Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Örnefnið Sprengisandur er að minnsta kosti þekkt frá 1476 (elsta handrit frá 1820-30), úr dómi um Holtamanna- og Landmannaafrétt, þar sem segir: “millum Túnár og Spreingisands” (Ísl. fornbréfasafn VI:81). Sandurinn er vafalaust kenndur við örnefnið Sprengir sem var líklega slétt sandsvæði, vestur af sunnanverðu Fjórðungsvatni (Landið þitt IV:147-150). Þar hafa menn riðið svo hratt að legið hefur við að hestar væru sprengdir.
Sprengisandur.
Sprengir er til sem sendið valllendi á Skeiðum í Árnessýslu þar sem eru góðar reiðgötur og var áður hluti gamla vegarins. Nafnið er víðar að finna. Í Arnarbæli í Grímsnesi er klettabelti eða klettarani sem kallast Sprengir. Þar nærri eru Sprengirsflatir sem talið er að hafi verið leikvöllur til forna. Sprengir er stór slétta í túninu í Ögri við Ísafjarðardjúp. Sagt er að fyrr á öldum hafi ungir menn hlaupið svo við leiki þar að þeim lá við að sprengja sig. Sprengir er einnig í Hellisholtum í Hrunamannahreppi í Árnessýslu og í Fjósum í Mýrdal í Vestur-Skaftafellssýslu.
Sprengisandur er örnefni á Geirlandi á Síðu þar sem oft var sprett úr spori, og á Sprengisandi á Hamarsheiði í Gnúpverjahreppi í Árnessýslu var oft riðið hratt. Örnefnið er einnig þekkt á Búlandsseli í Vestur-Skaftafellssýslu, í Skálmarbæ í Álftaveri og í Grindavík.
Heimild og mynd:
Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. Landið þitt Ísland. Reykjavík 1984.
Íslenzkt fornbréfasafn, Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafjelag 1857-.
Svavar Sigmundsson. „Hvaðan er nafnið á Sprengisandi komið?“ Vísindavefurinn, 7. nóvember 2005, sótt 3. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5386.
Svavar Sigmundsson. (2005, 7. nóvember). Hvaðan er nafnið á Sprengisandi komið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5386
Svavar Sigmundsson. „Hvaðan er nafnið á Sprengisandi komið?“ Vísindavefurinn. 7. nóv. 2005. Vefsíða. 3. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5386>.