Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sorpbrennslur eru nánast jafn misjafnar og þær eru margar en þó má fullyrða að sorpbrennslur í hinum vestræna heimi séu að öllu jöfnu litlir mengunarvaldar. Hins vegar var sú tíðin fyrir nokkrum áratugum að hreinsibúnaður var nánast enginn. Þess í stað voru skorsteinar hafðir nógu háir til að mengun bærist langt í burtu og þynntist nægjanlega til að hennar yrði ekki jafn vart.
Í dag má segja að frá sorpbrennslum komi þrír úrgangsstraumar: Í fyrsta lagi botnaska sem eru þá afgangar sem ekki brenna. Í öðru lagi svifaska/flugaska sem er fíngert ryk úr hreinsivirkjum og úr kötlum þar sem framleitt er heitt vatn. Og að síðustu útblástur úr skorsteini sem er að mestu koltvísýrlingur og vatnsgufa.
Botnöskuna er að öllu jöfnu hægt að nota sem fyllingarefni undir vegi eða í hafnargerð og jafnvel sem íblöndunarefni í steypu þó algengast sé að urða þetta efni á venjulegum urðunarstað. Svifaskan er hins vegar venjulega skilgreind sem spilliefni og því þarf oft að meðhöndla hana áður en hún er urðuð.
Því er oft haldið fram að sorpbrennslur séu miklir mengunarvaldar þar sem þær séu uppspretta díoxín mengunar. Líklega hefur svo verið hér áður fyrr, en nútíma sorpbrennslur eru þannig úr garði gerðar að díoxín mengun er ekki mælanleg frá þeim. Hér á landi hafa farið fram umfangsmiklar og dýrar tímamóta mælingar á díoxín mengun við gömlu sorpbrennslustöðina á Suðurnesjum. Sú stöð var byggð árið 1979, löngu á undan öllum kröfum um nútíma mengunarvarnabúnað, og notuð allt fram á síðasta ár. Ekki hefur fundist díoxín í neinum mæli í þessum rannsóknum, í það minnsta ekki í þeim mæli að ástæða hafi verið til aðgerða eða að styrkurinn væri hættulegur. Hafa ber í huga að bakgrunnsrannsóknir á styrk díoxíns í íslenskri náttúru hafa ekki farið fram.
Sorpbrennslur eru ein tæknileg lausn við förgun úrgangs, en koma þó ekki alfarið í veg fyrir að þörf sé á urðunarstað. Gera má ráð fyrir að öskustraumar séu um 20% af því magni sem fer inn í sorpbrennslustöð. Í sorpbrennslustöðvum er hægt að framleiða rafmagn og varma (líka saman) og því geta þær hentað mjög vel þar sem sú orka getur komið í stað orku frá jarðefnaeldsneyti. Þetta hefur til dæmis gefist vel í Danmörku þar sem ekki er annarri orku til að dreifa en frá kolum og olíu. Sorpbrennslur geta líka átt fullan rétt á sér þar sem landrými er lítið eða viðkvæmt eins og til dæmis á Suðurnesjum, við Ísafjörð og í Vestmannaeyjum. Hins vegar eru sorpbrennslur dýrar bæði í uppsetningu og rekstri.
Björn H. Halldórsson. „Eru sorpbrennslur sem framleiða orku (rafmagn eða hita vatn) mjög miklir mengunarvaldar?“ Vísindavefurinn, 30. nóvember 2005, sótt 12. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5445.
Björn H. Halldórsson. (2005, 30. nóvember). Eru sorpbrennslur sem framleiða orku (rafmagn eða hita vatn) mjög miklir mengunarvaldar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5445
Björn H. Halldórsson. „Eru sorpbrennslur sem framleiða orku (rafmagn eða hita vatn) mjög miklir mengunarvaldar?“ Vísindavefurinn. 30. nóv. 2005. Vefsíða. 12. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5445>.