Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaHugvísindiörnefniFjall í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi er ýmist nefnt Gunnólfsfell, Gunnúlfsfell, eða Gunnungsfell. Getið þið skorið úr um rétt nafn?
Þessi nöfn koma ekki fram í miðaldaritum, en talið er að fjall sem nefnt er Kolssonafjall í Landnámabók geti átt við þetta fjall (Íslenzk fornrit I:120-121).
Elstu tiltækar heimildir um nöfnin eru sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags um Setbergssókn, önnur frá 1840 eftir sr. Einar Sæmundsson, hin frá 1873 eftir sr. Helga Sigurðsson. Í báðum lýsingum er eingöngu nefnd myndin Gunnungsfell (bls. 150, 155, 243, 248-9). Seinni lýsingunni fylgir uppdráttur sem birtur er aftast í útgáfunni sem er frá 1970 og þar er skrifað Gunnúngsfell.
Í örnefnaskrá sem Þorleifur Jóhannesson skráði 1933-35, er fjallið nefnt Gunnólfsfell. Rúrik Kristjánsson frá Eiði gerir athugasemd við þessa örnefnaskráningu 9. janúar 1978 og segir að fjallið hafi jafnan verið nefnt Gunnlaugsfell. Sveinn Arnórsson frá Eiði segist (2. febr 2010) eingöngu hafa heyrt nafnið Gunnólfsfell. Arnór Kristjánsson bóndi á Eiði taldi að fjallið héti Gunnúlfsfell.
Í Eyrarplássinu töluðu menn því um Gunnungsfell en Eiðisfólkið talaði um Gunnólfs- eða Gunnúlfsfell og jafnvel Gunnlaugsfell.
Ekkert af þessum nöfnum nema Gunnungsfell kemur fyrir fyrr en á 20. öld. Í Árbók Ferðafélags Íslands 1986, Snæfellsnes norðan fjalla, sem Einar Haukur Kristjánsson tók saman, er aðalmyndin Gunnungsfell en Gunnólfsfell haft innan sviga. Gunnungsfell er á korti í Árbókinni á bls. 47.
Vegagerðin notaði nafnið Gunnungsfell í sambandi við þverun Kolgrafarfjarðar 2001: "Kostur 2 gerir ráð fyrir að þvera fjörðinn innarlega á móts við Gunnungsfell sem er óveruleg stytting." (Skessuhorn Vesturlandsvefurinn).
Fjallið er nefnt Gunnúlfsfell á Uppdrætti Íslands, blaði 15, í mælikvarðanum 1: 100 000 frá Landmælingum Íslands, en á nýju göngukorti sem Reynir Ingibjartsson gerði hefur hann sett nafnið Gunnólfsfell.
Af framansögðu er ljóst að taka verður mark á elstu þekktu heimildinni, sem er sóknarlýsingin frá 1840, þar sem aðeins Gunnungsfell er nefnt. Öruggar heimildir eru ekki fyrir Gunnólfsfelli fyrr en tæpri öld síðar hjá Þorleifi Jóhannessyni. Gunnungsfell er því metið sem rétta nafnið.
Gunnungur er ekki þekkt sem nafn á manni né á neinu öðru á Íslandi, en Gunnólfur er hins vegar þekkt nafn hér úr Landnámu. Breytingin felst í því að óþekktum forlið nafns er breytt í þekktan, sem ekki er óalgengt þegar um örnefni er að ræða. Auk þess var Gunnólfsfell til sem örnefni, það er á Langanesi, nú Gunnólfsvíkurfjall.
Helstu heimildir:
Árbók 1986. Snæfellsnes norðan fjalla. Einar Haukur Kristjánsson tók saman. Ferðafélag Íslands 1986.
Landnámabók. Íslendingabók. Landnámabók. Íslenzk fornrit I. Jakob Benediktsson gaf út. Reykjavík 1968.
Mið-Snæfellsnes. Sérkort og leiðarlýsing. Umsjón: Reynir Ingibjartsson. Án árs.
Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenzka bókmenntafélags. Svavar Sigmundsson og Ólafur Halldórsson sáu um útgáfuna. Snæfellsnes III. Reykjavík 1970.
Tölvupóstar milli Eyrbyggja - Hollvinasamtaka Grundarfjarðar 3.-4. febrúar 2010.
Uppdráttur Íslands. Blað 15. 1: 100 000. Landmælingar Íslands 1973.
Svavar Sigmundsson. „Fjall í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi er ýmist nefnt Gunnólfsfell, Gunnúlfsfell, eða Gunnungsfell. Getið þið skorið úr um rétt nafn?“ Vísindavefurinn, 9. febrúar 2010, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=55303.
Svavar Sigmundsson. (2010, 9. febrúar). Fjall í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi er ýmist nefnt Gunnólfsfell, Gunnúlfsfell, eða Gunnungsfell. Getið þið skorið úr um rétt nafn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=55303
Svavar Sigmundsson. „Fjall í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi er ýmist nefnt Gunnólfsfell, Gunnúlfsfell, eða Gunnungsfell. Getið þið skorið úr um rétt nafn?“ Vísindavefurinn. 9. feb. 2010. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=55303>.