Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaHugvísindiMálvísindi: íslenskÉg heyrði því fleygt að það væri ekki málfræðilega rangt að segja "mjúkastur" og "góðastur", heldur væri þetta gömul og úrelt stigbreyting orðanna?
Í málfræðibókum yfir forna málið er hvergi minnst á að orðið mjúkur sé án hljóðvarps í miðstigi og efsta stigi. Sama gildir um góður að eingöngu er getið miðstigsins betri og efsta stigsins bestur. Í bók Björns Karels Þórólfssonar, Íslenzkar orðmyndir á 14. og 15. öld, þar sem rætt er um breytingar á orðmyndum frá forna málinu er ekki heldur minnst á mjúkari og góðari. Sama gildir um eina elstu íslensku málfræðina, Grammatica Islandica, sem Jón Magnússon skrifaði á 18. öld og Jón Axel Harðarson þýddi og gaf út 1997. Þessar orðmyndir hafa því ekki talist réttar.
Rétt er þó að geta þess að óhljóðverpta myndin af mjúkur þekkist úr prentuðum ritum. Í seðlasafni Orðabókarinnar eru tvö dæmi til frá 16. öld. Í öðru er sagt "mjúkari enn nockurt vax" og í hinni "Virðist oss það vera mildgast og mjúkast." Eitt dæmi fannst frá 17. öld: "ad koma Historiunne i miukare Stijl." Örfá yngri dæmi eru síðan í safninu frá 19. og 20. öld. Þessi dæmi er hægt að skoða á heimasíðu Orðabókarinnar, www.lexis.hi.is. Einu dæmin sem fundust um stigbreytinguna góðari–góðastur eru í samböndunum "góðasti Hansen" og "Berðu þig að þegja, góðasti, ef þú getur" en í báðum er um áhrif frá dönsku að ræða.
Guðrún Kvaran. „Ég heyrði því fleygt að það væri ekki málfræðilega rangt að segja "mjúkastur" og "góðastur", heldur væri þetta gömul og úrelt stigbreyting orðanna?“ Vísindavefurinn, 4. nóvember 2005, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5383.
Guðrún Kvaran. (2005, 4. nóvember). Ég heyrði því fleygt að það væri ekki málfræðilega rangt að segja "mjúkastur" og "góðastur", heldur væri þetta gömul og úrelt stigbreyting orðanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5383
Guðrún Kvaran. „Ég heyrði því fleygt að það væri ekki málfræðilega rangt að segja "mjúkastur" og "góðastur", heldur væri þetta gömul og úrelt stigbreyting orðanna?“ Vísindavefurinn. 4. nóv. 2005. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5383>.