Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Endurvinnslustöðvar fyrir pappír eru jafn mismunandi eins og þær eru margar. Í hinum vestræna heimi eru í gildi strangar reglur sem kveða á um meðhöndlun mengandi efna og ber pappírsframleiðendum, eins og öðrum, að fara þeim. Hér á landi er enginn pappírsiðnaður og því sendir til dæmis SORPA dagblöð, tímarit og skrifstofupappír til Svíþjóðar í endurvinnslu, þar sem fyrirtækið Il Recycling tekur við þessum efnum. Il Recycling sendir efnið síðan áfram til nokkurra fyrirtækja í Svíþjóð, meðal annars SCA í Lilla Edet, en þar er til dæmis framleiddur salernispappír og eldhúspappír (vörumerkin Edet og Tork).
Nánast öll mannleg starfsemi hefur áhrif á umhverfið og getur valdið mengun. Spurningin er hins vegar hvort sú mengun sé ásættanleg og hvort sú aðferð sem notuð er valdi minni eða meiri mengun en ef eitthvað annað væri gert við úrganginn. Hér á landi stendur valið um það hvort pappír er urðaður, brenndur eða fluttur út til endurvinnslu. Þá er spurningin hver þessara aðferða veldur minnstum umhverfisáhrifum og er um leið fjárhagslega ásættanleg.
Flest bendir til að endurvinnsla á pappír sé hagkvæmari fyrir umhverfið en aðrar aðferðir við förgun pappírs.
Almennt er það niðurstaða erlendra athugana að endurvinnsla á pappír í nýjan pappír sé hagkvæmari fyrir umhverfið (sjá til dæmis skýrslu frá KTH í Svíþjóð: Robusta och flexibla strategier för utnyttjande av energi ur avfall). Hér á landi hafa ekki farið fram miklar rannsóknir á þessu; þó eru tvö verkefni sem vert er að minnast á. Annars vegar líftímagreining mismunandi úrgangslausna sem meðal annars var gerð fyrir FENÚR (Fagráð um ENdurvinnslu og ÚRgang, sjá www.fenur.is) og hins vegar líftímagreining meðhöndlunar á umbúðum sem gerð var fyrir Úrvinnslusjóð.
Líftímagreining, einnig kölluð vistferilgreining (e. Life Cycle Analysis, LCA), felst í því að kanna hugsanlegan umhverfislegan ávinning eða tap af einhverju ferli eða vöruframleiðslu. Líftími ferilsins (vörunnar) er greindur þannig að hægt sé að ákvarða umhverfisáhrif frá upphafi til enda.
Þó svo athugun Úrvinnslusjóðs hafi beinst að pappa en ekki pappír má í flestum tilfellum leggja þessa tvo efnisflokka að jöfnu þegar kemur að endurvinnslu. Þó svo að líftímagreining sé ekki þróuð aðferð eru vísbendingar um að endurvinnsla sé umhverfislega hagkvæmari en aðrar aðferðir við förgun.
Við þetta má bæta að við endurvinnslu á pappír er yfirleitt notað ákveðið hlutfall af frumunnu efni (úr nytjaskógum) á móti ákveðnu hlutfall af endurvinnsluefni (sjá svar við spurningunni Hvernig er pappír endurunninn? eftir sama höfund). Notkun á endurvinnsluefni (til dæmis dagblöð, tímarit, skrifstofupappír) leiðir til minni orkunotkunar þar sem vinnsla þess er raunverulega styttra ferli en vinnslan á frumunna efninu. Vissulega skapar flutningur á endurvinnsluefni einhverja loftmengun en það gerir flutningur á trjám, skógarhögg og vinnsla timbursins einnig. Að öllu jöfnu er talað um að það sé minni loftmengun frá endurvinnslu á pappír en frá vinnslu á pappír úr frumunnu efni. Einnig er talað um að efnamengun sé minni (Miller, 2000. Living in the environment).
Mynd:Pulp and Paper Technology
Björn H. Halldórsson. „Eru endurvinnslustöðvar fyrir pappír umhverfismengandi?“ Vísindavefurinn, 9. desember 2005, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5472.
Björn H. Halldórsson. (2005, 9. desember). Eru endurvinnslustöðvar fyrir pappír umhverfismengandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5472
Björn H. Halldórsson. „Eru endurvinnslustöðvar fyrir pappír umhverfismengandi?“ Vísindavefurinn. 9. des. 2005. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5472>.