Sólin Sólin Rís 11:08 • sest 15:33 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:06 • Sest 03:07 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:24 • Síðdegis: 13:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:38 • Síðdegis: 20:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:08 • sest 15:33 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:06 • Sest 03:07 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:24 • Síðdegis: 13:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:38 • Síðdegis: 20:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er vitað um ævi skáldkonunnar Saffóar?

Geir Þ. Þórarinsson

Í raun er afar lítið vitað með vissu um ævi Saffóar. Margt af því sem við teljum okkur vita byggir á því sem fram kemur í kvæðum hennar en deilt er um hversu áreiðanlegar sjálfsævisögulegar upplýsingar eru í fornum kveðskap. Það er að segja, þótt skáldið fullyrði eitthvað um sjálft sig eða gefi í skyn í kvæðum sínum er ekki þar með sagt að þannig hafi það verið, auk þess sem oft er óljóst hvað ber að lesa úr ljóðunum. Aðrar ævisögulegar upplýsingar um Saffó eru jafnvel enn óáreiðanlegri.

Saffó var samtímamaður gríska skáldsins Alkajosar. Hún fæddist á grísku eyjunni Lesbos seint á 7. öld f.Kr. en óvíst er hvenær hún lést. Faðir Saffóar á að hafa heitið Skamandrónýmos en móðir hennar Kleis. Af kvæðum hennar að dæma átti hún þrjá bræður, var lágvaxin, dökkhærð og ekkert sérstaklega fögur. Vera má að Saffó hafi orðið að flýja Lesbos ung að árum og mun þá hafa ferðast til Sikileyjar en mun þó hafa snúið aftur til Lesbos og búið þar til æviloka. Í fornu alfræðiriti, Suda, segir að hún hafi gifst Kerkýlasi nokkrum frá Andros en fornfræðingar hafa dregið mjög í efa að Kerkýlas þessi hafi verið til. Nafnið Kerkýlas kemur hvergi fyrir annars staðar og virðist myndað af orðinu „kerkos“, sem þýðir „typpi“, þá er nafn eyjunnar dregið af orðinu „aner“, sem þýðir „karlmaður“. Kerkýlas frá Andros gæti því heitið á íslensku Limur frá Karley og hlýtur að teljast ósennilegt að hann hafi verið raunveruleg persóna.

Mynd af skáldunum Alkajosi og Saffó frá 5. öld f. Kr. Þau halda bæði á lýrum.

Hvernig svo sem því var háttað virðist Saffó hafa átt dótturina Kleis, sem Saffó nefnir í ljóðum sínum, en stúlkan virðist hafa dáið ung. Í nýlega uppgötvuðu kvæðabroti segir hún (í þýðingu Helga Hálfdanarsonar, Lesbók Morgunblaðsins 10. september 2005, bls. 3): „Ég sjálf, sem eitt sinn var svo frá á fæti, er föl af elli, svarta hárið gránað.“ Saffó virðist því hafa náð háum aldri ef mark er takandi á kvæðinu. Ein sagan um hana er á þá leið að hún hafi orðið ástfangin að ungum manni, Faoni, sem endurgalt ekki ástina og í ástarsorg hafi hún hent sér fyrir björg en sagan er nær áreiðanlega ósönn líkt og aðrar áþekkar sögur.

Á 19. öld og snemma á 20. öld var útbreidd sú hugmynd að Saffó hafi starfrækt skóla fyrir stúlkur á Lesbos en þó er öldungis óvíst hvort um eiginlegan skóla hafi verið að ræða; það kann að vera að hún hafi haft starfa af því að mennta ungar stúlkur en um meira að segja það eru fáar eða engar haldbærar vísbendingar. Mörgum öldum síðar var farið að líta svo á að Saffó hafi verið samkynhneigð og þaðan er komið orðið „lesbía“ fyrir samkynhneigðar konur en það þýðir bókstaflega kona frá Lesbos. Það er þó alveg óvíst hvort Saffó hafi í raun verið samkynhneigð. Sum af varðveittum brotum kvæða hennar gefa það til kynna, til dæmis þar sem skáldið ákallar ástargyðjuna Afródítu og biður hana að hjálpa sér að ná ástum ungrar stúlku.

Saffó samdi svonefnd lýrísk kvæði en það eru kvæði undir flóknum bragarháttum sem voru að öllum líkindum sungin við undirleik hljóðfæra svo sem lýru. Einn af lýrísku bragarháttunum er nefndur eftir henni, saffóarháttur, en hún orti þó undir fleiri bragarháttum en honum. Mállýskan á kvæðunum er æólíska en það er sú mállýska sem var töluð á Lesbos. Saffó þótti eitt albesta skáld Grikkja og meðal aðdáenda hennar má nefna sagnaritarann Heródótos og heimspekinginn Platon. Fræðimenn í Alexandríu á 4. og 3. öld f.Kr. töldu hana til lýrísku skáldanna níu sem voru þau lýrísku skáld sem þeir töldu best, eins konar úrvalslið lýrískra skálda. Af varðveittum brotum að dæma virðast mörg kvæðanna hafa verið afar persónuleg og fjölluðu þau meðal annars um ástina og tilfinningalíf skáldsins; en Saffó samdi einnig kórljóð sem stúlknakórar sungu við ýmis hátíðartækifæri, meðal annars brúðkaup. Efni kórljóðanna var oft úr grísku goðsögunum.

Kvæði Saffóar fylltu níu bækur í útgáfu alexandrísku fræðimannanna en því miður hefur nær ekkert af kvæðunum varðveist í heild sinni. Brotin eru þó misheilleg og sum umtalsverð. Þau eru ýmist varðveitt á sefpappír (papýrus) sem fundist hefur á 19. og 20. öld eða í tilvitnunum hjá öðrum höfundum. Þess má geta að eitt af kvæðum rómverska skáldsins Catullusar (nr. 51) er lausleg þýðing á kvæði (nr. 31) eftir Saffó. Nokkur brotanna hafa birst í íslenskri þýðingu.

Heimildir og frekari fróðleikur:
  • Greene, Ellen (ritstj.), Reading Sappho: Contemporary Approaches (Los Angeles og Berkeley: University of California Press, 1996).
  • Greene, Ellen (ritstj.), Re-Reading Sappho: Reception and Transmission (Los Angeles og Berkeley: University of California Press, 1996).
  • Lesky, Albin, A history of Greek literature. James Willis og Cornelis de Heer (þýð.) (London: Methuen, 1966).

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

10.11.2009

Síðast uppfært

28.4.2020

Spyrjandi

Hrafnhildur Edda Magnúsdóttir, f. 1993

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað er vitað um ævi skáldkonunnar Saffóar?“ Vísindavefurinn, 10. nóvember 2009, sótt 10. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=54160.

Geir Þ. Þórarinsson. (2009, 10. nóvember). Hvað er vitað um ævi skáldkonunnar Saffóar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=54160

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvað er vitað um ævi skáldkonunnar Saffóar?“ Vísindavefurinn. 10. nóv. 2009. Vefsíða. 10. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=54160>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er vitað um ævi skáldkonunnar Saffóar?
Í raun er afar lítið vitað með vissu um ævi Saffóar. Margt af því sem við teljum okkur vita byggir á því sem fram kemur í kvæðum hennar en deilt er um hversu áreiðanlegar sjálfsævisögulegar upplýsingar eru í fornum kveðskap. Það er að segja, þótt skáldið fullyrði eitthvað um sjálft sig eða gefi í skyn í kvæðum sínum er ekki þar með sagt að þannig hafi það verið, auk þess sem oft er óljóst hvað ber að lesa úr ljóðunum. Aðrar ævisögulegar upplýsingar um Saffó eru jafnvel enn óáreiðanlegri.

Saffó var samtímamaður gríska skáldsins Alkajosar. Hún fæddist á grísku eyjunni Lesbos seint á 7. öld f.Kr. en óvíst er hvenær hún lést. Faðir Saffóar á að hafa heitið Skamandrónýmos en móðir hennar Kleis. Af kvæðum hennar að dæma átti hún þrjá bræður, var lágvaxin, dökkhærð og ekkert sérstaklega fögur. Vera má að Saffó hafi orðið að flýja Lesbos ung að árum og mun þá hafa ferðast til Sikileyjar en mun þó hafa snúið aftur til Lesbos og búið þar til æviloka. Í fornu alfræðiriti, Suda, segir að hún hafi gifst Kerkýlasi nokkrum frá Andros en fornfræðingar hafa dregið mjög í efa að Kerkýlas þessi hafi verið til. Nafnið Kerkýlas kemur hvergi fyrir annars staðar og virðist myndað af orðinu „kerkos“, sem þýðir „typpi“, þá er nafn eyjunnar dregið af orðinu „aner“, sem þýðir „karlmaður“. Kerkýlas frá Andros gæti því heitið á íslensku Limur frá Karley og hlýtur að teljast ósennilegt að hann hafi verið raunveruleg persóna.

Mynd af skáldunum Alkajosi og Saffó frá 5. öld f. Kr. Þau halda bæði á lýrum.

Hvernig svo sem því var háttað virðist Saffó hafa átt dótturina Kleis, sem Saffó nefnir í ljóðum sínum, en stúlkan virðist hafa dáið ung. Í nýlega uppgötvuðu kvæðabroti segir hún (í þýðingu Helga Hálfdanarsonar, Lesbók Morgunblaðsins 10. september 2005, bls. 3): „Ég sjálf, sem eitt sinn var svo frá á fæti, er föl af elli, svarta hárið gránað.“ Saffó virðist því hafa náð háum aldri ef mark er takandi á kvæðinu. Ein sagan um hana er á þá leið að hún hafi orðið ástfangin að ungum manni, Faoni, sem endurgalt ekki ástina og í ástarsorg hafi hún hent sér fyrir björg en sagan er nær áreiðanlega ósönn líkt og aðrar áþekkar sögur.

Á 19. öld og snemma á 20. öld var útbreidd sú hugmynd að Saffó hafi starfrækt skóla fyrir stúlkur á Lesbos en þó er öldungis óvíst hvort um eiginlegan skóla hafi verið að ræða; það kann að vera að hún hafi haft starfa af því að mennta ungar stúlkur en um meira að segja það eru fáar eða engar haldbærar vísbendingar. Mörgum öldum síðar var farið að líta svo á að Saffó hafi verið samkynhneigð og þaðan er komið orðið „lesbía“ fyrir samkynhneigðar konur en það þýðir bókstaflega kona frá Lesbos. Það er þó alveg óvíst hvort Saffó hafi í raun verið samkynhneigð. Sum af varðveittum brotum kvæða hennar gefa það til kynna, til dæmis þar sem skáldið ákallar ástargyðjuna Afródítu og biður hana að hjálpa sér að ná ástum ungrar stúlku.

Saffó samdi svonefnd lýrísk kvæði en það eru kvæði undir flóknum bragarháttum sem voru að öllum líkindum sungin við undirleik hljóðfæra svo sem lýru. Einn af lýrísku bragarháttunum er nefndur eftir henni, saffóarháttur, en hún orti þó undir fleiri bragarháttum en honum. Mállýskan á kvæðunum er æólíska en það er sú mállýska sem var töluð á Lesbos. Saffó þótti eitt albesta skáld Grikkja og meðal aðdáenda hennar má nefna sagnaritarann Heródótos og heimspekinginn Platon. Fræðimenn í Alexandríu á 4. og 3. öld f.Kr. töldu hana til lýrísku skáldanna níu sem voru þau lýrísku skáld sem þeir töldu best, eins konar úrvalslið lýrískra skálda. Af varðveittum brotum að dæma virðast mörg kvæðanna hafa verið afar persónuleg og fjölluðu þau meðal annars um ástina og tilfinningalíf skáldsins; en Saffó samdi einnig kórljóð sem stúlknakórar sungu við ýmis hátíðartækifæri, meðal annars brúðkaup. Efni kórljóðanna var oft úr grísku goðsögunum.

Kvæði Saffóar fylltu níu bækur í útgáfu alexandrísku fræðimannanna en því miður hefur nær ekkert af kvæðunum varðveist í heild sinni. Brotin eru þó misheilleg og sum umtalsverð. Þau eru ýmist varðveitt á sefpappír (papýrus) sem fundist hefur á 19. og 20. öld eða í tilvitnunum hjá öðrum höfundum. Þess má geta að eitt af kvæðum rómverska skáldsins Catullusar (nr. 51) er lausleg þýðing á kvæði (nr. 31) eftir Saffó. Nokkur brotanna hafa birst í íslenskri þýðingu.

Heimildir og frekari fróðleikur:
  • Greene, Ellen (ritstj.), Reading Sappho: Contemporary Approaches (Los Angeles og Berkeley: University of California Press, 1996).
  • Greene, Ellen (ritstj.), Re-Reading Sappho: Reception and Transmission (Los Angeles og Berkeley: University of California Press, 1996).
  • Lesky, Albin, A history of Greek literature. James Willis og Cornelis de Heer (þýð.) (London: Methuen, 1966).

Mynd:...