Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Esperanto er eitt margra tungumála sem búin hafa verið til í því skyni að verða hlutlaust alheimssamskiptamál, það er mál sem allir kunna, en enginn hefur að móðurmáli. Esperanto hefur hins vegar náð langsamlega mestri útbreiðslu, og valda því einkum eiginleikar málsins sjálfs, það er hversu auðlært það er, og þó notadrjúgt.
Esperanto var búið var til af pólska augnlækninum Ludwik Lejzer Zamenhof (1859-1917) árið 1887, til þess að leysa tungumálavanda heimsins. Í því sambandi var Zamenhof ofarlega í huga fjandskapur milli þjóða og þjóðarbrota, sem hann taldi stafa að miklu leyti af skorti á gagnkvæmum skilningi, sem aftur stafaði af því að menn gætu ekki talað saman á sameiginlegu tungumáli. Einnig horfa esperantistar mjög til þess að leysa tungumálavanda í fjölþjóðlegum samskiptum, svo sem hjá fjölþjóðlegum stofnunum eða stórfyrirtækjum, án þess að leggja út í óhóflegan kostnað eða fórna tungumálalegu jafnræði. Þá líta margir svo á, að landlaust og hlutlaust samskiptamál sé ólíklegra til þess að ryðja úr vegi tungumálum sem eiga undir högg að sækja, heldur en tungumál stórþjóða og öflugrar menningar.
Ludwik Lejzer Zamenhof
Fjöldi esperantista er ákaflega umdeildur, og er gjarna talað um allt frá 100 þúsund upp í 2 milljónir. Því veldur meðal annars að "esperantisti" er skilgreint með ýmsum hætti. Stundum er einungis átt við þá sem eru á einhvern hátt virkir í esperantohreyfingunni eða notkun málsins, en aðrir telja alla þá sem einhvern tíma hafa lært eitthvað hrafl í málinu.
Svo mikið er víst, að esperanto-samfélagið er mjög virkt. Á esperanto er gefinn út fjöldi blaða og tímarita, og í seinni tíð vefmiðlar. Árleg alþjóðaþing alþjóða esperantosambandsins eru haldin víða um heim (Gautaborg 2003, Peking 2004, Vilníus 2005, Flórens 2006), og sækja þau oftast 1.500-3.000 manns (tæplega 6.000 manns sóttu alþjóðaþingið í Varsjá á 100 ára afmæli málsins, 1987). Mikill fjöldi bóka er skrifaður á esperanto, og mun fleira þýtt, til dæmis var Brennu-Njálssaga (Sagao de Njal) gefin út á esperanto 2003 í þýðingu Baldurs Ragnarssonar.
Lausleg leit með Google finnur 1,5 milljónir vefsíðna á esperanto, miðað við 1,9 milljónir á íslensku og 49 milljónir á þýsku.
Frekari upplýsingar er meðal annars að finna á vef íslenska esperantosambandsins.
Mynd:www.nigra-kato.de
Steinþór Sigurðsson. „Hvenær var esperanto búið til og hvað eru til margir esperantistar í heiminum?“ Vísindavefurinn, 22. nóvember 2005, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5422.
Steinþór Sigurðsson. (2005, 22. nóvember). Hvenær var esperanto búið til og hvað eru til margir esperantistar í heiminum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5422
Steinþór Sigurðsson. „Hvenær var esperanto búið til og hvað eru til margir esperantistar í heiminum?“ Vísindavefurinn. 22. nóv. 2005. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5422>.