Sólin Sólin Rís 09:19 • sest 17:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:08 • Síðdegis: 19:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:57 • Síðdegis: 13:22 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:19 • sest 17:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:08 • Síðdegis: 19:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:57 • Síðdegis: 13:22 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getur skynjunin gefið okkur raunverulega þekkingu á veröldinni kringum okkur?

Atli Harðarson

Öll þekking okkar á veröldinni virðist byggja á skynjun. En einhvers konar þekkingar er þörf til að meta það áreiti sem skynfærin bera okkur og vinna úr því eiginlega skynjun sem hugsað og talað verður um. Þá virðumst við stödd í vítahring þar sem skynjun byggir á þekkingu og þekking á skynjun. Þann vítahring má brjóta með því að gera ráð fyrir einhverri meðfæddri þekkingu, sambærilegri við eðlishvatir dýra.

Ég geri ráð fyrir að spyrjandi fallist á að menn geti ekki aflað upplýsinga um veröldina í kringum sig án þess að nota skynfærin. Ég veit til dæmis að það er gulur köttur úti í garði hjá mér vegna þess að ég hann gegnum gluggann. Það er því freistandi að svara þessari spurningu með einföldu jái. En þar sem ég er heimspekingur ætla ég samt að teygja lopann dálítið.

Þegar rætt er um skynjun er stundum átt við einhvers konar hrá, ótúlkuð áreiti og stundum skynjun á staðreyndum. Hugsum okkur að steinaldarmaður komi í heimsókn til mín og hann hafi engin kynni haft af nútímatækni. Hann gæti heyrt símhringingu innan úr næsta herbergi. Hann yrði fyrir sams konar áreiti og ég en hann heyrði ekki að síminn hringir. Skynjun hans væri í einhverjum skilningi sú sama og mín en hann skynjaði samt ekki þá staðreynd að einhver er að reyna að ná símasambandi. Til að skynja hana þarf að vita að svona hljóð berast frá símtækinu þegar hringt er í það. Skynjun á staðreynd er ekki bara ótúlkað áreiti heldur afrakstur af samspili slíks áreitis, minninga, vitneskju og hæfileika af ýmsu tagi.

Það sem steinaldarmaðurinn skynjar þegar síminn hringir er samt ekki bara ótúlkað, hrátt áreiti. Ef hann heyrir t.d. að hljóðið endurtekur sig þá hlýtur minnið að gegna einhverju hlutverki. Það er ekki hægt að heyra að hringing hljómar í annað sinn nema muna fyrri hringinguna í smástund. Við upplifum hringingu númer tvö þó ekki þannig að okkur finnist við rifja upp hvernig sú fyrri var og bera saman við þá seinni. Áður en skynjun vistast í minni eða verður meðvituð þannig að við getum t.d. sagt frá henni vinnur taugakerfið úr henni og lagar hana til á ýmsa vegu sem við gerum okkur litla grein fyrir. Við upplifum skynjanir ekki sem ótúlkuð áreiti heldur sem staðreyndir. Til dæmis heyrir steinaldarmaðurinn þá staðreynd að sams konar hljóð endurtekur sig nokkrum sinnum þegar ég heyri að síminn hringir.

Ef spurningin um hvort skynjun gefi okkur raunverulega þekkingu er skilin sem spurning um hvort skynjun ein og sér, þ.e. ótúlkuð áreiti, dugi til að öðlast þekkingu liggur svarið ekki í augum uppi. Þekkingu á staðreyndum, sem hægt er að tjá með orðum, er trúlega ekki hægt að öðlast án þess að styðjast við ýmislega vitneskju og hæfileika til viðbótar við skynfærin. Okkur þykir nokkuð til um kunnáttu manna sem geta séð að jarðvegur er basískur eða að hraun hefur runnið fyrir lok ísaldar. Til að skynja þetta þarf vísindalega þekkingu. Hins vegar veitum við því enga athygli dags daglega að við þurfum að styðjast við minni og hæfileika til að telja til að geta heyrt að síminn hringir þrisvar. Við hugleiðum líka sjaldan hvaða vitneskju um veröldina þarf að hafa til að sjá að það er gulur köttur í garðinum. Til að sjá þetta þarf þó að vita að til eru kettir, að glugginn er í raun og veru gagnsær (en ekki t.d. hugvitsamlega gerður sjónvarpsskjár) og ótalmargt fleira sem okkur þykir yfirleitt of sjálfsagt til að hafa orð á því.

Ein afleiðing alls þessa er að því meira sem menn vita um veröldina í kringum sig því meiri þekkingu getur skynjunin fært þeim. Og nú má spyrja hvernig það geti farið saman að allar upplýsingar manna um heiminn séu fengnar með skynjun og að skynjanir færi þeim enga vitneskju nema þeir hafi fyrir einhverja hæfileika til að túlka þær og vinna úr þeim. Ef þessir hæfileikar til úrvinnslu og túlkunar krefjast þekkingar þá erum við komin í hring: Til að öðlast þekkingu þarf að skynja staðreyndir og til að skynja staðreyndir þarf að hafa þekkingu. Ein leið til að brjótast út úr þessum hring er að gera ráð fyrir að einhverjir hæfileikar til að túlka áreiti og vinna úr þeim séu meðfæddir.

Kötturinn í garðinum hjá mér hefur meðfædda tilhneigingu til að bregðast öðru vísi við þegar hann rekst á mús heldur en þegar hann gengur fram á stein. Þetta stuðlar að því að hann nærist og auki kyn sitt. Við getum orðað þetta svo að eðlishvatir hans séu í þokkalegu samræmi við dæmigert umhverfi og hagsmuni katta. Ef þær væru það ekki þá er hætt við að kötturinn dæi áður en hann næði að eignast jafn ruglaða erfingja. Náttúruvalið sér dýrunum fyrir hæfileikum til að bregðast við aðstæðum á þann hátt sem hentar þeim og ef til vill getur þróunarkenningin skýrt hvernig menn hafa öðlast eðlishvatir og meðfædda hæfileika til að túlka áreiti og vinna úr þeim þannig að þekking geti orðið til þegar umhverfið ertir skynfærin.

Höfundur

heimspekingur og kennari við Fjölbrautaskóla Vesturlands

Útgáfudagur

20.6.2000

Spyrjandi

Júlíus Einar Halldórsson

Efnisorð

Tilvísun

Atli Harðarson. „Getur skynjunin gefið okkur raunverulega þekkingu á veröldinni kringum okkur?“ Vísindavefurinn, 20. júní 2000, sótt 3. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=542.

Atli Harðarson. (2000, 20. júní). Getur skynjunin gefið okkur raunverulega þekkingu á veröldinni kringum okkur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=542

Atli Harðarson. „Getur skynjunin gefið okkur raunverulega þekkingu á veröldinni kringum okkur?“ Vísindavefurinn. 20. jún. 2000. Vefsíða. 3. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=542>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getur skynjunin gefið okkur raunverulega þekkingu á veröldinni kringum okkur?
Öll þekking okkar á veröldinni virðist byggja á skynjun. En einhvers konar þekkingar er þörf til að meta það áreiti sem skynfærin bera okkur og vinna úr því eiginlega skynjun sem hugsað og talað verður um. Þá virðumst við stödd í vítahring þar sem skynjun byggir á þekkingu og þekking á skynjun. Þann vítahring má brjóta með því að gera ráð fyrir einhverri meðfæddri þekkingu, sambærilegri við eðlishvatir dýra.

Ég geri ráð fyrir að spyrjandi fallist á að menn geti ekki aflað upplýsinga um veröldina í kringum sig án þess að nota skynfærin. Ég veit til dæmis að það er gulur köttur úti í garði hjá mér vegna þess að ég hann gegnum gluggann. Það er því freistandi að svara þessari spurningu með einföldu jái. En þar sem ég er heimspekingur ætla ég samt að teygja lopann dálítið.

Þegar rætt er um skynjun er stundum átt við einhvers konar hrá, ótúlkuð áreiti og stundum skynjun á staðreyndum. Hugsum okkur að steinaldarmaður komi í heimsókn til mín og hann hafi engin kynni haft af nútímatækni. Hann gæti heyrt símhringingu innan úr næsta herbergi. Hann yrði fyrir sams konar áreiti og ég en hann heyrði ekki að síminn hringir. Skynjun hans væri í einhverjum skilningi sú sama og mín en hann skynjaði samt ekki þá staðreynd að einhver er að reyna að ná símasambandi. Til að skynja hana þarf að vita að svona hljóð berast frá símtækinu þegar hringt er í það. Skynjun á staðreynd er ekki bara ótúlkað áreiti heldur afrakstur af samspili slíks áreitis, minninga, vitneskju og hæfileika af ýmsu tagi.

Það sem steinaldarmaðurinn skynjar þegar síminn hringir er samt ekki bara ótúlkað, hrátt áreiti. Ef hann heyrir t.d. að hljóðið endurtekur sig þá hlýtur minnið að gegna einhverju hlutverki. Það er ekki hægt að heyra að hringing hljómar í annað sinn nema muna fyrri hringinguna í smástund. Við upplifum hringingu númer tvö þó ekki þannig að okkur finnist við rifja upp hvernig sú fyrri var og bera saman við þá seinni. Áður en skynjun vistast í minni eða verður meðvituð þannig að við getum t.d. sagt frá henni vinnur taugakerfið úr henni og lagar hana til á ýmsa vegu sem við gerum okkur litla grein fyrir. Við upplifum skynjanir ekki sem ótúlkuð áreiti heldur sem staðreyndir. Til dæmis heyrir steinaldarmaðurinn þá staðreynd að sams konar hljóð endurtekur sig nokkrum sinnum þegar ég heyri að síminn hringir.

Ef spurningin um hvort skynjun gefi okkur raunverulega þekkingu er skilin sem spurning um hvort skynjun ein og sér, þ.e. ótúlkuð áreiti, dugi til að öðlast þekkingu liggur svarið ekki í augum uppi. Þekkingu á staðreyndum, sem hægt er að tjá með orðum, er trúlega ekki hægt að öðlast án þess að styðjast við ýmislega vitneskju og hæfileika til viðbótar við skynfærin. Okkur þykir nokkuð til um kunnáttu manna sem geta séð að jarðvegur er basískur eða að hraun hefur runnið fyrir lok ísaldar. Til að skynja þetta þarf vísindalega þekkingu. Hins vegar veitum við því enga athygli dags daglega að við þurfum að styðjast við minni og hæfileika til að telja til að geta heyrt að síminn hringir þrisvar. Við hugleiðum líka sjaldan hvaða vitneskju um veröldina þarf að hafa til að sjá að það er gulur köttur í garðinum. Til að sjá þetta þarf þó að vita að til eru kettir, að glugginn er í raun og veru gagnsær (en ekki t.d. hugvitsamlega gerður sjónvarpsskjár) og ótalmargt fleira sem okkur þykir yfirleitt of sjálfsagt til að hafa orð á því.

Ein afleiðing alls þessa er að því meira sem menn vita um veröldina í kringum sig því meiri þekkingu getur skynjunin fært þeim. Og nú má spyrja hvernig það geti farið saman að allar upplýsingar manna um heiminn séu fengnar með skynjun og að skynjanir færi þeim enga vitneskju nema þeir hafi fyrir einhverja hæfileika til að túlka þær og vinna úr þeim. Ef þessir hæfileikar til úrvinnslu og túlkunar krefjast þekkingar þá erum við komin í hring: Til að öðlast þekkingu þarf að skynja staðreyndir og til að skynja staðreyndir þarf að hafa þekkingu. Ein leið til að brjótast út úr þessum hring er að gera ráð fyrir að einhverjir hæfileikar til að túlka áreiti og vinna úr þeim séu meðfæddir.

Kötturinn í garðinum hjá mér hefur meðfædda tilhneigingu til að bregðast öðru vísi við þegar hann rekst á mús heldur en þegar hann gengur fram á stein. Þetta stuðlar að því að hann nærist og auki kyn sitt. Við getum orðað þetta svo að eðlishvatir hans séu í þokkalegu samræmi við dæmigert umhverfi og hagsmuni katta. Ef þær væru það ekki þá er hætt við að kötturinn dæi áður en hann næði að eignast jafn ruglaða erfingja. Náttúruvalið sér dýrunum fyrir hæfileikum til að bregðast við aðstæðum á þann hátt sem hentar þeim og ef til vill getur þróunarkenningin skýrt hvernig menn hafa öðlast eðlishvatir og meðfædda hæfileika til að túlka áreiti og vinna úr þeim þannig að þekking geti orðið til þegar umhverfið ertir skynfærin....