Sólin Sólin Rís 08:54 • sest 18:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:18 • Sest 09:37 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:41 • Síðdegis: 19:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:33 • Síðdegis: 12:58 í Reykjavík

Hvað hafði Platon að segja um viskuna og þekkinguna?

Geir Þ. Þórarinsson

Í samræðunni Menon er rædd kenning sem er nátengd hugmyndum um ódauðleika og endurfæðingu sálarinnar, en það er upprifjunarkenningin svonefnda. Þeir Sókrates og Menon hafa verið að ræða um dygðina en Menon spyr Sókrates hvernig þeir geti búist við að leit þeirra að skilgreiningu muni bera árangur. Ef þeir þekkja ekki það sem þeir leita að munu þeir ekki bera kennsl á það þegar þeir finna það; en hefðu þeir þekkt það sem þeir leituðu að hefði leitin verið óþörf. Rök þessi eru stundum nefnd ógöngurökin eða Þverstæða Menons sem lesa má um í svari Ólafs Páls Jónssonar, Hvað eru ógöngurök?. Upprifjunarkenningunni er teflt fram gegn þessari þverstæðu en samkvæmt kenningunni er allt nám upprifjun. Þegar við lærum eitthvað erum við í raun og veru að rifja upp þekkingu sem blundaði þegar í sálinni. Þessa þekkingu hafði sálin öðlast meðan hún var ekki í jarðneskum líkama.

Í sömu samræðu skilgreinir Platon þekkingu sem sanna rökstudda skoðun. Það er að segja þegar við búum yfir þekkingu, þá höfum við skoðun og sú skoðun verður að vera sönn. Því er til dæmis ekki hægt að vita 7 + 5 séu 13, einfaldlega vegna þess að 7 + 5 eru ekki 13 heldur 12. En skoðunin verður einnig að vera rökstudd vegna þess að annars gæti sönn skoðun sem er ágiskun verið þekking. En ágiskun er ekki þekking; sá sem býr yfir þekkingu þarf ekki að giska því hann veit.


Í spurningakeppni eins og Gettu betur er gott og blessað að slysast á rétt svar. En ágiskun er ekki ekki þekking; þekking verður samkvæmt Platoni að vera bæði sönn og studd rökum.

Þess má geta að allt til ársins 1963 var það næsta viðtekin skoðun heimspekinga að sönn rökstudd skoðun væri þekking, en þá birti heimspekingurinn Edmund Gettier grein þar sem hann sýnir að hægt er að hafa sanna rökstudda skoðun án þess að búa yfir þekkingu. Greinina má nálgast hér. Einnig er hægt að lesa um þekkingu í svari Eyju Margrétar Brynjarsdóttur við spurningunni Hvað er þekking? Eigi að síður hafnaði Platon sjálfur skilgreiningunni í yngra riti sem heitir Þeætetos. Samræðan, sem er eitt glæsilegasta ritverk Platons, fjallar einmitt um þekkingu. Þeætetos leggur til þrjár skilgreiningar á þekkingu sem Sókrates tekur til skoðunar. Sú síðasta er einmitt að þekking sé sönn rökstudd skoðun og þótt ljóst sé að hún þyki langsamlega besta tillagan er henni hafnað þar sem ekki er nægilega ljóst hvernig rökstuðningurinn sem fylgir sannri skoðun þarf að vera til þess að tryggja að um réttnefnda þekkingu sé að ræða.

Í Menoni var gengið út frá greinarmuni á skoðun og þekkingu og þekking var sögð vera sönn rökstudd skoðun. Í Ríkinu er enn gerður greinarmunur á skoðun og þekkingu, en nú virðist Platon telja að ekki sé hægt að öðlast raunverulega þekkingu á hinum efnislega heimi heldur að einungis sé hægt að hafa brigðular skoðanir um hann; sönn þekking fáist aðeins á frummyndunum svokölluðu.


Hellislíking Platons. Mennirnir sem fastir eru inni í hellinum þekkja ekkert annað en skuggamyndirnar á veggnum. Þær eru aftur á móti ekkert nema eftirmyndir af raunveruleikanum, alveg eins og hlutir í hinum efnislega heimi eru eftirmyndir frummynda þeirra. Þær eru raunveruleikinn, og því er ekki hægt að öðlast þekkingu á neinu nema þeim. Myndin er frá 16. öld.

Frummyndakenning Platons er langþekktasta og mikilvægasta kenning hans, og fjallar jafnt um raunveruleika, þekkingu, merkingarmið sértækra hugtaka og grundvöll siðferðisins. Í sem stystu máli felst kenningin í því að hlutir í hinum efnislega heimi séu aðeins ófullkomnar eftirmyndir af raunverulegum frummyndum þeirra. Þannig eiga fagrir hlutir hlutdeild í frummynd fegurðarinnar, jafnlangir hlutir eiga hlutdeild í frummynd jöfnuðarins og svo framvegis. Frummyndirnar eru óefnislegar og handan tíma og rúms og því er ekki hægt að þekkja þær af skynreynslu heldur einungis í hugsuninni. Um þetta má lesa í svari sama höfundar við spurningunni Eru menn aðeins eftirmyndir af hinum fullkomna manni eða konu, líkt og málverk af stól er aðeins eftirmynd af einhverjum ákveðnum stól?

Grísku orðin sem eru þýdd þekking og viska eru episteme og sofia. Platon virðist líta á visku og þekkingu meira eða minna sem samheiti. Raunveruleg viska er þekking, óhagganleg og sönn. En viskan er einnig sögð vera dygð og hún er meira að segja ein af höfuðdygðunum fjórum en þær voru viska, hugrekki, hófsemi og réttlæti. Í Ríkinu er sálin borin saman við alréttlátt fyrirmyndarríki í þeim tilgangi að koma auga á í hverju réttlætið er fólgið. Hlutar sálarinnar eru þrír og stéttir ríkisins líka. Stéttirnar þrjár eru stjórnendur, varðmenn og almenningur en hlutar sálarinnar eru skynsemi, skap og löngun. Hverjum hluta og hverri stétt tilheyrir ein af höfuðdygðunum fjórum. Dygð almennings og löngunarhluta sálarinnar er hófsemi, dygð varðmannanna og skapsins er hugrekki en viskan er dygð stjórnendanna og skynsemishluta sálarinnar. Réttlætið er síðan fólgið í því að hver stétt eða hluti sálarinnar vinni sitt verk.

Heimildir og frekari fróðleikur

Á vefnum

Rit

 • Platón, Menon, Sveinbjörn Egilsson (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1985).
 • Platón, Ríkið, Eyjólfur Kjalar Emilsson (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991/1997).
 • Platón, Samdrykkjan, Eyjólfur Kjalar Emilsson (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1999).
 • Platón, Síðustu dagar Sókratesar, Sigurður Nordal og Þorsteinn Gylfason (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1983).
 • Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy IV: Plato: The Man and His Dialogues, Earlier Period (Cambridge: Cambridge University Press, 1975).
 • Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy V: The Later Plato and the Academy (Cambridge: Cambridge University Press, 1978).

Myndir

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

14.10.2005

Spyrjandi

Davíð Sigurþórsson

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað hafði Platon að segja um viskuna og þekkinguna?“ Vísindavefurinn, 14. október 2005. Sótt 24. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5332.

Geir Þ. Þórarinsson. (2005, 14. október). Hvað hafði Platon að segja um viskuna og þekkinguna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5332

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað hafði Platon að segja um viskuna og þekkinguna?“ Vísindavefurinn. 14. okt. 2005. Vefsíða. 24. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5332>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað hafði Platon að segja um viskuna og þekkinguna?
Í samræðunni Menon er rædd kenning sem er nátengd hugmyndum um ódauðleika og endurfæðingu sálarinnar, en það er upprifjunarkenningin svonefnda. Þeir Sókrates og Menon hafa verið að ræða um dygðina en Menon spyr Sókrates hvernig þeir geti búist við að leit þeirra að skilgreiningu muni bera árangur. Ef þeir þekkja ekki það sem þeir leita að munu þeir ekki bera kennsl á það þegar þeir finna það; en hefðu þeir þekkt það sem þeir leituðu að hefði leitin verið óþörf. Rök þessi eru stundum nefnd ógöngurökin eða Þverstæða Menons sem lesa má um í svari Ólafs Páls Jónssonar, Hvað eru ógöngurök?. Upprifjunarkenningunni er teflt fram gegn þessari þverstæðu en samkvæmt kenningunni er allt nám upprifjun. Þegar við lærum eitthvað erum við í raun og veru að rifja upp þekkingu sem blundaði þegar í sálinni. Þessa þekkingu hafði sálin öðlast meðan hún var ekki í jarðneskum líkama.

Í sömu samræðu skilgreinir Platon þekkingu sem sanna rökstudda skoðun. Það er að segja þegar við búum yfir þekkingu, þá höfum við skoðun og sú skoðun verður að vera sönn. Því er til dæmis ekki hægt að vita 7 + 5 séu 13, einfaldlega vegna þess að 7 + 5 eru ekki 13 heldur 12. En skoðunin verður einnig að vera rökstudd vegna þess að annars gæti sönn skoðun sem er ágiskun verið þekking. En ágiskun er ekki þekking; sá sem býr yfir þekkingu þarf ekki að giska því hann veit.


Í spurningakeppni eins og Gettu betur er gott og blessað að slysast á rétt svar. En ágiskun er ekki ekki þekking; þekking verður samkvæmt Platoni að vera bæði sönn og studd rökum.

Þess má geta að allt til ársins 1963 var það næsta viðtekin skoðun heimspekinga að sönn rökstudd skoðun væri þekking, en þá birti heimspekingurinn Edmund Gettier grein þar sem hann sýnir að hægt er að hafa sanna rökstudda skoðun án þess að búa yfir þekkingu. Greinina má nálgast hér. Einnig er hægt að lesa um þekkingu í svari Eyju Margrétar Brynjarsdóttur við spurningunni Hvað er þekking? Eigi að síður hafnaði Platon sjálfur skilgreiningunni í yngra riti sem heitir Þeætetos. Samræðan, sem er eitt glæsilegasta ritverk Platons, fjallar einmitt um þekkingu. Þeætetos leggur til þrjár skilgreiningar á þekkingu sem Sókrates tekur til skoðunar. Sú síðasta er einmitt að þekking sé sönn rökstudd skoðun og þótt ljóst sé að hún þyki langsamlega besta tillagan er henni hafnað þar sem ekki er nægilega ljóst hvernig rökstuðningurinn sem fylgir sannri skoðun þarf að vera til þess að tryggja að um réttnefnda þekkingu sé að ræða.

Í Menoni var gengið út frá greinarmuni á skoðun og þekkingu og þekking var sögð vera sönn rökstudd skoðun. Í Ríkinu er enn gerður greinarmunur á skoðun og þekkingu, en nú virðist Platon telja að ekki sé hægt að öðlast raunverulega þekkingu á hinum efnislega heimi heldur að einungis sé hægt að hafa brigðular skoðanir um hann; sönn þekking fáist aðeins á frummyndunum svokölluðu.


Hellislíking Platons. Mennirnir sem fastir eru inni í hellinum þekkja ekkert annað en skuggamyndirnar á veggnum. Þær eru aftur á móti ekkert nema eftirmyndir af raunveruleikanum, alveg eins og hlutir í hinum efnislega heimi eru eftirmyndir frummynda þeirra. Þær eru raunveruleikinn, og því er ekki hægt að öðlast þekkingu á neinu nema þeim. Myndin er frá 16. öld.

Frummyndakenning Platons er langþekktasta og mikilvægasta kenning hans, og fjallar jafnt um raunveruleika, þekkingu, merkingarmið sértækra hugtaka og grundvöll siðferðisins. Í sem stystu máli felst kenningin í því að hlutir í hinum efnislega heimi séu aðeins ófullkomnar eftirmyndir af raunverulegum frummyndum þeirra. Þannig eiga fagrir hlutir hlutdeild í frummynd fegurðarinnar, jafnlangir hlutir eiga hlutdeild í frummynd jöfnuðarins og svo framvegis. Frummyndirnar eru óefnislegar og handan tíma og rúms og því er ekki hægt að þekkja þær af skynreynslu heldur einungis í hugsuninni. Um þetta má lesa í svari sama höfundar við spurningunni Eru menn aðeins eftirmyndir af hinum fullkomna manni eða konu, líkt og málverk af stól er aðeins eftirmynd af einhverjum ákveðnum stól?

Grísku orðin sem eru þýdd þekking og viska eru episteme og sofia. Platon virðist líta á visku og þekkingu meira eða minna sem samheiti. Raunveruleg viska er þekking, óhagganleg og sönn. En viskan er einnig sögð vera dygð og hún er meira að segja ein af höfuðdygðunum fjórum en þær voru viska, hugrekki, hófsemi og réttlæti. Í Ríkinu er sálin borin saman við alréttlátt fyrirmyndarríki í þeim tilgangi að koma auga á í hverju réttlætið er fólgið. Hlutar sálarinnar eru þrír og stéttir ríkisins líka. Stéttirnar þrjár eru stjórnendur, varðmenn og almenningur en hlutar sálarinnar eru skynsemi, skap og löngun. Hverjum hluta og hverri stétt tilheyrir ein af höfuðdygðunum fjórum. Dygð almennings og löngunarhluta sálarinnar er hófsemi, dygð varðmannanna og skapsins er hugrekki en viskan er dygð stjórnendanna og skynsemishluta sálarinnar. Réttlætið er síðan fólgið í því að hver stétt eða hluti sálarinnar vinni sitt verk.

Heimildir og frekari fróðleikur

Á vefnum

Rit

 • Platón, Menon, Sveinbjörn Egilsson (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1985).
 • Platón, Ríkið, Eyjólfur Kjalar Emilsson (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991/1997).
 • Platón, Samdrykkjan, Eyjólfur Kjalar Emilsson (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1999).
 • Platón, Síðustu dagar Sókratesar, Sigurður Nordal og Þorsteinn Gylfason (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1983).
 • Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy IV: Plato: The Man and His Dialogues, Earlier Period (Cambridge: Cambridge University Press, 1975).
 • Guthrie, W.K.C., A History of Greek Philosophy V: The Later Plato and the Academy (Cambridge: Cambridge University Press, 1978).

Myndir

...