegar er algengt að hægt sé að fá óbleiktan eða endurunninn pappír sem eru mun umhverfisvænni. Plast er gert úr olíuefnum og inniheldur oft mýkingarefni eins og til dæmis ftalat (e. phthalate) estera en þekktastur þeirra er svokallaður DEHP. DEHP dregur úr frjósemi hjá rottum en óvíst er hvort efnið hefur svipuð áhrif á menn. Ýmsir aðrir esterar eru notaðir sem mýkingarefni, til dæmis fosfat esterar sem valda mun minna tjóni í náttúrunni en DEHP.

Það getur tekið plastflöskur áratugi að eyðast í náttúrunni.
- Colin Baird. University of Western Ontario: Environmental chemistry. New York, 1995.
- Kirk-Othmer: Concise Encyclopedia of Chemical Technology. New York, 1999.
- Sorpeyðing Eyjafjarðar.