Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða 'flanki' er á Flankastöðum?

Svavar Sigmundsson

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Flankastaðir eru bær í Miðneshreppi í Gullbringusýslu. Þeir eru nefndir í skrá um rekaskipti á Rosmhvalanesi frá um 1270, skrifað "flankastader", en í afritum bæði "flangastader" og"flantastader". Bæjarnafnið er einnig ritað "flankastader" í skrá um hvalskipti á sama stað og frá sama tíma (Ísl. fornbréfasafn II:77 og 79).

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er skrifað Flangastader (II:62). Þannig er nafnið ritað hjá sr. Magnúsi Grímssyni, sem skrifaði greinina Fornminjar um Reykjanessskaga (ÍB 72 fol.) sem prentuð var í Landnámi Ingólfs II:247 (Reykjavík 1936-40). Í sóknarlýsingu Útskálaprestakalls 1839 eftir Sigurð B. Sívertsen er hvorttveggja nefnt, Flanka- og Flangastaðir, en höfundur notar Flankastaðir í lýsingunni (sama rit III:163-164).

Í Landnámu eru nefndir Flangastaðir í Vestur-Skaftafellssýslu (Ísl. fornrit I:300) en ekki er ljóst hvort það er bæjarnafn eða ekki. Örnefnið er nú týnt en uppi á Síðuheiðum eru Flangir, mýrlendi og Flangaháls (Kålund II:315). Auk þessa er Flangi hátt klettasker á Grundarfirði, Flangagil í landi Þórdísarstaða í Eyrarsveit í Snæfellssýslu og Flangey er eyja á Hornafirði í Austur-Skaftafellssýslu.

Spurningin er hvort er upphaflegra, Flanka- eða Flangastaðir. Ásgeir Blöndal Magnússon nefnir í orðsifjabók sinni að hvorugkynsorðið flank merki ‘flakk’ og sögnin flanka ‘flakka, flækjast um’. Orðið flangi merki hinsvegar ‘lausagopi, æringi’, samanber meðal annars að á nýnorsku er flange ‘stór og óviðfelldinn maður’. Ásgeir nefnir þann möguleika að myndir með -nk- séu staðbundnar framburðarmyndir af orðunum með -ng- (bls. 186).

Samkvæmt orðabók Björns Halldórssonar frá 18. öld merkir flankari ‘en forfængelig person, en Laps’ eða ‘spjátrungur’ (Ný útgáfa. Reykjavík 1992, bls. 145). Þórhallur Vilmundarson nefnir þá skýringu að flangi gæti merkt ‘kápa’ samanber merkingina ‘kjóll’ í orðinu flange í norsku, og að norski fræðimaðurinn Magnus Olsen hugsaði sér nafnliðinn dreginn af norska orðinu flong ‘stór hella’. Finnur Jónsson prófessor taldi að orðið flangi væri viðurnefni manns, ef til vill skylt flengja eða tengt flange í nýnorsku, og E.H. Lind taldi að það merkti ‘ósæmilegur maður’ (Grímnir 1:82). Líklegra verður að telja að upphaflega myndin sé Flanka-, samanber nútímamyndina, og flanki = flankari merki ‘spjátrungur’ og sé viðurnefni manns.

Heimild:
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans, 1995.
  • Björn Halldórsson. Orðabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans, 1992.
  • Grímnir: rit um nafnafræði. Reykjavík: Örnefnastofnun Þjóðminjasafns, 1980-.
  • Íslenzkt fornbréfasafn. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1857-.
  • Kristian Kålund. Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island. Kaupmannahöfn, 1879-82.
  • Landnám Ingólfs. Reykjavík, 1936-40.

Höfundur

Svavar Sigmundsson

fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar

Útgáfudagur

17.11.2005

Spyrjandi

Hulda Guðnadóttir

Tilvísun

Svavar Sigmundsson. „Hvaða 'flanki' er á Flankastöðum?“ Vísindavefurinn, 17. nóvember 2005, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5414.

Svavar Sigmundsson. (2005, 17. nóvember). Hvaða 'flanki' er á Flankastöðum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5414

Svavar Sigmundsson. „Hvaða 'flanki' er á Flankastöðum?“ Vísindavefurinn. 17. nóv. 2005. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5414>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða 'flanki' er á Flankastöðum?
Flankastaðir eru bær í Miðneshreppi í Gullbringusýslu. Þeir eru nefndir í skrá um rekaskipti á Rosmhvalanesi frá um 1270, skrifað "flankastader", en í afritum bæði "flangastader" og"flantastader". Bæjarnafnið er einnig ritað "flankastader" í skrá um hvalskipti á sama stað og frá sama tíma (Ísl. fornbréfasafn II:77 og 79).

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er skrifað Flangastader (II:62). Þannig er nafnið ritað hjá sr. Magnúsi Grímssyni, sem skrifaði greinina Fornminjar um Reykjanessskaga (ÍB 72 fol.) sem prentuð var í Landnámi Ingólfs II:247 (Reykjavík 1936-40). Í sóknarlýsingu Útskálaprestakalls 1839 eftir Sigurð B. Sívertsen er hvorttveggja nefnt, Flanka- og Flangastaðir, en höfundur notar Flankastaðir í lýsingunni (sama rit III:163-164).

Í Landnámu eru nefndir Flangastaðir í Vestur-Skaftafellssýslu (Ísl. fornrit I:300) en ekki er ljóst hvort það er bæjarnafn eða ekki. Örnefnið er nú týnt en uppi á Síðuheiðum eru Flangir, mýrlendi og Flangaháls (Kålund II:315). Auk þessa er Flangi hátt klettasker á Grundarfirði, Flangagil í landi Þórdísarstaða í Eyrarsveit í Snæfellssýslu og Flangey er eyja á Hornafirði í Austur-Skaftafellssýslu.

Spurningin er hvort er upphaflegra, Flanka- eða Flangastaðir. Ásgeir Blöndal Magnússon nefnir í orðsifjabók sinni að hvorugkynsorðið flank merki ‘flakk’ og sögnin flanka ‘flakka, flækjast um’. Orðið flangi merki hinsvegar ‘lausagopi, æringi’, samanber meðal annars að á nýnorsku er flange ‘stór og óviðfelldinn maður’. Ásgeir nefnir þann möguleika að myndir með -nk- séu staðbundnar framburðarmyndir af orðunum með -ng- (bls. 186).

Samkvæmt orðabók Björns Halldórssonar frá 18. öld merkir flankari ‘en forfængelig person, en Laps’ eða ‘spjátrungur’ (Ný útgáfa. Reykjavík 1992, bls. 145). Þórhallur Vilmundarson nefnir þá skýringu að flangi gæti merkt ‘kápa’ samanber merkingina ‘kjóll’ í orðinu flange í norsku, og að norski fræðimaðurinn Magnus Olsen hugsaði sér nafnliðinn dreginn af norska orðinu flong ‘stór hella’. Finnur Jónsson prófessor taldi að orðið flangi væri viðurnefni manns, ef til vill skylt flengja eða tengt flange í nýnorsku, og E.H. Lind taldi að það merkti ‘ósæmilegur maður’ (Grímnir 1:82). Líklegra verður að telja að upphaflega myndin sé Flanka-, samanber nútímamyndina, og flanki = flankari merki ‘spjátrungur’ og sé viðurnefni manns.

Heimild:
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans, 1995.
  • Björn Halldórsson. Orðabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans, 1992.
  • Grímnir: rit um nafnafræði. Reykjavík: Örnefnastofnun Þjóðminjasafns, 1980-.
  • Íslenzkt fornbréfasafn. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1857-.
  • Kristian Kålund. Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island. Kaupmannahöfn, 1879-82.
  • Landnám Ingólfs. Reykjavík, 1936-40.
...