Sólin Sólin Rís 05:54 • sest 21:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:29 • Síðdegis: 24:02 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:26 í Reykjavík

Hver er uppruni jólakattarins?

Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir

Ekki er til neitt einfalt og öruggt svar við þessari spurningu en það er einmitt það sem gerir jólaköttinn svo dularfullan og áhugaverðan. Aftur á móti eru til ýmsar heimildir sem gefa okkur vísbendingar um hvaðan þessi skepna gæti verið komin.

Jólakötturinn er einn af mörgum svipuðum jólavættum sem þekkst hafa í Evrópu á liðnum öldum. Hlutverk þessara vætta er sameiginlegt: Að fylgjast með jólaundirbúningi manna og sjá til þess þeir klári öll verk sem vinna þarf fyrir jólin, hvort sem það er að prjóna og vinna fatnað, baka, brugga eða útbúa jólamatinn. Ef það tekst ekki refsa vættirnar fólki, samanber orðtakið „að fara í jólaköttinn“ sem samkvæmt heimildamönnum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns þýðir eitthvað miður gott. Fræðimenn telja almennt að þessar jólavættir eigi sér mjög fornar sameiginlegar rætur í heiðni.

Einn þekktasti ættingi jólakattarins á erlendri grund er trúlega norræni jólahafurinn (sjá mynd hér að neðan) en hann er að mestu leyti eins í háttum og kötturinn nema hvað útlitið snertir. Við þekkjum orðtökin um jólaköttinn: „Að fara í jólaköttinn“ eða „klæða köttinn/jólaköttinn“. Um jólahafur þekkist norska orðtakið: „Att gå buck“ sem er sambærilegt við orðtakið um jólaköttinn. Í norskri þjóðtrú þýðir það beinlínis að klæðast gervi jólahafursins eins og eitt sinn var gert í jólaleikjum á Norðurlöndum. Fyrr á öldum tíðkuðust hérlendis vikivakaleikir um jólaleytið þar sem menn klæddust í gervi ýmissa kynjadýra og vætta. Þó að ekki þekkist heimildir þar um hafa menn velt fyrir sér þeirri hugmynd að jólakötturinn hafi þekkst sem slík persóna, samanber fyrrnefnt orðatiltækið um hann og þá í þeirri merkingu að íklæðast gervi kattarins. Ef svo væri gæti jólakötturinn átt sér fornar rætur því dýragervi margs konar hafa tengst hátíðum og leikjum á Norðurlöndum, á keltneskum landsvæðum og víðar í Evrópu frá fornu fari.

Þess má líka geta að kettir sem ógnvekjandi skrímsli þekkjast í þjóðtrú okkar: Skoffín, skuggabaldrar, finngálkn og urðarkettir. Þetta eru myrkraverur sem varasamar eru okkur mönnunum líkt og jólakötturinn. Sams konar þjóðtrú þekkist einnig á Bretlandseyjum, einkum í keltneskum þjóðsögum. Þar má finna mörg dæmi um skelfileg kattarskrímsli sem ógna lífi og limum manna. Margt í fari þeirra minnir óneitanlega á framferði jólakattarins okkar eins og því er lýst í hugarheimum heimildamanna þjóðháttadeildar og einnig í kvæði Jóhannesar úr Kötlum um jólaköttinn. Því má vel álykta að samband sé þarna á milli. Landnámsmenn komu hingað frá Bretlandseyjum bæði norrænir og keltneskir. Ástæðulaust er að ætla annað en að þeir hafi flutt með sér munnmæli og þjóðtrú ýmiss konar, ef til vill hugmyndir sem áhrif höfðu á þjóðtrú okkar um jólaköttinn.

Menn hafa líka velt fyrir sér af hverju jólakötturinn er köttur en ekki einhver önnur skepna. Höfum í huga að kötturinn er rándýr sem ferðast um í skjóli nætur og liggur fyrir bráð sinni. Sem slíkur er ekki óeðlilegt að hann hafi valist í hlutverk þessarar jólavættar sem hrellir okkur mannverurnar á myrkasta tíma ársins.

Á heimasíðu höfundarins er nánar fjallað um jólaköttinn. Einnig er hægt að nálgast BA-ritgerð höfundar um jólaköttinn á Landsbókasafni Íslands/ Háskólabókasafni: Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir (2002). "Þið kannist við jólaköttinn..." Uppruni hans, ættir og hlutverk. Reykjavík: Háskóli Íslands. Félagsvísindadeild.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og myndir

 • Árni Björnsson (1993). Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning.
 • Guðmundur Ólafsson (1989). Jólakötturinn og uppruni hans. Árbók hins íslenzka fornleifafélags, 1989. Ritstj. Inga Lára Baldvinsdóttir. Reykjavík: Hið íslenzka fornleifafélag. Bls. 111-120.
 • Gunnell, Terry (1995). The Origins of Drama in Scandinavia. Woodbridge: D. S. Brewer.
 • Hermann Pálsson (1996). Keltar á Íslandi. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
 • Jóhannes úr Kötlum (1932). Jólin Koma: Kvæði handa börnum. Reykjavík: Mál og menning.
 • Jón Árnason (1956-1961). Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, II. Ný útg. Reykjavík: Þjóðsaga.
 • Jón Samsonarson (útg.) (1964). Íslensk þjóðfræði: Kvæði og dansleikir I. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
 • Piø, Iörn (1990). Bogen om Julen: Historien om julen og dens traditioner. Danmark: Forlaget Sesam a/s.
 • Rose, Carol (2000). Giants, Monsters and Dragons: An Encyclopaedia of Folklore, Legend and Myth. Santa Barbara California: ABC-Clio.
 • Sigfús Sigfússon (1982/ 1986). Íslenskar þjóðsögur og sagnir III, IV, VI. Reykjavík: Þjóðsaga.
 • Strömbäck, Dag (1953). Um íslenzka vikivakaleiki og uppruna þeirra. Fyrirlestur fluttur í Háskóla Íslands 12. júní, 1953. Skírnir: Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, cxxvii árg. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag. Bls. 70-80.
 • Weiser-Aall, Lily (1954). Julenissen og julgeita i Norge: Småskrifter fra Norsk Etnologisk Gransking. Oslo: Norsk Folkemuseum.
 • Mynd af jólakettinum er af Bringing people together through art. Holly Hughes.
 • Mynd af jólahafri er af Willkommen in Brunnvalla bei Don und Ginger.

Þetta svar getur einnig átt við spurninguna:
 • Hvenær kom jólakötturinn inní íslenska menningu? Er möguleiki á því að hann er í raun og veru auglýsingabrella sem hræddi fólk til þess að kaupa ný föt fyrir jólin?

Höfundur

Útgáfudagur

23.12.2005

Spyrjandi

Steingrímur Jón Guðjónsson, Erla Dís Kjartansdóttir

Tilvísun

Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir. „Hver er uppruni jólakattarins?“ Vísindavefurinn, 23. desember 2005. Sótt 15. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5511.

Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir. (2005, 23. desember). Hver er uppruni jólakattarins? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5511

Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir. „Hver er uppruni jólakattarins?“ Vísindavefurinn. 23. des. 2005. Vefsíða. 15. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5511>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er uppruni jólakattarins?
Ekki er til neitt einfalt og öruggt svar við þessari spurningu en það er einmitt það sem gerir jólaköttinn svo dularfullan og áhugaverðan. Aftur á móti eru til ýmsar heimildir sem gefa okkur vísbendingar um hvaðan þessi skepna gæti verið komin.

Jólakötturinn er einn af mörgum svipuðum jólavættum sem þekkst hafa í Evrópu á liðnum öldum. Hlutverk þessara vætta er sameiginlegt: Að fylgjast með jólaundirbúningi manna og sjá til þess þeir klári öll verk sem vinna þarf fyrir jólin, hvort sem það er að prjóna og vinna fatnað, baka, brugga eða útbúa jólamatinn. Ef það tekst ekki refsa vættirnar fólki, samanber orðtakið „að fara í jólaköttinn“ sem samkvæmt heimildamönnum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns þýðir eitthvað miður gott. Fræðimenn telja almennt að þessar jólavættir eigi sér mjög fornar sameiginlegar rætur í heiðni.

Einn þekktasti ættingi jólakattarins á erlendri grund er trúlega norræni jólahafurinn (sjá mynd hér að neðan) en hann er að mestu leyti eins í háttum og kötturinn nema hvað útlitið snertir. Við þekkjum orðtökin um jólaköttinn: „Að fara í jólaköttinn“ eða „klæða köttinn/jólaköttinn“. Um jólahafur þekkist norska orðtakið: „Att gå buck“ sem er sambærilegt við orðtakið um jólaköttinn. Í norskri þjóðtrú þýðir það beinlínis að klæðast gervi jólahafursins eins og eitt sinn var gert í jólaleikjum á Norðurlöndum. Fyrr á öldum tíðkuðust hérlendis vikivakaleikir um jólaleytið þar sem menn klæddust í gervi ýmissa kynjadýra og vætta. Þó að ekki þekkist heimildir þar um hafa menn velt fyrir sér þeirri hugmynd að jólakötturinn hafi þekkst sem slík persóna, samanber fyrrnefnt orðatiltækið um hann og þá í þeirri merkingu að íklæðast gervi kattarins. Ef svo væri gæti jólakötturinn átt sér fornar rætur því dýragervi margs konar hafa tengst hátíðum og leikjum á Norðurlöndum, á keltneskum landsvæðum og víðar í Evrópu frá fornu fari.

Þess má líka geta að kettir sem ógnvekjandi skrímsli þekkjast í þjóðtrú okkar: Skoffín, skuggabaldrar, finngálkn og urðarkettir. Þetta eru myrkraverur sem varasamar eru okkur mönnunum líkt og jólakötturinn. Sams konar þjóðtrú þekkist einnig á Bretlandseyjum, einkum í keltneskum þjóðsögum. Þar má finna mörg dæmi um skelfileg kattarskrímsli sem ógna lífi og limum manna. Margt í fari þeirra minnir óneitanlega á framferði jólakattarins okkar eins og því er lýst í hugarheimum heimildamanna þjóðháttadeildar og einnig í kvæði Jóhannesar úr Kötlum um jólaköttinn. Því má vel álykta að samband sé þarna á milli. Landnámsmenn komu hingað frá Bretlandseyjum bæði norrænir og keltneskir. Ástæðulaust er að ætla annað en að þeir hafi flutt með sér munnmæli og þjóðtrú ýmiss konar, ef til vill hugmyndir sem áhrif höfðu á þjóðtrú okkar um jólaköttinn.

Menn hafa líka velt fyrir sér af hverju jólakötturinn er köttur en ekki einhver önnur skepna. Höfum í huga að kötturinn er rándýr sem ferðast um í skjóli nætur og liggur fyrir bráð sinni. Sem slíkur er ekki óeðlilegt að hann hafi valist í hlutverk þessarar jólavættar sem hrellir okkur mannverurnar á myrkasta tíma ársins.

Á heimasíðu höfundarins er nánar fjallað um jólaköttinn. Einnig er hægt að nálgast BA-ritgerð höfundar um jólaköttinn á Landsbókasafni Íslands/ Háskólabókasafni: Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir (2002). "Þið kannist við jólaköttinn..." Uppruni hans, ættir og hlutverk. Reykjavík: Háskóli Íslands. Félagsvísindadeild.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og myndir

 • Árni Björnsson (1993). Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning.
 • Guðmundur Ólafsson (1989). Jólakötturinn og uppruni hans. Árbók hins íslenzka fornleifafélags, 1989. Ritstj. Inga Lára Baldvinsdóttir. Reykjavík: Hið íslenzka fornleifafélag. Bls. 111-120.
 • Gunnell, Terry (1995). The Origins of Drama in Scandinavia. Woodbridge: D. S. Brewer.
 • Hermann Pálsson (1996). Keltar á Íslandi. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
 • Jóhannes úr Kötlum (1932). Jólin Koma: Kvæði handa börnum. Reykjavík: Mál og menning.
 • Jón Árnason (1956-1961). Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, II. Ný útg. Reykjavík: Þjóðsaga.
 • Jón Samsonarson (útg.) (1964). Íslensk þjóðfræði: Kvæði og dansleikir I. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
 • Piø, Iörn (1990). Bogen om Julen: Historien om julen og dens traditioner. Danmark: Forlaget Sesam a/s.
 • Rose, Carol (2000). Giants, Monsters and Dragons: An Encyclopaedia of Folklore, Legend and Myth. Santa Barbara California: ABC-Clio.
 • Sigfús Sigfússon (1982/ 1986). Íslenskar þjóðsögur og sagnir III, IV, VI. Reykjavík: Þjóðsaga.
 • Strömbäck, Dag (1953). Um íslenzka vikivakaleiki og uppruna þeirra. Fyrirlestur fluttur í Háskóla Íslands 12. júní, 1953. Skírnir: Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, cxxvii árg. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag. Bls. 70-80.
 • Weiser-Aall, Lily (1954). Julenissen og julgeita i Norge: Småskrifter fra Norsk Etnologisk Gransking. Oslo: Norsk Folkemuseum.
 • Mynd af jólakettinum er af Bringing people together through art. Holly Hughes.
 • Mynd af jólahafri er af Willkommen in Brunnvalla bei Don und Ginger.

Þetta svar getur einnig átt við spurninguna:
 • Hvenær kom jólakötturinn inní íslenska menningu? Er möguleiki á því að hann er í raun og veru auglýsingabrella sem hræddi fólk til þess að kaupa ný föt fyrir jólin?
...