Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Saga dáleiðslu hófst á 18. öld með læknisfræðitilraunum Austurríkismannsins Franz Antons Mesmers (1734-1815) og eftir nafni hans er orðið 'mesmerize' dregið, en það þýðir 'að dáleiða'. Upphaflega reyndi Mesmer að lækna ýmiss konar sjúkdóma með því að leggja segla við þau svæði líkamans þar sem fólk kenndi sér einhvers meins. Seinna komst hann svo á þá skoðun að menn byggju líka yfir einhvers konar segulmögnun sem hann kallaði lífræna segulmögnun (e. animal magnetism). Í stað seglanna gæti hann því læknað fólk með því að leggja hendur sínar yfir sýktu svæðin eftir flóknu kerfi. Við þetta komst fólk í einhvers konar leiðsluástand sem virtist raunverulega lina þjáningar þess. Þetta óvenjulega vitundarástand er nú ekki lengur talið stafa af lífrænni segulmögnun og er nú nefnt að vera dáleiddur. Lesa má meira um það í svari Rúnars Helga Andrasonar við spurningunni Hvað er dáleiðsla?
Allt frá tímum Mesmers hefur dáleiðsla verið sveipuð ákveðinni dulúð enda kannski ekki svo skrýtið þar sem menn skilja virkni hennar ekki til fulls. Vitað er að hún getur verið til margs nytsamleg, til að mynda getur hún linað sársauka fólks sem ekki má eða vill taka hefðbundin verkjalyf. Aftur á móti eru líka ýmsar gróusögur um hana á kreiki sem ekki eiga við rök að styðjast. Ein þeirra er að dáleiðsla sé leiðin að einhvers konar ofurminni, að fólk geti jafnvel endurupplifað löngu gleymda atburði frá því í æsku sinni. Sé þetta rétt ætti ekkert að vera í vegi fyrir að nota dáleiðslu í réttarsalnum til að auðvelda vitnum að rifja upp hin minnstu smáatriði um glæpi. Í Bandaríkjunum hefur þetta raunar verið gert; fyrsta dæmið er frá árinu 1846 þegar dáleiðsla var notuð í vitnaleiðslu í morðmáli.
Vissulega virðist dáleitt fólk rifja upp ýmislegt sem það mundi ekki áður og það hefur fulla trú á að minningarnar séu hárnákvæmar. Þegar grennslast er nánar fyrir um þetta kemur samt annað í ljós. Flest bendir til að það sem fólk rifjar upp undir dáleiðslu geti það allt eins munað undir venjulegum kringumstæðum. Ennfremur virðast minningar dáleidds fólks oft vera afar skekktar, jafnvel tilbúningur einn. Eitt slíkt vitni taldi sig til að mynda muna eftir að hafa séð sakborning taka þátt í árás þegar raunin var að sakborningurinn var ekki einu sinni á landinu þegar atburðurinn átti sér stað. Fleiri svipuð dæmi eru til, bæði innan réttarsalarins og utan.
Það sem virðist eiga sér stað er að dáleiðsla gerir fólk afar tilbúið til að þóknast dávaldinum og reynir því að segja og gera það sem það heldur að hann ætlist til af sér. Þegar það er viljandi eða óviljandi spurt leiðandi spurninga um tiltekin atriði getur fólk því myndað falskar minningar um eitthvað sem ekki gerðist og jafnvel bætt við þær ýmsum smáatriðum. Ef til að mynda væri spurt hvort fólk kannist við tiltekinn sakborning gæti það sagst þekkja hann en líka jafnvel lýst fötunum sem hann klæddist umræddan dag og sagt frá hvernig hann hagaði sér. Ekkert af þessu þyrfti þó að vera rétt. Af þessum sökum er nú sjaldan tekið mark á vitnisburði dáleiddra vitna.
Heimildir og mynd
Gleitman, H., Fridlund, A. J. og Reisberg, D. (1999). Psychology (5. útgáfa). New York: Norton.
Leahey, T. H. (2004). A history of psychology: Main currents in psychological thought (6. útgáfa). Upper Saddle River, NY: Pearson Prentice Hall.
Neath, I. og Surprenant, A. M. (2003). Human memory (2. útgáfa). Belmont, CA: Wadsworth.
Heiða María Sigurðardóttir. „Hvers vegna er dáleiðsla ekki notuð í dómsal?“ Vísindavefurinn, 25. nóvember 2005, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5435.
Heiða María Sigurðardóttir. (2005, 25. nóvember). Hvers vegna er dáleiðsla ekki notuð í dómsal? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5435
Heiða María Sigurðardóttir. „Hvers vegna er dáleiðsla ekki notuð í dómsal?“ Vísindavefurinn. 25. nóv. 2005. Vefsíða. 13. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5435>.