Sólin Sólin Rís 07:00 • sest 19:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:39 • Sest 07:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:17 • Síðdegis: 18:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:15 • Síðdegis: 12:28 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:00 • sest 19:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:39 • Sest 07:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:17 • Síðdegis: 18:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:15 • Síðdegis: 12:28 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er mismunur á launum kynjanna?

Þorgerður Einarsdóttir

Kannanir á kynbundnum launamun hérlendis á undanförnum árum sýna mismunandi niðurstöður þótt í þeim öllum komi fram að konur hafi að jafnaði lægri laun en karlar. Í könnunum af þessu tagi er annars vegar talað um óleiðréttan launamun (e. unadjusted wage gap) og hins vegar leiðréttan launamun (e. adjusted wage gap). Á Íslandi hafa orðin skýrður og óútskýrður launamunur einnig verið notuð um þessi hugtök. Í umræðu um launamuninn hefur því talsvert verið fjallað um aðferðafræði kannana; hvernig sé mælt, með hvaða aðferðum, hvaða forsendur liggi til grundvallar, hvað sé tekið með í reikninginn og hvernig beri að túlka. Af þessum sökum má segja að ekki sé til neitt einhlítt svar við því hver munurinn sé á launum kynjanna (Þorgerður Einarsdóttir og Kristjana Stella Blöndal 2004).

Oft er byrjað á að rýna í heildarmyndina (óleiðréttan launamun) og skoða muninn á atvinnutekjum karla og kvenna samkvæmt skattframtali. Miðað við útreikninga Baráttuhátíðar kvenna árið 2005 voru atvinnutekjur kvenna árið 2004 rúm 64% af atvinnutekjum karla. Gögn Hagstofu Íslands sýna að árið áður, það er árið 2003, var hlutfallið 62% (Hagstofa Íslands, 2004). Þessar tölur sýna einföldustu nálgunina og í þeim er ekki tekið tillit til þess að vinnutími karla í launaðri atvinnu er lengri en kvenna, né heldur að konur og karlar sinna ólíkum störfum. Þá er ekki tekið tillit til þess að karlar eru að jafnaði í hærri stöðum en konur. Kosturinn við að skoða atvinnutekjur kvenna og karla óleiðréttar á þennan hátt er að þær sýna mismunandi vinnuframlag kynjanna í launaðri og ólaunaðri vinnu í samfélaginu. Konur vinna mikla ólaunaða vinnu inni á heimilinu sem ekki er metin til launa. Þetta endurspeglast í atvinnutekjunum, en þær sýna hvað konur og karlar bera úr býtum launalega fyrir vinnuframlag sitt í þjóðfélaginu.


Konur hafa almennt lægri laun en karlar.

Í könnunum á kynbundnum launamun er þó almennt leitast við að leiðrétta launamuninn með tilliti til þátta eins og vinnutíma, menntunar eða starfs, aldurs eða starfsaldurs. Flestir samþykkja að eðlilegt sé að greidd séu mismunandi há laun eftir eðli starfa, menntun starfsmanna og starfsaldri. Hugmyndin að baki er að sá sem hefur menntun eða þjálfun til starfs skili meiru en sá sem ekki hefur það.

Einfaldasta leiðréttingin á launamun karla og kvenna er að taka tillit til vinnutíma. Sá mælikvarði hefur verið kallaður launabil kynjanna (e. gender pay gap), sem er meðaltímakaup eftir kyni (það er öll laun deilt með fjölda vinnustunda). Talan gefur til kynna hve mikið konur vantar til að hafa sama tímakaup og karlar. Þessi viðmiðun er mikið notuð í alþjóðlegum samanburði en tölunum er ekki safnað reglulega á Íslandi, eins og gert er í mörgum öðrum löndum. Árið 2000 mældist launabil kynjanna 24% í opinbera geiranum og 27% á almennum markaði. Það er í samræmi við tilhneigingu annars staðar að launamunur sé ívið meiri á almennum markaði en hjá hinu opinbera (Barth, Røed og Torp 2002).

Eitt af því sem skiptir meginmáli í slíkum könnunum er hvort laun karla eru notuð sem viðmið eða laun kvenna. Best er að skýra þetta með dæmi. Tveir einstaklingar, karl og kona, vinna sambærileg störf. Þau eru jafngömul og vinna jafn mikið og þar með ættu áhrifaþættir á laun þeirra að vera sambærilegir. Hann er með kr. 365.000 í heildarlaun en hún með kr. 290.000 og launamunurinn er því kr. 75.000. Ef karlmaðurinn væri viðmiðunarpunkturinn væri hægt að segja að konan hefði 21% lægri laun en hann (75/365*100=21%). Það þýðir að hann þyrfti að lækka um 21% í launum til að þau hefðu sömu laun. Ef laun hennar væru hins vegar viðmiðunarpunkturinn mætti segja að hann hafi 26% hærri laun en hún (75/290*100=26%). Það þýðir að konan þyrfti að hækka um 26% í launum til að þau hefðu jafnhá laun. Launamunurinn er vitanlega sá sami en prósentutalan er hærri ef laun konunnar er viðmiðið.

Það liggur í augum uppi að erfitt er að bera saman kannanir sem nota ólík viðmið. Almennt gildir að því fleiri skýribreytur sem teknar eru inn í reiknilíkön launakannana, því meira má skýra af launamun kynjanna. Ekki er þó alltaf réttlætanlegt að taka slíkar breytur með í reikninginn; vitað er að margir þættir hafa áhrif á laun án þess að þeir ættu að gera það. Þannig hafa hjúskaparstaða og barneignir jákvæð áhrif á laun karla en neikvæð eða engin áhrif á laun kvenna. Þá hafa fræðimenn gagnrýnt að nota málaflokka eða starfssvið sem skýribreytu því vitað er að kvennastörf eru verr metin til launa en karlastörf. Það er merki um mismunun á störfum, öðru kyninu í hag. Með því að taka slíka breytu sem málefnalega skýribreytu inn í reiknilíkan er horft fram hjá samfélagslegri kynjun og fyrri mismunun. Í raun er verið að skýra kynbundinn launamun í burtu með þáttum sem orsaka hann. Færð hafa verið fyrir því margvísleg rök fyrir því að of langt hafi verið gengið í leit að skýribreytum (Þorgerður Einarsdóttir og Kristjana Stella Blöndal 2004).

Mjög fáar kannanir hafa verið gerðar á Íslandi sem ná yfir allan vinnumarkaðinn og ná flestar aðeins yfir afmarkaða hluta svo sem heildarsamtök launafólks, einstök stéttarfélög, sveitarfélög eða vinnustaði. Nýjasta könnunin á almennum markaði er launakönnun Verzlunarmannafélags Reykjavíkur frá 2004 sem sýndi að karlar hafa 14% hærri laun þegar búið er að taka tillit til vinnutíma, aldurs, starfsaldurs, stéttar og menntunar. Launakönnun sem gerð var meðal starfsmanna í opinberri þjónustu (BHM, BSRB, KÍ) árið 2004 sýndi að meðal fólks í fullu starfi voru karlar í sambærilegum starfsstéttum og konur, á sambærilegum aldri, með samsvarandi menntun og vinnutíma með að jafnaði 17% hærri heildarlaun en konur (Heiður Hrund Jónsdóttir og Kristjana Stella Blöndal 2004, bls. 15). Þessar kannanir eru ekki að öllu leyti sambærilegar en gefa vísbendingar um hinn svokallaða leiðrétta launamun kynjanna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

  • Erling Barth, Marianne Røed og Hege Torp (2002). Towards a closing of the gender pay gap: A comparative study of three occupations in six European countries.
  • Heiður Hrund Jónsdóttir og Kristjana Stella Blöndal (2004). Starfskjarakönnun. Rannsókn á vegum Hagrannsóknastofnunar Samtaka launafólks í almannaþjónustu (HASLA). Reykjavík, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
  • Karlar og konur 2004 (2004). Reykjavík, Hagstofa Íslands.
  • Verzlunarmannafélag Reykjavíkur.
  • Kynbundinn launamunur. Tímaritið Vera.
  • Þorgerður Einarsdóttir og Kristjana Stella Blöndal (2004) „Kynbundinn launamunur. Umræðan um skýrðan og óútskýrðan launamun kynja í gagnrýnu ljósi”. Í: Irma Erlingsdóttir (ritstj.), Fléttur II. Kynjafræði – kortlagningar, bls. 247-271. Reykjavík, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum og Háskólaútgáfan.

Höfundur

prófessor í kynjafræði við HÍ

Útgáfudagur

24.10.2005

Síðast uppfært

22.5.2019

Spyrjandi

Guðrún Ólafsdóttir

Tilvísun

Þorgerður Einarsdóttir. „Hver er mismunur á launum kynjanna?“ Vísindavefurinn, 24. október 2005, sótt 18. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5350.

Þorgerður Einarsdóttir. (2005, 24. október). Hver er mismunur á launum kynjanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5350

Þorgerður Einarsdóttir. „Hver er mismunur á launum kynjanna?“ Vísindavefurinn. 24. okt. 2005. Vefsíða. 18. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5350>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er mismunur á launum kynjanna?
Kannanir á kynbundnum launamun hérlendis á undanförnum árum sýna mismunandi niðurstöður þótt í þeim öllum komi fram að konur hafi að jafnaði lægri laun en karlar. Í könnunum af þessu tagi er annars vegar talað um óleiðréttan launamun (e. unadjusted wage gap) og hins vegar leiðréttan launamun (e. adjusted wage gap). Á Íslandi hafa orðin skýrður og óútskýrður launamunur einnig verið notuð um þessi hugtök. Í umræðu um launamuninn hefur því talsvert verið fjallað um aðferðafræði kannana; hvernig sé mælt, með hvaða aðferðum, hvaða forsendur liggi til grundvallar, hvað sé tekið með í reikninginn og hvernig beri að túlka. Af þessum sökum má segja að ekki sé til neitt einhlítt svar við því hver munurinn sé á launum kynjanna (Þorgerður Einarsdóttir og Kristjana Stella Blöndal 2004).

Oft er byrjað á að rýna í heildarmyndina (óleiðréttan launamun) og skoða muninn á atvinnutekjum karla og kvenna samkvæmt skattframtali. Miðað við útreikninga Baráttuhátíðar kvenna árið 2005 voru atvinnutekjur kvenna árið 2004 rúm 64% af atvinnutekjum karla. Gögn Hagstofu Íslands sýna að árið áður, það er árið 2003, var hlutfallið 62% (Hagstofa Íslands, 2004). Þessar tölur sýna einföldustu nálgunina og í þeim er ekki tekið tillit til þess að vinnutími karla í launaðri atvinnu er lengri en kvenna, né heldur að konur og karlar sinna ólíkum störfum. Þá er ekki tekið tillit til þess að karlar eru að jafnaði í hærri stöðum en konur. Kosturinn við að skoða atvinnutekjur kvenna og karla óleiðréttar á þennan hátt er að þær sýna mismunandi vinnuframlag kynjanna í launaðri og ólaunaðri vinnu í samfélaginu. Konur vinna mikla ólaunaða vinnu inni á heimilinu sem ekki er metin til launa. Þetta endurspeglast í atvinnutekjunum, en þær sýna hvað konur og karlar bera úr býtum launalega fyrir vinnuframlag sitt í þjóðfélaginu.


Konur hafa almennt lægri laun en karlar.

Í könnunum á kynbundnum launamun er þó almennt leitast við að leiðrétta launamuninn með tilliti til þátta eins og vinnutíma, menntunar eða starfs, aldurs eða starfsaldurs. Flestir samþykkja að eðlilegt sé að greidd séu mismunandi há laun eftir eðli starfa, menntun starfsmanna og starfsaldri. Hugmyndin að baki er að sá sem hefur menntun eða þjálfun til starfs skili meiru en sá sem ekki hefur það.

Einfaldasta leiðréttingin á launamun karla og kvenna er að taka tillit til vinnutíma. Sá mælikvarði hefur verið kallaður launabil kynjanna (e. gender pay gap), sem er meðaltímakaup eftir kyni (það er öll laun deilt með fjölda vinnustunda). Talan gefur til kynna hve mikið konur vantar til að hafa sama tímakaup og karlar. Þessi viðmiðun er mikið notuð í alþjóðlegum samanburði en tölunum er ekki safnað reglulega á Íslandi, eins og gert er í mörgum öðrum löndum. Árið 2000 mældist launabil kynjanna 24% í opinbera geiranum og 27% á almennum markaði. Það er í samræmi við tilhneigingu annars staðar að launamunur sé ívið meiri á almennum markaði en hjá hinu opinbera (Barth, Røed og Torp 2002).

Eitt af því sem skiptir meginmáli í slíkum könnunum er hvort laun karla eru notuð sem viðmið eða laun kvenna. Best er að skýra þetta með dæmi. Tveir einstaklingar, karl og kona, vinna sambærileg störf. Þau eru jafngömul og vinna jafn mikið og þar með ættu áhrifaþættir á laun þeirra að vera sambærilegir. Hann er með kr. 365.000 í heildarlaun en hún með kr. 290.000 og launamunurinn er því kr. 75.000. Ef karlmaðurinn væri viðmiðunarpunkturinn væri hægt að segja að konan hefði 21% lægri laun en hann (75/365*100=21%). Það þýðir að hann þyrfti að lækka um 21% í launum til að þau hefðu sömu laun. Ef laun hennar væru hins vegar viðmiðunarpunkturinn mætti segja að hann hafi 26% hærri laun en hún (75/290*100=26%). Það þýðir að konan þyrfti að hækka um 26% í launum til að þau hefðu jafnhá laun. Launamunurinn er vitanlega sá sami en prósentutalan er hærri ef laun konunnar er viðmiðið.

Það liggur í augum uppi að erfitt er að bera saman kannanir sem nota ólík viðmið. Almennt gildir að því fleiri skýribreytur sem teknar eru inn í reiknilíkön launakannana, því meira má skýra af launamun kynjanna. Ekki er þó alltaf réttlætanlegt að taka slíkar breytur með í reikninginn; vitað er að margir þættir hafa áhrif á laun án þess að þeir ættu að gera það. Þannig hafa hjúskaparstaða og barneignir jákvæð áhrif á laun karla en neikvæð eða engin áhrif á laun kvenna. Þá hafa fræðimenn gagnrýnt að nota málaflokka eða starfssvið sem skýribreytu því vitað er að kvennastörf eru verr metin til launa en karlastörf. Það er merki um mismunun á störfum, öðru kyninu í hag. Með því að taka slíka breytu sem málefnalega skýribreytu inn í reiknilíkan er horft fram hjá samfélagslegri kynjun og fyrri mismunun. Í raun er verið að skýra kynbundinn launamun í burtu með þáttum sem orsaka hann. Færð hafa verið fyrir því margvísleg rök fyrir því að of langt hafi verið gengið í leit að skýribreytum (Þorgerður Einarsdóttir og Kristjana Stella Blöndal 2004).

Mjög fáar kannanir hafa verið gerðar á Íslandi sem ná yfir allan vinnumarkaðinn og ná flestar aðeins yfir afmarkaða hluta svo sem heildarsamtök launafólks, einstök stéttarfélög, sveitarfélög eða vinnustaði. Nýjasta könnunin á almennum markaði er launakönnun Verzlunarmannafélags Reykjavíkur frá 2004 sem sýndi að karlar hafa 14% hærri laun þegar búið er að taka tillit til vinnutíma, aldurs, starfsaldurs, stéttar og menntunar. Launakönnun sem gerð var meðal starfsmanna í opinberri þjónustu (BHM, BSRB, KÍ) árið 2004 sýndi að meðal fólks í fullu starfi voru karlar í sambærilegum starfsstéttum og konur, á sambærilegum aldri, með samsvarandi menntun og vinnutíma með að jafnaði 17% hærri heildarlaun en konur (Heiður Hrund Jónsdóttir og Kristjana Stella Blöndal 2004, bls. 15). Þessar kannanir eru ekki að öllu leyti sambærilegar en gefa vísbendingar um hinn svokallaða leiðrétta launamun kynjanna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd

  • Erling Barth, Marianne Røed og Hege Torp (2002). Towards a closing of the gender pay gap: A comparative study of three occupations in six European countries.
  • Heiður Hrund Jónsdóttir og Kristjana Stella Blöndal (2004). Starfskjarakönnun. Rannsókn á vegum Hagrannsóknastofnunar Samtaka launafólks í almannaþjónustu (HASLA). Reykjavík, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
  • Karlar og konur 2004 (2004). Reykjavík, Hagstofa Íslands.
  • Verzlunarmannafélag Reykjavíkur.
  • Kynbundinn launamunur. Tímaritið Vera.
  • Þorgerður Einarsdóttir og Kristjana Stella Blöndal (2004) „Kynbundinn launamunur. Umræðan um skýrðan og óútskýrðan launamun kynja í gagnrýnu ljósi”. Í: Irma Erlingsdóttir (ritstj.), Fléttur II. Kynjafræði – kortlagningar, bls. 247-271. Reykjavík, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum og Háskólaútgáfan.
...