Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Rómverjar notuðu þræla til margvíslegra starfa og skylmingaþrælar voru einungis ein stétt þræla. Upphaflega voru þrælar tiltölulega fáir, þrældómur hjá Rómverjum var þá einhvers konar skuldaánauð auk þess sem foreldrar gátu selt börn sín í þrældóm til þess að losna undan skuldum. Þessu var þó takmörk sett því að í tólf taflna lögunum frá miðri 5. öld f.Kr. segir að selji faðir son sinn í þrældóm þrisvar sinnum skuli sonurinn laus undan valdi föður síns. Þrælum fjölgaði frá og með 2. öld f.Kr. og við lok 1. aldar f.Kr. voru þrælar um þriðjungur af íbúum Ítalíu. Langflestir þrælar voru hnepptir í ánauð þegar Rómverjar lögðu undir sig önnur lönd, það er að segja þeir voru færðir til Rómar sem stríðsfangar og seldir þar í þrældóm. Svo fæddust líka nýjar kynslóðir í ánauð því að börn ambátta töldust vera þrælar óháð því hver faðirinn var.
Þrælar unnu meðal annars í námum og landbúnaði, við ýmis framleiðslu- og þjónustustörf, í vændi og inni á heimilum fólks. Í raun var þræla að finna í nánast öllum starfsgreinum nema opinberum embættum. Vel menntaðir þrælar voru meðal annars eftirsóttir kennarar barna, læknar og arkítektar. Stundum voru þrælar í opinberri eigu, annaðhvort í eigu borgarinnar eða ríkisins, og voru þá ef til vill nýttir til þess að leggja vegi eða reisa opinber mannvirki. Námu- og landbúnaðarþrælar bjuggu sennilega við verstu aðstæðurnar. Námuvinna var afar hættuleg og lífslíkur þeirra sem unnu í námunum voru ekki miklar. Landbúnaðarþrælar unnu gjarnan á stórbýlum (latifundia) og voru hlekkjaðir saman og brennimerktir til þess að koma í veg fyrir að þeir gætu strokið.
Mósaíkmynd frá Karþagó sem sýnir þræla bera fram mat í veislu. Myndin er frá þriðju öld.
Á lýðveldistímanum gerðu þrælar stundum uppreisnir en fáar slíkar á keisaratímanum. Stærstu uppreisnirnar voru á Sikiley árið 136-132 f.Kr. og 104-101 f.Kr. og á Ítalíu 73-71 f.Kr. Þá síðastnefndu leiddi skylmingaþrællinn Spartacus frá Þrakíu en um 70 þúsund þrælar tóku þátt í uppreisninni, sem rómverski herinn barði niður með erfiðismunum.
Stundum hlutu þrælar frelsi og urðu svonefndir frelsingjar. Það gerðist annaðhvort með þeim hætti að eigandi þeirra veitti þeim frelsi eða þá að þeir náðu að safna nægu fé til þess að kaupa sér frelsi. Meðal þekktra frelsingja má nefna skáldið og þýðandann Livius Andronicus, sem fyrstur samdi bókmenntir á latínu, gamanleikjaskáldið Publius Terentius Afer og Lucius Cornelius Chrysogonus, sem verið hafði þræll herforingjans og alræðismannsins Luciusar Corneliusar Súllu. Frelsingjar töldust rómverskir borgarar en höfðu ekki pólitísk réttindi. Börn frelsingja urðu hins vegar frjálsir rómverskir borgarar með full borgararéttindi. Meðal þekktra barna frelsingja má nefna rómverska skáldið Quintius Horatius Flaccus.
Mynd:
Geir Þ. Þórarinsson. „Voru þrælar í Róm til forna notaðir í annað en að vera skylmingaþrælar?“ Vísindavefurinn, 15. desember 2009, sótt 14. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=54483.
Geir Þ. Þórarinsson. (2009, 15. desember). Voru þrælar í Róm til forna notaðir í annað en að vera skylmingaþrælar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=54483
Geir Þ. Þórarinsson. „Voru þrælar í Róm til forna notaðir í annað en að vera skylmingaþrælar?“ Vísindavefurinn. 15. des. 2009. Vefsíða. 14. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=54483>.