Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nashyrningar (Rhinocerotidae) tilheyra ættbálki staktæðra hófdýra (Perissodactyla) ásamt hestum (Equidae) og tapírum (Tapiridae). Áður voru ættirnar mun fleiri og má því segja að þessi forni ættbálkur spendýra megi muna fífil sinn fegri.
Steingervingasaga nashyrninga er sæmilega vel þekkt og því hafa vísindamenn getað dregið upp grófa mynd af þróunarsögu þeirra.
Uppruna hófdýra má rekja allt að 60 milljónir ára aftur í tímann eða frá því skömmu eftir að risaeðlur hurfu af yfirborði jarðar. Þá var kominn fram á sjónarsviðið ættbálkur hófdýra sem fræðimenn hafa gefið heitið murningar (Condylarthra). Elsta þekkta hófdýrið nefnist greifill (Hyracotherium). Þetta var forfaðir hestdýra og er stundum nefndur árhestur á íslensku. Hann var þó gjörólíkur hestum nútímans eins og lesa má um í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er hestur? Dýr þetta var á stærð við meðalstóran hund og hafði fimm tær. Þegar fram liðu stundir urðu hófdýr stærri að vexti og eins varð þriðja táin sífellt mikilvægari. Þróunin náði lengst meðal hesta þar sem þriðja táin er ein eftir.
Fyrsta þekkta hófdýrið, árhesturinn, var uppi fyrir um 60 milljónum ára.
Á eósen tímanum, fyrir um 35-55 milljónum ára, voru komnar fram margar ólíkar ættir innan ættbálks hófdýra og á míósen tímanum, fyrir um 5-23 milljónum ára, voru staktæð hófdýr ríkjandi grasbítar í Norður- og Suður-Ameríku og Asíu. Það er talið að aukin samkeppni við klaufdýr hafi getað leitt til þess að hófdýr tóku smám saman að víkja fyrir klaufdýrum á stærstu svæðunum. Þetta er þó enn mjög umdeilt meðal fræðimanna og mikið hefur verið rannsakað og ritað um þessa hnignun hófdýra í kjölfar aukinnar samkeppni, en vegna plássleysis verður beðið með að fjalla um það hér.
Talið er að nashyrningar hafi þróast frá dýrum sem nefnd hafa verið hnybbingar (Hyracodontidae). Þetta voru fremur lítil dýr sem komust hratt yfir en talið er að þau hafi ekki getað haldið velli í samkeppninni við frumhesta. Steingervingafræðingar ætla að fyrstu nashyrningarnir hafi komið fram fyrir um 40 milljónum ára. Fyrir nokkrum árum fundust í Wind Cave þjóðgarðinum í Bandaríkjunum steingervingaleifar nashyrnings sem var á stærð við kú og er talinn hafa verið uppi fyrir um 32 milljónum ára. Þessi nashyrningur, sem hefur verið á meðal frumstæðustu nashyrninga, tilheyrði ættkvísl sem kallast Subhyracodon en hún var uppi fyrir 30-39 milljónum ára.
Á löngum þróunartíma nashyrninga hafa komið fram dýr sem eru nokkuð ólík þeim nashyrningum sem nú eru uppi. Sem dæmi má nefna ættina Amynodontidae sem talin er vera hliðargrein út frá nashyrningum. Þessi dýr minntu mjög á núlifandi flóðhesta, voru til dæmis hornlaus og héldu til í vötnum. Þau höfðu talsverða útbreiðslu á norðurhveli jarðar á velmektartíma sínum.
Frumstæður nashyrningur af ættinni Amynodintidae sem talinn er hafa þróast frá hnybbingum líkt og nashyrningar nútímans.
Annar hópur útdauðra nashyrninga eru tröllasnar eða beljakar (Paracheratherium, líka nefndir Indricotherium) sem skera sig frá nútíma nashyrningum í útliti vegna gríðarlegrar stærðar sinnar. Þessir hornlausu nashyrningar gátu orðið allt að 5 metrar á hæð, 7 metrar á lengd og vógu sennilega vel yfir 15 tonn.
Af útdauðum nashyrningum má loks nefna loðnashyrninga (Coelodonta antiquitatis) sem komu fram á síðasta kuldaskeiði ísaldar og náðu mikilli útbreiðslu í Evrasíu.
Í dag eru til alls fimm tegundir nashyrninga sem tilheyra fjórum ættkvíslum og tveimur undirættum. Önnur undirættin er stakhyrningar (Rhinoceratinae) en henni tilheyra tvær tegundir, indverski (eða asíski) nashyrningurinn (Rhinoceros unicornis) og jövu-nashyrningurinn (Rhinoceros sondaicus). Eins og nöfn þeirra gefa til kynna eru báðar þessar tegundir í Asíu. Hin undirættin nefnist tvíhyrningar (Dicerorhinae) og telur hún þrjár tegundir, svarta nashyrninginn (Diceros bicornis), hvíta nashyrninginn (Ceratotherium simum) og súmötru nashyrninginn (Dicerorhinus sumatrensis). Tvær fyrr nefndu tegundirnar lifa í Afríku en sú síðastnefnda í Asíu.
Hvíti nashyrningurinn (Ceratotherium simum) er önnur tveggja nashyrningategunda í Afríku.
Þessar tvær þróunarlínur, það er stakhyrningar og tvíhyrningar, eru taldar komnar frá sameiginlegum forföður sem uppi var á ólígósen tímanum fyrir um 30 milljónum ára. Um er að ræða asíska tvíhorna nashyrninga sem síðan breiddust út til Afríku þar sem nú er að finna tvær af þremur tegundum tvíhorna nashyrninga eins og þegar hefur komið fram. Fyrir tæpum 5 milljónum ára voru tegundir í Afríku sem hafa verið nefndar surthyrningar (Diceorhinus) og langhyrningar (Ceratotherium praecox) á íslensku og virðast þær mynda skyldleikabrú á milli hinna tveggja núlifandi afrísku tegunda.
Þriðja tegund tvíhorna nashyrninga, súmötru-nashyrningurinn, þykir minna um margt á hina útdauðu loðnashyrninga og er talinn vera skyldastur þeim af núlifandi nashyrningum, jafnvel af sömu grein og sá loðni.
Af steingervingasögu nashyrninga má ráða að þeir hafa á undanförnum milljónum ára verið á miklu undanhaldi og getur sennilega fátt komið í veg fyrir að þeir muni verða aldauða í nánustu framtíð. Hvort sem það verður maðurinn sem endanlega gerir út af við nashyrninga eða bara framrás þróunarinnar verður ósagt látið, en menn hafa með gengdarlausri ofveiði og búsvæðaröskun flýtt mjög fyrir þróun í þessa átt. Í dag eru allar fimm tegundir nashyrninga í mikilli útrýmingarhættu þó ástandið hafi batnað mjög hjá hvíta nashyrningnum.
Heimildir og myndir:
Carter, D. C.. 1984. Perissodactyls. Orders and Families of Recent Mammals of the World. Anderson, S. og J. K. Jones, Jr. (ritstj.). John Wiley and Sons, N.Y. bls. 549-562.
Jón Már Halldórsson. „Hver er uppruni nashyrninga?“ Vísindavefurinn, 14. október 2005, sótt 19. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5330.
Jón Már Halldórsson. (2005, 14. október). Hver er uppruni nashyrninga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5330
Jón Már Halldórsson. „Hver er uppruni nashyrninga?“ Vísindavefurinn. 14. okt. 2005. Vefsíða. 19. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5330>.